132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:36]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur gert vaxtabætur að umtalsefni í ræðum sínum við umræður um fjárlög, bæði við 2. umr. og nú við 3. umr. Hún hefur farið mikinn og telur að ríkisstjórnin ætli sér að skerða framlög til vaxtabóta og hefur rukkað Framsóknarflokkinn mikið um svör í þeim efnum. Svarið er það að ekki stendur til að skerða framlög til vaxtabótakerfisins, það er á hreinu. Þvert á móti munu framlög á milli áranna 2005 og 2006 aukast rétt eins og flestallir aðrir málaflokkar er snerta fjölskyldu- og velferðarmál í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum hér. Við framsóknarmenn höfum lagt ríka áherslu á að standa vörð um vaxtabótakerfið, standa vörð um þann stuðning sem það er við fólk sem á húsnæði og er að greiða af lánum vegna húsnæðis hér á landi, standa vörð um þá samhjálp sem vaxtabótakerfið er. Það er ekki þar með sagt að ekki komi til greina að breyta einhverjum hlutum vaxtabótakerfisins þannig að það hvetji ekki til þeirrar skuldsetningar sem kannski núverandi kerfi gerir. En það er alveg á hreinu að við munum standa vörð um þá fjármuni, þá rúmu 5 milljarða, sem áætlaðir eru til vaxtabótakerfisins í landinu og það verður ekki skerðing á vaxtabótum á milli áranna 2005 og 2006 heldur aukning.