132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hagvöxtur hefur aukist um nánast allan hinn iðnvædda heim á undanförnum árum. Svo hefur einnig verið hér á landi, þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem hér hefur setið. Hins vegar er áhyggjuefni manna á hvern hátt þeim hagvexti hefur verið náð, þ.e. með gegndarlausri skuldasöfnun og meiri viðskiptahalla en dæmi eru um í Íslandssögunni.

Hv. þingmaður segist vera stuðningsmaður velferðarkerfisins. Hann vék sérstaklega að barnabótum, hækkun þeirra um 1,2 milljarða kr. Staðreyndin er sú að á síðasta ári voru barnabætur 5,4 milljarðar kr. Þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda voru þær 6,4 milljarðar kr. (BJJ: Miðað við hvað?) á föstu verðlagi en 7,2 milljarðar kr. í byrjun áratugarins. Þrátt fyrir öll loforðin sem Framsóknarflokkurinn hefur gefið nánast á hverju ári og fyrir allar kosningar frá 1995, sem hafa verið svikin, stöndum í lægri tölu á föstu (Forseti hringir.) verðlagi en þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda.