132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:16]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Okkur hv. þingmann, framsóknarmenn og Vinstri græna, greinir herfilega á í atvinnumálum. Framsóknarmenn hafa viljað bæta starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Við komum að stjórnvölnum árið 1995 í miklu atvinnuleysi. Það er lítið atvinnuleysi á Íslandi í dag. Íslenskri þjóð gengur vel en Vinstri grænir hafa verið á móti þeirri atvinnustefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur rekið. Þar vil ég nefna fiskveiðistjórnarkerfið, uppbyggingu stóriðju (Gripið fram í.) og markaðsvæðingu Símans. Þessir þrír þættir hafa leitt til þess að hagvöxtur hefur orðið gríðarlegur hér á landi og kaupmáttur aukist hjá öllum þjóðfélagshópum í framhaldinu. Um það er ekki deilt.

Ég er talsmaður þess að halda í samhjálpina í íslensku samfélagi. En til að halda í samhjálpina verðum við að reka öfluga atvinnustefnu. Þá atvinnustefnu hafa Vinstri grænir einfaldlega ekki. Þeir hafa ekki stutt þá atvinnustefnu sem stjórnarflokkarnir hafa rekið í gegnum tíðina og staðan væri einfaldlega ekki eins góð og hún er í dag ef ekki væri fyrir atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar.