132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég gerði ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra færi í andsvör við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. En hæstv. ráðherra ætlar greinilega að slá tvær flugur í einu höggi og fara í sameiginleg andsvör við okkur báðar enda veit hún sem er að menntamál verða fyrirferðarmikil í ræðu minni. Við hefðum gjarnan viljað hafa hæstv. menntamálaráðherra hér hjá okkur við 2. umr. fjárlaga. Það varð því miður ekki og því er eðlilegt að við tökum talsverðan tíma í það við 3. umr. að ræða menntamálin.

Ég ætla að byrja á að gera að umtalsefni orð hæstv. ráðherra í andsvari við hv. þm. Helga Hjörvar hér fyrr í dag. Þar klifaði hún enn eina ferðina á setningu sem hún hefur sagt aftur og aftur og kann náttúrulega algerlega utanbókar aftur á bak og áfram. Setningin er þessi: Við erum að stórauka framlög til háskólastigsins. Svo bætir hún iðulega við: En að sjálfsögðu er alltaf hægt að gera betur. Síðan sagði hæstv. ráðherra að hún hefði aldrei heyrt stjórnarandstöðuþingmann viðurkenna það úr þessum ræðustóli að verið væri að auka fjárframlög til háskólastigsins. Ef hún hefur ekki heyrt það þá hefur hún ekki verið að hlusta á mig þegar ég hef veitt þessari ríkisstjórn viðurkenningu fyrir það. Ég hef að vísu á sama tíma gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir forgangsröðunina, þ.e. hvaða háskólar það eru sem fá aukna fjármuni frá ríkisstjórninni. Það eru dekurbörn ríkisstjórnarinnar, einkaháskólarnir. En ég hef líka fagnað fjölbreytninni. Það er rangt sem hæstv. ráðherra sagði í andsvörum sínum við hv. þm. Helga Hjörvar að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði barist hatrammlega gegn fjölbreytninni. Ég hef fagnað hverju nýju tækifæri sem íslenskir háskólastúdentar fá til náms. Alveg sama hvaða skólar bjóða upp á þau tækifæri. Hins vegar gagnrýni ég ríkisstjórnina fyrir að taka einkaháskólana út fyrir sviga og hækka fjárframlögin til þeirra umtalsvert meira en til opinberu háskólanna. Opinberlega fagnaði ég auknum tækifærum háskólastúdenta til náms síðast á fundi í Háskóla Íslands þann 1. desember. Stúdentaráð boðaði fulltrúa stjórnmálaflokkanna til hátíðarfundar í hátíðarsal skólans og vildi ræða við okkur fjármál hans. Nemendur vildu ræða við okkur um það hvernig staða háskólans hefði áhrif á þá. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þar voru afar áhrifamiklar ræður fluttar. Pallborðsumræður sem fóru fram eftir ræður stúdenta voru mjög málefnalegar.

Á þessum fundi kom fram, og ég veit að hæstv. ráðherra er vel kunnugt um það, að aukningin á milli áranna 2005 og 2006 til háskólanna er á þann veg að Háskóli Íslands hækkar minnst. Hann hækkar um 12,9%. Á sama tíma hækkar háskólinn á Hólum í Hjaltadal um 29,3%. Nú skulum við undanskilja Landbúnaðarháskólann og háskólann á Hólum í Hjaltadal og skoða eingöngu þá háskóla sem heyra undir hæstv. menntamálaráðherra. Þá er það Viðskiptaháskólinn á Bifröst sem hækkar mest eða um 21,6%. Háskólinn í Reykjavík og Tækniháskólinn hækka um svipaða tölu, 20,6%. En opinberu háskólarnir hækka allir þrír minna: Háskóli Íslands um 12,9%, eins og ég sagði, Kennaraháskólinn um 13,1% og Háskólinn á Akureyri um 17,5%. Það er þessi forgangsröðun sem ég gagnrýni. Ég stend á því fastar en fótunum að hæstv. ráðherra sé að bregðast flaggskipi æðri menntunar á Íslandi, Háskóla Íslands, með stefnu sinni í fjárveitingum til háskólastigsins.

Sérfræðingar, bæði innlendir og erlendir, hafa greint ástandið í Háskóla Íslands og það er óumdeilt. Við þekkjum öll þá stjórnsýslu- og fjárhagsúttekt sem Ríkisendurskoðun gerði og birt var fyrir skemmstu. Stjórnsýsluúttektin leiðir í ljós að Háskóli Íslands er ódýr í rekstri í samanburði við sambærilega háskóla í nágrannalöndunum. Því eigum við auðvitað að fagna. Við eigum líka að fagna því hvernig Háskóli Íslands kemur út, bæði hvað varðar kennslu og eins hve nemendur hans koma vel út í samkeppni við háskóla á erlendri grund. Háskóli Íslands kemur mjög vel út og nemendur hans koma mjög vel út. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra segir um þann þátt samkeppninnar. Ég vil að við tryggjum að Háskóli Íslands fái áfram að standa jafn vel að vígi og helst betur í þeirri samkeppni. En ég vil að við leggjum af allt tal um samkeppni hér innan lands þar sem verið er að etja skólum saman og láta þá keppa um fjármagn á ótrúlega ósanngjörnum forsendum.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar kemur líka fram að skilvirkni Háskóla Íslands sé mikil. En þar er þess líka getið að framhaldsnemar séu hlutfallslega fáir og stundakennarar séu margir. Nú er það svo að tekjur á skráðan nemanda í Háskóla Íslands eru lágar miðað við þá skóla sem hann ber sig saman við — sem eru háskólar í nágrannalöndum okkar, sem er eðlilegt og sanngjarnt að skólinn beri sig saman við. Í Háskóla Íslands eru tekjur á skráðan nemanda lægstar af öllum þeim skólum sem stjórnendur skólans hafa gegnum árin borið sig saman við til að fá marktæka niðurstöðu. Á sama tíma eru skráðir nemendur á starfsmann í Háskóla Íslands miklu fleiri en í umræddum samanburðarháskólum. Í Háskóla Íslands er ævinlega verið að fjölga nemendum á hvern kennara. Búin eru til námsúrræði fyrir nemendur sem eru í sjálfu sér ekki boðleg í skóla sem ætlar að standa sig og stendur sig þó jafn vel og raun ber vitni í samkeppninni. Það verður að hægja á í þessum efnum. Það verður að fækka nemendum á hvern skráðan starfsmann. Það verður að fjölga framhaldsnemum til að Háskóli Íslands geti talist rannsóknarháskóli á heimsmælikvarða, sem ég held að hæstv. ráðherra vilji í orði kveðnu. Hæstv. ráðherra verður að styðja við bakið á þeirri stefnu stjórnenda Háskólans að þeir fái svigrúm til að fjölga doktorsnemum upp í 60 á næstu fimm árum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lýst miklum stuðningi við þá stefnu. Núna eru doktorsnemar við Háskóla Íslands einungis 12. Ef við viljum að Háskóli Íslands nái að standa vel í fæturna í samkeppninni við háskóla á erlendri grund verður að fjölga doktorsnemum. Það verður ekki gert nema með auknum fjármunum til skólans.

Það er líka ámælisvert, frú forseti, að fé til rannsókna til Háskóla Íslands hefur nánast staðið í stað á sama tíma og afköst í rannsóknum hafa aukist. Á þessu sviði stendur Háskóli Íslands sig afburðavel. En á sama tíma vantar 200 millj. upp á að ríkið standi við rannsóknarsamning sinn við skólann. Í fjárframlag til rannsókna vantar 200 millj. kr. upp á að ríkið standi við samkomulag sem það sjálft hefur gert. Á sama tíma fær Háskólinn í Reykjavík, einn af einkaháskólunum, 200 millj. kr. í rannsóknir án þess að hafa rannsóknarsamning. Þetta er ekki jafnvægi. Þetta er ójafnvægi. Þarna er verið að mismuna, frú forseti.

Hæstv. ráðherra verður að sjá til að staðið sé við þá samninga sem gerðir eru í þessum geira. Það er skammarlegt að ekki sé staðið við þann rannsóknarsamning sem gerður hefur verið við Háskóla Íslands. Það er eitt af því sem við gagnrýnum hér í þessari umræðu þegar við erum að tala um fjárlögin í 3. umr.

Stjórnendur Háskóla Íslands hafa staðið sig vel og hagað rekstri skólans í samræmi við fjárveitingar og aðrar tekjur. Ekki verður annað sagt og ég vona að hæstv. ráðherra sé mér sammála um það. Gripið hefur verið til ýmissa aðhaldsaðgerða. En það má aldrei verða svo að aðhaldsaðgerðirnar skeri svo nærri beinunum að gæði námsins séu í hættu. Það er líka ljóst að hlutfall þeirra tekna sem skólinn verður að afla sér fyrir utan ríkisframlagið er hátt í samanburði við erlenda háskóla. Það er áhyggjuefni þegar litið er á tölfræðina í Háskóla Íslands hversu t.d. framlag frá Happdrætti Háskóla Íslands hefur lækkað. Það hefur lækkað á árunum 1988 til 2005 um 68%. Það er verulegt áhyggjuefni að fjárveitingarnar sem skólinn hefur ævinlega getað reitt sig á frá happdrættinu skuli hafa lækkað svona mikið. Það er líka áhyggjuefni í sambandi við Happdrætti Háskóla Íslands að það skuli þurfa að borga 100 millj. kr. á ári í ríkissjóð í einkaleyfisgjald fyrir peningahappdrætti. Ef Happdrætti Háskóla Íslands ætti að standa á þann veg á bak við Háskóla Íslands að okkur fyndist sómi að, og eins og ég veit að þeir hv. þingmenn sem stóðu að lögunum um happdrættið ætluðust til, væri löngu búið að leggja niður umrætt einkaleyfagjald og sjá til þess að happdrættið fengi það óskipt svo að það gæti runnið til háskólans.

Hæstv. ráðherra er í lófa lagið að breyta þessu. Við erum ekki að tala um að það þurfi beinlínis að fara ofan í ríkissjóð til að auka fjárveitingarnar. Þarna eru um 100 millj. kr. árlega í einkaleyfagjaldinu sem við getum látið renna beint til happdrættisins og þar með til að efla háskólann.

Við vitum líka að fjárhagsvandi Háskóla Íslands er hvorki fólginn í stöðugum hallarekstri skólans né heldur í skuldasöfnuninni. Skólanum er mjög óhægt um vik að mæta auknum kostnaði vegna fleiri nemenda eða nýrra námsbrauta og dýrari starfsmanna, án þess að það komi niður á gæðum, bæði kennslu og rannsókna. Það verður líka að viðurkennast að Háskóli Íslands þarf aukna fjármuni til að styrkja framhaldsnámið og það er veruleg hætta orðin á því núna, eins og málum er komið, að rannsóknaháskólinn sem við viljum öll reka og standa við bakið á, verði ekki eins öflugur og draumar okkar segja til um og atgervi þeirra sem starfa í háskólanum, hvort sem það eru kennarar eða stúdentar, segir okkur að gæti orðið.

Eitt af því sem veldur áhyggjum þegar statistikkin er skoðuð er að hlutfall fjárveitinga til rannsókna til Háskóla Íslands hefur farið lækkandi. Það er áhyggjuefni út af fyrir sig. Þegar öllu er á botninn hvolft greiðir ríkissjóður ekki með öllum þeim nemendum sem stunda nám við Háskóla Íslands, jafnvel þó ég hafi fagnað þeirri aukningu sem kom sem kennsluframlag í því frumvarpi sem við ræðum núna. Það er virkilegt fagnaðarefni að gerð hafi verið sú leiðrétting sem raun ber vitni. Hún er vissulega til bóta. En skrefið er ekki stigið til fulls. Enn þá vantar fjármuni upp á að greitt sé með öllum þeim nemum sem stunda nám við Háskóla Íslands. Maður hlýtur að spyrja: Hvers vegna?

Eftir því sem stjórnendur Háskóla Íslands segja okkur vantar um það bil 10% á að launastikan hafi hækkað í samræmi við launaþróun. Það mun vera um það bil 1 milljarður kr. á fimm árum. Það er mjög alvarlegt ef ekki er farið eftir launastikunni, sem ég hélt að sátt ríkti um og við værum sammála um að ætti að vera til viðmiðunar. Húsnæðisframlag til háskólans er að minnsta kosti helmingi of lágt til að geta staðið undir markaðsleigu. Skotið er á að það geti munað um 200 millj. kr. á ári hvað húsnæðisframlagið ætti að vera hærra ef markaðsleiga væri reiknuð. Síðan má segja að fjárveitingar til rannsókna hafi staðið í stað og fjármögnun framhaldsnámsins sé langt frá því að vera fullnægjandi.

Við vitum að við þessar aðstæður verður halli á rekstri Háskóla Íslands, bæði á árinu 2005 og einnig á árinu 2006. Það er trúlegt að hallinn verði svipaður á báðum þeim árum. Þetta vitum við og erum algerlega með galopin augu gagnvart því hér í þessum sal, sem erum að ákveða fjárveitingarnar til þjóðskólans. Við vitum líka og það sýnir tölfræðin okkur að ef Háskóli Íslands fengi hlutfallslega sömu hækkun fjárveitinga og þeir skólar sem mesta hækkun fá, yrði rekstur hans í góðu jafnvægi á árinu 2006. Það munar um það bil 371 millj. kr. Er það ofverkið okkar, frú forseti, að sjá til þess að Háskóli Íslands fái þá fjármuni? Mitt svar er nei. Í bullandi góðæri, í fjárlögum sem aldrei hafa verið hærri höfum við efni á 371 millj. kr. í Háskóla Íslands til að leiðrétta rekstur hans. Það væri virkilega áhrifarík gjörð hæstvirts menntamálaráðherra en því miður hefur hv. fjárlaganefnd Alþingis ákveðið að taka málið ekki einu sinni inn á sitt borð á milli 2. og 3. umr. Það er því ekkert að gerast og við sjáum alveg í hvað stefnir, hver lokaafgreiðsla fjárlaganna verður. Hún verður ekki sú sem ég óskaði mér að sjá.

Ég hef það sem af er ræðu minni, frú forseti, einbeitt mér að því að ræða um Háskóla Íslands því að aðrir hafa talað um Háskólann á Akureyri. Ég tek heils hugar undir það sem komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna varðandi Háskólann á Akureyri. Eins og ég gagnrýndi það í ræðu minni við 2. umr. fjárlaga vil ég ítreka gagnrýni mína á orð hæstv. menntamálaráðherra í viðtali í fjölmiðlum um fækkun deilda, sem háskólaráð og Háskólinn á Akureyri tók ákvörðun um að yrði að eiga sér stað til að hægt væri að sjá fram á sæmilegan rekstur Háskólans á Akureyri á þessu ári sem fram undan er og grípa þyrfti til þeirra ráðstafana að fækka deildum og reyna með því að hagræða sem frekast væri unnt. Í mínum huga er alveg ljóst að þær aðgerðir ganga verulega nærri ákveðnum þáttum í starfsemi skólans sem er ætlað að skila u.þ.b. 50 millj. kr. í sparnað. Jafnvel þó að markmiðið náist er staða skólans samt sú að 80 millj. kr. vantar upp á að skólinn geti staðið undir þeim rekstri sem fram undan er hjá honum. Í fréttum Ríkisútvarpsins þann 11. nóvember sagði hæstv. menntamálaráðherra þegar hún var spurð um þessar niðurskurðarráðstafanir háskólaráðs Háskólans á Akureyri, að þær bæru vott um mikla framsýni. (Menntmrh.: Skipulagsbreytingarnar. Það var leiðrétt. Skipulagsbreytingarnar, það verður að hafa þetta rétt eftir.) Ég er ekki með leiðréttingu á fréttinni, ég er eingöngu með útskrift af henni eins og hún er frá Fjölmiðlavaktinni. Ekki var annað að skilja á orðum hæstv. ráðherra en að hún teldi þessa ákvörðun vera þess eðlis að hún ætti að styrkja skólann til langs tíma. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt, og ég hef svo sem vikið að því í máli mínu áður þegar að málefni hæstv. menntamálaráðherra hafa borið á góma, hvernig hægt er að segjast vera að efla stofnanir með að kreppa meira að þeim fjárhagslega.

Eitt af því sem væri hægt að fara út í en ég ætla að spara mér til að stytta ræðu mína er umræðan um jafnrétti til náms á háskólastigi, umræða sem sprottið hefur upp vegna ályktunar landsfundar Sjálfstæðisflokksins um skólagjöld í háskólanámi. Ég ætla að spara mér þá umræðu en einungis gefa út þá yfirlýsingu sem ætti að vera alþjóð kunn að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafnar skólagjöldum á háskólastigi og telur að standa eigi vörð um öfluga háskólamenntun á annan hátt en að seilast í vasa nemenda til að fá þar aukna fjármuni. Sömuleiðis ætla ég að spara mér að ræða mikið um gæðamál í háskólum en það er líka eitt af því sem skiptir verulegu máli þegar við fjöllum um háskólamenntun, þ.e. hvernig standa þessir skólar sig þegar við horfum til gæða námsins?

Mig langar að koma að næsta kafla ræðu minnar sem varðar hæstv. ráðherra og það er Listdansskóli Íslands. Óþarfi er að rekja í smáatriðum aðdraganda þess máls en nú liggur ljóst fyrir að fyrirtæki að nafni Dansmennt ehf. mun taka við af Listdansskóla Íslands sem hæstv. menntamálaráðherra hefur ákveðið að leggja niður. Ég hef gagnrýnt að henni skuli vera það kleift eingöngu með því að breyta fjárveitingum til skólans þannig að hann verði þurrkaður út. Þetta er dæmi um framkvæmd sem ég tel að eigi að fara í gegnum Alþingi jafnvel þó ekki séu til lög um skólann. Þá tel ég sjálfsagt mál að Alþingi komi á einhvern hátt að ákvörðun af þessu tagi öðruvísi en í gegnum fjárlög.

Það liggur sem sagt ljóst fyrir. Búið er að undirrita viljayfirlýsingu menntamálaráðuneytisins, Menntaskólans við Hamrahlíð og fyrirtækis sem heitir Dansmennt ehf. Eftir því sem sú viljayfirlýsing segir, ég hef þetta eingöngu úr fjölmiðlum, ég hef ekki séð viljayfirlýsinguna sjálfa, en eftir því sem sagt er í fjölmiðlum mun þetta hlutafélag hafa það að markmiði að starfrækja listdansskóla fyrir alla aldurshópa og á öllum námsstigum. Ég held að hæstv. menntamálaráðherra hljóti að segja okkur frá því við þessa umræðu á hvern hátt grunnskóladeild skólans verður borgið innan þessa nýja fyrirkomulags. En hæstv. ráðherrann segir í viðtali við Morgunblaðið föstudaginn 2. desember, með leyfi forseta:

„Með þessu er verið að tryggja að þeir nemendur sem eru í Listdansskóla Íslands fái áframhaldandi nám og tryggja samfelluna frá grunnskólastiginu og upp úr.“

Frú forseti. Það var hæstv. menntamálaráðherra sem setti þá samfellu í uppnám síðasta haust með því að tilkynna að hún ætlaði sér að leggja niður skólann. Hæstv. menntamálaráðherra er því að bjarga uppnáminu núna sem hún sjálf hefur valdið. Því er haldið fram að auka eigi kröfurnar til listdansnámsins. Í orðunum felst að ekki hafi þá verið gerðar nægilegar kröfur til listdansnáms hingað til í Listdansskóla Íslands. Hæstv. menntamálaráðherra skuldar þeim sem hlut eiga að máli skýringu á þeirri afstöðu að nú eigi allt í einu að auka kröfurnar til listdansnámsins og efla gæðaeftirlitið. Gott og vel, ef þetta gengur allt eftir, að þetta eigi að verða til að efla dansmenntina og gæði námsins. Ég er ekki mjög trúuð á það, frú forseti. Ég óttast að við horfum fram á mikinn ójöfnuð. Ég óttast að foreldrar þeirra barna sem hafa hæfileika til að verða listdansarar og leggja þá braut fyrir sig verði að bera kostnaðinn af námi barna sinna, umfram það sem verið hefur. Heimildir mínar segja að það hafi kostað um 90 þús. kr. á ári að hafa barn í listdansnámi. Ég hefði gaman af að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún telji að skólagjöldin hjá Dansmennt ehf. verði á svipuðum nótum. Eða verður það þannig að foreldrar þurfi að greiða algerlega fyrir grunnnámið, fyrir grunnskóladeildina, full skólagjöld? Verður það þannig að ríkið ætli sér eingöngu að standa straum af kostnaði við þreyttar einingar til stúdentsprófs, þannig að allt sem verður þar umfram í námi barna á framhaldsskólaaldri verði greitt af foreldrum? Hvað verður um þá nemendur, þá listdansara, sem eru kannski á hraðri leið inn í atvinnumennsku, mjög ungir, kannski 18 ára gamlir og ætla sér alls ekki að taka stúdentspróf og eru alls ekki að stunda nám í framhaldsskóla? Eiga foreldrar þeirra að greiða listdansnámið frá a til ö að fullu? Engin af þessum spurningum hefur hlotið svar frá hæstv. ráðherra. Ég spyr líka: Hvar eru fjármunirnir núna sem til þarf til að greiða kostnað nemendanna sem munu hefja nám hjá Dansmennt ehf. næsta haust? Ekki eru þeir í fjárlagafrumvarpinu. Hvar eru þeir? Ætlar hæstv. ráðherra kannski að redda þessu í kompaníi við félaga sína í fjárlaganefnd með fjáraukalögunum á næsta ári? Ætli það ætti eftir að koma okkur mikið á óvart að það sé nákvæmlega það sem stendur fyrir dyrum að gera.

Hvað húsnæði fær Dansmennt ehf.? Er búið að gera samning við Tónskóla Sigursveins, sem á húsnæðið sem Listdansskóli Íslands er í núna, um að Dansmennt ehf. fái þar inni? Eða ætlar hæstv. menntamálaráðherra kannski ekki að hafa neinar áhyggjur af því? Getur Dansmennt ehf. bjargað málinu núna?

Af því að Menntaskólinn við Hamrahlíð er aðili að þessu samkomulagi, þessari viljayfirlýsingu, þá vil ég að fólk viti að Menntaskólinn við Hamrahlíð gerir háar kröfur til þeirra nema sem teknir eru inn í MH. Þar fara yfirleitt ekki inn nemar sem hafa lægri en 8,5 í meðaleinkunn. Hvað ætlar hæstv. menntamálaráðherra að gera við nema sem eru undir 8,5 í meðaleinkunn en hafa gríðarlega hæfileika í listdansi og hafa lært listdans kannski frá 6–7 ára aldri og eru í listdansnámi til að verða listdansarar og komast ekki inn í MH? Hvað verður um þá? Fá þeir ekki inni á listdansbraut og verður þeim þá úthýst? Eða þurfa foreldrarnir að borga upp í topp?

Svo er líka til í dæminu að nemendur muni vilja fara í aðra skóla. Það eru ekki allir sem eru í listdansnámi sem vilja endilega fara í Hamrahlíðina. Þeir koma ekki til með að eiga völ á hinni nýju braut, þessari listdansbraut sem Menntaskólinn í Hamrahlíð ætlar að bjóða upp á. Hvernig ætlar hæstv. menntamálaráðherra að endurvinna það traust sem nemendur, foreldrar og kennarar Listdansskóla Íslands hafa borið til hennar þangað til í haust? Ég er sannfærð um að hún þarf að gera verulega mikið til að endurvinna það traust, ef hún ætlar sér að endurvinna það. Það er hún ekki búin að gera með undirritun viljayfirlýsingarinnar. Það er hún heldur ekki búin að gera með aðalnámskránni sem hún er búin að birta á heimasíðu ráðuneytisins. Það eru allt of margir lausir endar, allt of mikið í lausu lofti. Vinnubrögðin sem hér hafa verið viðhöfð, frú forseti, eru bara til skammar. Ef maður ætlar að fara út í svona breytingar gerir maður það að vel yfirlögðu ráði og þannig að fólk sé haft með í ráðum, fólkið sem breytingarnar eiga að bitna á.

En það var því miður ekki gert og þess vegna stöndum við í þeim sporum sem við nú gerum, með fullt af ungum listdönsurum í óvissu, foreldra og fjölskyldur í uppnámi og óvissu út af þessu. Hæstv. menntamálaráðherra skuldar því fólki skýringar. Foreldrar áttu sér einskis ills von, kennarar vissu ekkert um áformin, skólanefnd hafði ekki verið haldið að störfum, ekki hafði verið skipað nefndina missirum saman. Foreldrafélagið hafði því miður legið í dvala. Kannski notfærði hæstv. menntamálaráðherra sér þær aðstæður sem voru í skólanum að skólanefndin var ekki til staðar og foreldrafélagið var í dvala. Þá var höggið látið dynja.

Frú forseti. Ekki meira um Listdansskóla Íslands í bili en ég vona að hæstv. ráðherra geti svarað einhverjum af þeim spurningum og vangaveltum sem ég hef komið inn á í ræðu minni.

Framhaldsskólarnir eru annar málaflokkurinn þar sem hæstv. ráðherra er með allt upp á móti sér. Ég verð að segja að ég fagna ályktun Félags framhaldsskólakennara, sem barst því miður afar seint til okkar en hún kom hingað í gær. Ályktunin er rituð 5. desember og undirrituð af Aðalheiði Steingrímsdóttur, formanni Félags framhaldsskólakennara. Þetta er efnismikil ályktun og hún er birt sem fylgiskjal með framhaldsnefndaráliti um frumvarp til fjárlaga frá 2. minni hluta fjárlaganefndar. Ég las hana af mikilli athygli og ég verð að segja að þar koma fram ávirðingar sem hæstv. ráðherra hlýtur að verða að svara á einhvern hátt. Þær eru af ýmsu tagi en kjarninn í þeim er eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kom inn á áðan að þær fjárveitingar sem framhaldsskólunum eru ætlaðar í fjárlagafrumvarpinu eru stórlega vanáætlaðar. Á sama tíma og fjárveitingar til framhaldsskólanna eru stórlega vanáætlaðar eru stjórnvöld uppi með áform um að stytta nám til stúdentsprófs sem ég hef ævinlega talað um sem skerðingu, þ.e. þau hafa í hyggju að skerða nám til stúdentsprófs og spara stórlega í rekstri framhaldsskólanna. Ég get ekki annað en tekið undir með framhaldsskólakennurum þar sem þeir halda því fram að þær aðgerðir sem hér eru í gangi muni leiða til þess að sumir komist ekki inn í framhaldsskóla og hér sé verið að rjúfa samfélagssátt sem ríkt hefur um áratuga skeið á Íslandi um menntakerfið og lykilhlutverk þess í jöfnun lífskjara því að framhaldsskólinn á samkvæmt lögum að vera fyrir alla. Hann er það ekki í dag og verður það trúlega enn síður ef styttingar- eða skerðingaráform hæstv. ráðherra ná fram að ganga.

Framhaldsskólakennarar segja að fjárveitingarnar séu gróflega vanáætlaðar og hafi verið það árvisst og sömuleiðis nemendafjöldinn, þ.e. spá um nemendafjölda hafi verið hunsuð. Þeir fara mörgum orðum um þessi sjónarmið sín í ályktuninni og styðja þau öll rökum. Það kemur t.d. fram hjá þeim að í fjárlagafrumvarpinu 2003 hafi fjárveitingar til framhaldsskólanna verið ákvarðaðar samkvæmt endurskoðuðu reiknilíkani menntamálaráðuneytisins því það er ekki eins og menntamálaráðuneytið hafi ekki vitað að reiknilíkanið er gallað. Markmið endurskoðunarinnar var auðvitað að lagfæra fjárhagsvanda en ekki allra, heldur fyrst og fremst fjölmennra verknámsskóla og meðalstórra og fámennra skóla á landsbyggðinni. En í hverju fólst aðferðin sem farin var til að auka fjárveitingar til þessara skóla? Jú, hún fólst í því að lækka fjárveitingar til annarra skóla, skóla sem voru hreint ekki aflögufærir fyrir. Er þetta nokkur pólitík? Þetta er ekki menntapólitík, frú forseti.

Þær breytingar sem gerðar voru á reiknilíkaninu skiluðu verknámsskólunum að meðaltali 2–7% hækkun framlags með hverjum nemanda en greiðslur með nemendum í bóknámi lækkuðu við sömu breytingu um 2%. Í fjárlagafrumvarpinu 2003 var heildarfjárveiting til skólanna hvorki aukin til að ná kostnaði af breyttu reiknilíkani né heldur til að styrkja almennt starfsemi skóla og þjónustu þeirra við nemendur. Þetta eru auðvitað átakanlegar staðreyndir og sama má segja um þær staðreyndir sem framhaldsskólakennararnir telja upp í ávirðingum sínum varðandi fjárlagafrumvarpið 2004. Síðan kemur fram að útreikningarnir í frumvarpinu 2005 hafi byggst á 18.200 nemendum og í frumvarpinu 2006 er gert ráð fyrir að nemendur verði 18.900 en þeir verða í raun 23.000. Af hverju er yfirvöldum menntamála gjörsamlega fyrirmunað að sjá til þess að framhaldsskólarnir fái þá fjármuni sem nemendafjöldinn segir til um? Hvers vegna er þeim fyrirmunað að láta nemendafjöldann að ráða? Sérstaklega þegar skoðaðar eru hástemmdar ræður um að hækka eigi menntunarstig þjóðarinnar og að framhaldsskólinn sé fyrir alla. Af hverju má þá ekki sjá til þess að fjárveitingarnar séu a.m.k. samkvæmt reiknilíkaninu svo ósanngjarnt sem það nú er? Að hver einasti nemandi sem ákveður að fara í framhaldsskóla og kemst í framhaldsskóla fái a.m.k. með sér þau framlög sem reiknilíkanið gerir ráð fyrir að eigi að koma. Í mínum huga er þetta sáraeinfalt mál og ég skil ekki hvers vegna hæstv. ráðherra getur ekki lagst á sveif með framhaldsskólakennurum og barist fyrir málstað framhaldsskólanna. Það er óskiljanlegt.

Hallinn á rekstri framhaldsskólanna er umtalsverður. Segja má að uppsafnaður rekstrarhalli þessara skóla hafi verið samtals 480 millj. kr. árið 2004. Það mun samsvara næstum því framlagi til eins fjölmenns framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt fjárlögum ársins 2005. Í greinargerð frá Ríkisendurskoðun um framkvæmd fjárlaga 2004 má lesa úttekt á fjárhagsstöðu nokkurra stofnana sem heyra undir menntamálaráðuneytið. Meðal annars eru teknir níu framhaldsskólar þar sem halli skólanna mun hafa numið frá 4% og upp í 35% af fjárveitingum til þeirra árið 2005. Í þeim hópi eru meðalstórir og fámennir fjölbrauta- og bóknámsskólar, fjölmennir og fámennir verknámsskólar. Fimm af þessum níu skólum eru á landsbyggðinni en fjórir á höfuðborgarsvæðinu.

Það kemur líka fram í ályktun framhaldsskólakennara að vegna fjárhagsvandans hafi orðið samdráttur og beinn niðurskurður á námsframboði flestra þessara skóla, sérstaklega í starfs- og verknámsskólunum. Fram kemur að nemendum hafi verið fjölgað í námshópum í bóknámi sem að sögn kennaranna verður ekki til að minnka brottfallið. Ég hef heyrt hæstv. menntamálaráðherra halda hástemmdar ræður um að það verði að gera allt sem hægt er til að minnka brottfallið en þá eigum við ekki að þvinga framhaldsskólana til að fjölga í nemendahópunum því það eykur brottfall. Það er elsta reglan í bókinni varðandi brottfall. Það er líka ljóst að ýmiss konar þjónusta við nemendur hefur verið skert, gjaldtaka skólanna af nemendum eykst sífellt. Framhaldsskólanemar hér á landi fá ekki ókeypis námsbækur eins og framhaldsskólanemar í nágrannalöndum okkar, í Skandinavíu, sem við berum okkur saman við. Þannig mætti áfram telja, frú forseti.

Það er auðvitað heilmargt ánægjulegt við framhaldsskólana og m.a. að þar er mjög mikil fjölbreytni í gangi. Vísbendingar eru um að mörkin á milli tegunda skóla hafi verið að mást út. Fleiri eldri nemendur sækja framhaldsmenntun núna en verið hefur. Mörkin á milli dagskóla, kvöldskóla og fjarnáms eru orðin óskýrari vegna þess að skólarnir hafa líka verið að aðlaga þjónustu sína að þeim fjölbreytta nemendahópi sem þangað sækir. Það sama má í rauninni segja um mörkin á milli grunnmenntunar þeirra og endurmenntunar.

Ég talaði áðan aðeins um framhaldsskóla fyrir alla og jafnrétti til náms. Það er kafli um það í ályktun framhaldsskólakennaranna. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt fyrir hæstv. menntamálaráðherra að skoða þessa ályktun gaumgæfilega og ég held að það hefði líka verið full ástæða fyrir fjárlaganefnd að skoða þessa ályktun gaumgæfilega. Og af því hv. þm. Magnús Stefánsson, formaður fjárlaganefndar, situr í salnum núna og ég held að hann hljóti að verða að svara fyrir það, þá finnst mér með ólíkindum hvers vegna ekki var farið betur ofan í fjárveitingar til skólanna, framhaldsskólanna og háskólanna, en raun ber vitni meðan að málin voru á borði fjárlaganefndar. Það mætti kannski fá að heyra það frá hv. þingmanni hvort hann sé búinn að lesa ályktun framhaldsskólakennara og hvort honum bregði ekki nokkuð við þegar hann sér að enn eitt árið á að stefna framhaldsskólunum inn í ástand sem er fullkomlega óviðunandi.

Ég hafði hugsað mér að fara hér nokkrum orðum um skerðingu náms til stúdentsprófs. Ég læt mér hins vegar nægja að hvetja hæstv. menntamálaráðherra til að lesa ræðu mína við 2. umr. fjárlaga þar sem ég fór yfir ávirðingar og gagnrýni framhaldsskólakennara og nemenda í framhaldsskólum á þau áform og vitnaði til nokkurra greina sem hafa verið skrifaðar í þeim efnum. Ég treysti því að hæstv. ráðherra kynni sér þann máflutning sem hér fór fram við 2. umr. og renni yfir þær ræður sem þá voru fluttar.

Eitt get ég ekki látið undir höfuð leggjast að nefna, frú forseti, í þessari umræðu, 3. umr. til fjárlaga, og það eru mannréttindamálin og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Við höfum hér á borðum okkar breytingartillögu frá stjórnarandstöðunni sem gerir ráð fyrir því að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái framlög sem nema 9 millj. kr. undir hatti dómsmálaráðuneytisins, nafngreind framlög, og að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands fái framlög sem nema 1,2 millj. kr. Öll hneisan í kringum framgöngu stjórnvalda varðandi Mannréttindaskrifstofu Íslands er náttúrlega þyngri en tárum taki. Það er algerlega óásættanlegt að Mannréttindaskrifstofan skuli ekki fá sér nafngreinda fjárveitingu og það er sárgrætilegt að ríkisstjórnin eða ráðherrar hennar og ekki einu sinni hv. formaður eða varaformaður fjárlaganefndar skuli hafa fært fram nokkur rök í þessu máli. Engin rök hafa verið færð fram fyrir því hvers vegna þær breytingar voru gerðar að Mannréttindaskrifstofa Íslands er ekki lengur sérgreindur liður undir ráðuneyti heldur einungis almennt framlag sem við vitum núna af reynslunni vegna ársins 2005 að stendur Mannréttindaskrifstofu Íslands ekki til boða. Hver voru rökin fyrir þessari breytingu? Hv. formaður fjárlaganefndar verður að svara því eða þeir ráðherrar sem í hlut eiga. Þessi rök hafa ekki enn komið fram. Maður les hér áskoranir til þingmanna þar sem málsmetandi fólk fer þess á leit að við endurskoðum þessa ákvörðun okkar og allir í stjórnarmeirihlutanum þegja bara þunnu hljóði og þessum ályktunum og áskorunum er ekki svarað. Menn þumbast bara við. Við erum með ályktanir og áskoranir frá landsnefnd UNIFEM á Íslandi, frá Stígamótum, frá hjálparstarfi kirkjunnar, frá Siðmennt – félagi siðrænna húmanisma á Íslandi, frá presti innflytjenda og frá Landssamtökunum Þroskahjálp. Þeim er í engu svarað. Hvaða dónar eru hér við völd að ekki sé hægt að svara áskorunum og bænaskjölum sem við fáum og að ekki sé hægt að koma með nein rök fyrir þeim ákvörðunum sem hér eru teknar þvert ofan í hávær mótmæli stjórnarandstöðunnar. Svona háttsemi er sannarlega ekki til fyrirmyndar, frú forseti, sannarlega ekki. Hv. þingmenn eiga þess kost að greiða atkvæði með breytingartillögu stjórnarandstöðunnar. Ég er ekki farin að sjá að þeir geri það, en það væri kannski mannsbragur að því að þeir hugleiddu það.

Frú forseti. Eitt mál gleymdist við 2. umr. fjárlaga. Þar verður að fá skýringu frá hv. formanni nefndarinnar, Magnúsi Stefánssyni. Okkur barst umsókn um stuðning, rekstrarstyrk, fyrir íslenskan kvennagagnabanka á netinu, frá Kvennaslóðum sem reknar eru undir Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands. Gagnabankinn kvennaslodir.is er banki sem hefur verið starfræktur hjá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum síðan í lok árs 2003 og okkur er fullkunnugt um það því hingað hafa komið umsóknir um þetta verkefni áður og við höfum veitt því brautargengi. Í gagnabankanum eru nú á áttunda hundrað nöfn kvensérfræðinga á öllum sviðum þjóðfélagsins. Í honum eru aðgengilegar upplýsingar um menntun, störf, sérsvið, rannsóknir og útgefið efni skráðra kvenna og hann er leitarbær eftir nöfnum, fagsviðum og efnisorðum. Hann er líka frétta- og upplýsingaveita um jafnréttismál, útgáfur tengdar jafnréttismálum og ýmsa atburði sem tengjast þeim. Markmið þessa gagnabanka er fyrst og fremst það að gera kunnáttu og hæfni kvenna sýnilega og aðgengilega. Hann er vettvangur fjölmiðlafyrirtækja og stjórnvalda til að finna sérfræðinga til margvíslegra starfa með skjótvirkum hætti. Einnig er hann mikilvægt tæki til að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu og það er einmitt það sem við viljum gera með jafnréttislögunum sem við erum öll svo stolt af. Fyrirmyndin er sótt til nágrannalanda okkar, þar eru til sambærilegir gagnabankar.

Undirbúningsvinna við þennan gagnabanka hefur hlotið brautargengi hjá félagsmálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Jafnréttisstofu, Jafnréttisráði, Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Þeir aðilar hafa allir styrkt starfið á þessi ári. En ef koma á fótunum undir þennan gagnabanka þá er algerlega nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga fái tækifæri til að styrkja hann. Þetta er eitt af því sem hefði þurft að ræða og átt að vera á borðum fjárlaganefndar á milli 2. og 3. umr. En hvað gerist? Fjárlaganefnd hunsar að taka málið til sín, lætur eins og hún sé búin með vinnuna sína, krossleggur hendur og lítur ekki á nokkurn skapaðan hlut á milli umræðna. Þannig er þessi gagnabanki á netinu, Kvennaslóðir, settur á milli stafs og hurðar, beiðni um fjárveitingu verður ekki sinnt og það er til skammar. Kannski má fyrst og fremst kenna fjárlaganefnd um þá handvömm sem hefur verið í gangi við vinnsluna. Ég hef reyndar leitt rökum að því að svo var einnig þegar umræðan um stuðning til sjálfstæðra atvinnuleikhópa, til sjálfstæðu leikhúsanna fór fram, en þá fórst fjárlaganefnd jafnóhönduglega og raun ber vitni að koma Leikfélagi Reykjavíkur inn á fjárveitingu. Kvennaslóðir eru sem sagt að lenda milli stafs og hurðar, kannski fyrir handvömm og athugunarleysi einhverra þingmanna og vegna þess að fjárlaganefnd neitar að taka málið inn á sín borð milli 2. og 3. umr.

Ég nefndi hér sjálfstæðu leikhúsin vegna þess að það er ein af ályktunum sem við höfum fengið síðustu daga. Þar fagnar stjórn sjálfstæðu leikhúsanna því sem gerðist við 2. umr. fjárlaga en þar átti sá liður sem leiklistarráð veitir til leikhópanna að hækka um 10 millj. Þetta virtist vera skilyrt hækkun og fjárlaganefnd gerði grein fyrir því framlagi þannig að það ætti að vera tímabundið til Leikfélags Reykjavíkur vegna verkefna á vegum áhugaleikhópa. Í fyrsta lagi var þessi skilyrðing algerlega fáránleg. Þetta eru fjármunir sem leiklistarráð úthlutar eftir umsóknum og ég hef skýrt hér áður og ætla ekki að lengja mál mitt með því. En það var samt sem áður ótrúleg handvömm að þetta skyldi gerast svona. Fjárlaganefnd er auðvitað frjálst að styrkja Leikfélag Reykjavíkur og leikfélagið hefur árum saman farið fram á að fá stuðning frá ríkinu til að reka leikhús sitt í Borgarleikhúsinu. En eins og kom fram í fréttum og viðtali við hæstv. menntamálaráðherra í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi var samkomulag gert á sínum tíma milli ríkis og borgar um að ríkið skyldi annast fjármögnun Íslensku óperunnar en í staðinn skyldi Reykjavíkurborg alfarið sjá um Leikfélag Reykjavíkur. Þessu undi Leikfélag Reykjavíkur aldrei og hefur æ síðan reynt að komast aftur hingað inn á fjárlög. Þegar loks átti að verða af því, reyndar með tímabundnu framlagi upp á 10 millj., þá fórst fjárlaganefndinni svo óhönduglega að breytingin er sett inn á lið sjálfstæðu leikhópanna. Og þegar á að leiðrétta málið geta menn ekki verið nægjanlega rausnarlegir til að sjá til þess að þessar 10 millj. haldist inn á lið leikhópanna. Nei, þær eru dregnar af. Þannig að aftur þarf liður sjálfstæðu leikhópanna, sem fjárlaganefnd hækkaði um daginn, að lækka um 10 millj. Þetta er algerlega með ólíkindum.

Og það er reyndar með ólíkindum að hæstv. menntamálaráðherra skuli hafa lýst því yfir að hún sé ekki samþykk því að fjárlaganefnd skuli yfir höfuð styrkja Leikfélag Reykjavíkur. Þetta er auðvitað hið mesta klúðurmál, frú forseti, sem ég spái að eigi eftir að verða spunnið frekar í fjölmiðlum og menn þurfi að svara frekar fyrir. Ég bendi hv. þingmönnum einungis á að í atkvæðagreiðslu um þessi mál muni verða hægt, ef vilji er fyrir hendi, að sjá til þess að sjálfstæðu leikhúsin þurfi ekki að lækka um 10 millj. núna á milli umræðna, þá verði vonandi greidd atkvæði um það sérstaklega. Ég vona bara að nýjasta tillaga fjárlaganefndar í þessum efnum verði felld þannig að starfsemi atvinnuleikhópanna fái þessar 10 millj. og það verði varanleg hækkun á þeirra framlagi.

Einn liður hefur ekki verið ræddur nægjanlega nú, hvorki við 2. né 3. umr. í fjárlögunum, en það eru safnamálin. Ég hafði um þau nokkur orð í 2. umr. Þau orð lutu ekki síst að Náttúruminjasafni sem ég tel að sé orðið löngu tímabært að setja á stofn og það er skammarlegt að nefndin sem á að undirbúa það skuli ekki hafa verið kölluð saman í tvö ár. Eftir ræðu mína við 2. umr. var mér bent á að á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefði verið samþykkt ályktun um safnalögin. Þar segir, með leyfi forseta:

Í safnalögum, sem sett voru að frumkvæði menntamálaráðherra, er kveðið á um að hér skuli vera þrjú höfuðsöfn; Listasafn, Þjóðminjasafn og Náttúruminjasafn. Listasafn er starfrækt og Þjóðminjasafn hefur nú verið endurreist. Landsfundur vill standa við ákvæði safnalaga og að hér rísi náttúruminjasafn sem fræðir og upplýsir um náttúru Íslands og lífríki hennar.

Ég segi: Húrra. En svo spyr ég líka hæstv. menntamálaráðherra: Hvar eru fjármunirnir til þess að Náttúruminjasafn geti risið, til að hægt sé að stofna þetta þriðja höfuðsafn Íslendinga? Þeir er ekki í fjárlagafrumvarpinu. En þeir eru hins vegar í breytingartillögu frá stjórnarandstöðunni frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs. Ég bendi því þingmönnum á að vilji þeir í alvöru, sérstaklega þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sjá til þess að Náttúruminjasafn geti risið hér þá ættu þeir að samþykkja tillögu hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs um 20 millj. kr. stofnframlag til safnsins, þ.e. til þess starfs sem þar á að fara fram við að undirbúa safnið.

Ég gagnrýndi líka í ræðu minni við 2. umr. hversu fjárlaganefnd væri hér frek til fjörsins í að úthluta til safna og sýninga hvers konar. En á sama tíma væri ekki hægt að hækka framlögin til Safnasjóðs. Auðvitað þarf að standa betur að þessum málum en gert er. Safnasjóður stendur enn í 83,7 millj. U.þ.b. 10 millj. af því fara til reksturs Safnasjóðs þannig að það eru ekki nema 74 millj. fyrir Safnasjóðinn til að úthluta. En á sama tíma veitir fjárlaganefnd 260 millj. til safna og safnatengdra verkefna. Er þetta nokkurt vit, hæstv. menntamálaráðherra? Eigum við ekki að reyna að koma þessu í það horf að það séu faglegar úthlutanir til safna þannig að söfnin fái sín framlög í gegnum Safnasjóð þar sem ákveðnar kríteríur eru til staðar og sama mælistikan sett á allar umsóknir? Þess vegna hefði ég gaman af að heyra hæstv. menntamálaráðherra fara nokkrum orðum um það, hvort hún sé ekki sammála mér í því að nær væri að hækka framlögin til Safnasjóðs, þess vegna um 250–260 millj., það væri fínt. Ég veit að safnaráð mundi vel við una og örugglega safnamenn allir og þeir þyrftu þá ekki lengur að koma hingað pílagrímsferðir til hv. þingmanna fjárlaganefndar og gætu unað við faglegar úthlutanir, eins og við búum við t.d. í leiklistargeiranum og höfum fagnað í áraraðir eftir að leiklistarráði var komið á. En úthlutun til sjálfstæðu leikhópanna hefur verið komið í það horf að leiklistarráð útbýr sínar úthlutunarreglur og síðan eru allar umsóknir vegnar og metnar á sömu mælistiku og þannig una allir glaðir við sitt, nema náttúrlega að fjárveitingin mætti vera hærri. En það er eins og alltaf.

Að lokum, hæstv. forseti, er ég ásamt hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs með breytingartillögu á þskj. 497. Við höfum áhyggjur af tónlistarnámi í framhaldsskólum og við höfum áhyggjur af Listdansskólanum og þess vegna leggjum við fram breytingartillögur nú í 3. umr., en reyndar kynntum við hana við 2. umr., kölluðum hana aftur til 3. umr. þar sem hún verður flutt aftur. Þar gerum við ráð fyrir að á fjárlögum næsta árs verði veitt 40 millj. kr. til að auka við tónlistarnám í framhaldsskólum og 50 millj. kr. verði veitt til Listdansskóla Íslands, sem enn þá er til að nafninu til í fjárlögum, til að efla listdansnámið.

Frú forseti. Ég hef nú eflaust talað hér talsvert lengur en ég ætlaði mér og á meira að segja eftir að tala um formbreytingar á frumvarpinu sem ég er ósátt við en ég reyni að ræða það við hæstv. fjármálaráðherra í betra tómi. Ég læt máli mínu við 3. umr. nú lokið.