132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:13]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga það fram að við höfum talað um hversu mikill kostnaður það sé fyrir fjölskyldur að vera með börn í leikskóla. Það er ekki bara kostnaðarsamt að vera með börn í leikskólum, kostnað upp á um tugi þúsunda króna á mánuði, heldur er líka mjög kostnaðarsamt fyrir fjölskyldur að vera með börn á yngstu stigum í grunnskóla sem eru í svokallaðri dægradvöl og einnig ef þau eiga að fá heitan mat í hádeginu.

En það er ekki bara leikskólinn sem við þurfum að skoða. Ég tel að við þurfum að ráðast í gagngera skoðun á (Gripið fram í.) námskostnaði, hvernig hann leggst á fjölskyldur í landinu, þ.e. með leikskóla, grunnskóla, endurgreiðslur á námslánum. Við verðum að skoða hvernig námskostnaður leggst á ungar barnafjölskyldur. Þetta verðum við að skoða allt í samhengi.