132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:19]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður verður náttúrulega að horfa á hina hliðina á peningnum. Kaupmáttaraukning í íslensku samfélagi hefur verið á bilinu 50–60% frá árinu 1995. Hvernig höfum við hagað úthlutun barnabóta? Jú, þær eru tekjutengdar. Það hlýtur að leiða af sjálfu sér að ef tekjur almennings í landinu stórhækka, um 50–60% þá lækka barnabætur sé tekjuviðmiðið ekki hækkað. Það leiðir af sjálfu sér.

Aðalatriðið er að verja á 3 milljarð kr. á næstu tveimur árum til að hækka barnabætur, þrátt fyrir að kaupmáttaraukning hafi aldrei verið meiri í íslensku samfélagi en á umræddu tímabili. Hv. þingmaður ætti að fagna þeirri áherslu okkar framsóknarmanna að þeir fjármunir munu fyrst og fremst fara til lágtekjufólks og millitekjufólks. Hv. þingmaður á að taka undir það með okkur framsóknarmönnum að það er góð forgangsröðun. (ÖJ: Ég benti á svikin loforð.)