132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:06]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður Birkir Jón Jónsson dásamaði mjög stefnu ríkisstjórnarinnar og sérstaklega Framsóknarflokksins í atvinnumálum hvað viðvíkur álverum og stórvirkjunum. Þetta væri það sem koma skyldi og haldið áfram á þeirri braut. Ætli flestum finnist ekki nóg komið í bili? Ég vil spyrja þingmanninn: Hverju mundu Húsvíkingar eða Þingeyingar svara ef þeir fengju ekki nema brot af því sem kostar að stofna álver og stórvirkjun í Skjálfandafljóti? 500 milljónir eða 1 milljarð til að byggja upp ferðaþjónustu eða efla þekkingarsetrið á Húsavík. Eða Eyfirðingar. Mundu þeir ekki vilja taka peningana sem nú er verið að verja í álrannsóknir til að styrkja háskólann sinn? Það væru áherslur ef þeir fengju að velja. En atvinnustefna Framsóknarflokksins er að láta byggðarlögin standa frammi fyrir eftirfarandi: Álver eða ekki neitt. Fórnið náttúruperlunum ykkar, fossunum, Aldeyjarfossi, Þjórsárverum, hverju sem er (Forseti hringir.) fyrir álversstefnu ríkisstjórnarinnar. Haldið þið ekki að Húsvíkingar mundu vilja skipta? (Forseti hringir.)