132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:42]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef þetta hefur verið yfirlýsing um að þær lagabreytingar sem gera þarf til að skerðingarnar sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu komi ekki til framkvæmda, þ.e. ef verið er að lýsa því hér yfir að þetta verði ekki gert, þá hlýt ég að fagna því, ég hlýt að gera það. En því fjármagni sem í það þarf það fara sér hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu. Það er hvergi í þessu fjárlagafrumvarpi. Það hlýtur að þurfa að koma fram með meira afgerandi hætti af hálfu ríkisstjórnarinnar að þetta verði ekki gert vegna þess að fjárlagafrumvarpið sem hér er verið að ræða og á að fara að samþykkja segir ósköp einfaldlega að þetta eigi að gera. Við höfum enga tryggingu fyrir því aðra en þessi orð hér. Ég veit ekki hversu marktæk þau eru þar sem maður hefur ekki heyrt þau frá öðrum. En ef þetta er rétt fagna ég því og mun auðvitað fylgjast með að svo verði.

Virðulegi forseti. Ég tel að vaxtabótakerfið sé einmitt núna gríðarlega mikilvægt fyrir það unga fólk sem er að að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Við vitum að heildarskuldir ungs fólks eru að langstærstum hluta tilkomnar vegna húsnæðiskaupa en gefið var í skyn hér við 2. umr. að vaxtabótakerfið hvetti til skuldsetningar ungs fólks. Ég tel það alls ekki rétt. Mér heyrist hv. þingmaður vera sammála mér um það að þetta séu lán sem fólk tekur einfaldlega til að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta sé rétt en það er auðvitað erfitt að trúa því þegar þá fjármuni er ekki að finna í fjárlagafrumvarpinu sem þarf til að vaxtabótakerfið standi óbreytt .