132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:02]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Merkilegt er að heyra málflutning hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, talsmanns Samfylkingarinnar í menntamálum. Hver hefur breytingin verið frá 1995–2005 í starfsemi Háskólans á Akureyri? Er hv. þingmaður að tala um að núverandi stjórnarflokkar hafi verið að gera aðför að Háskólanum á Akureyri? Háskólinn á Akureyri hefur aldrei verið öflugri en nú. Það hafa aldrei verið fleiri nemendur við Háskólann á Akureyri. Ég hef talað um að skoða þurfi húsnæðismál skólans. Það er unnið að því á vettvangi ríkisstjórnarinnar og fortíðin hefur sagt okkur að við munum áfram standa vörð um Háskólann á Akureyri. Það stendur ekkert annað til í þeim efnum og allt tal um að ríkisstjórnin sé með sérstaka aðför að Háskólanum á Akureyri er einfaldlega ekki rétt.