132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:01]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mikil ræða og undarleg. Mörg orð voru höfð um þátt ríkisstjórnarinnar í mikilvægi háskólamenntunar á landsbyggðinni. Á sama tíma er Háskólinn á Akureyri í kröggum. Hann er að loka tveimur deilda sinna. Hann er að skera verulega niður í rekstri sínum. Hann er að draga saman seglin. Þessi prúðasta rós í byggðastefnu stjórnvalda er að draga saman seglin um leið og upplýst er að hann fær lægst nemendaframlög allra háskóla á landinu og er þá gengið langt í samjöfnuði þar sem Háskóli Íslands fær umtalsvert meira á hvern nemanda, er einhver verst setti háskóli í Evrópu, fyrir utan háskólann í Rijeka í Króatíu. Háskólinn á Akureyri er sem sagt enn þá verr settur á sama tíma og hv. þm. Birkir Jón Jónsson kemur hér upp og talar um menntastefnu stjórnvalda á landsbyggðinni sem er ekkert annað en skrum og aðför að menntun á landsbyggðinni eins og staðið er að Háskólanum á Akureyri. Hvernig ætlar hv. þingmaður að mæta bráðavanda skólans núna?