132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:20]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta ræðu. Ég vil spyrja hana einnar spurningar á þeirri stuttu mínútu sem ég hef til umráða. Um daginn heimsótti ég merkilegan einkarekinn framhaldsskóla sem heitir Kvikmyndaskóli Íslands. Þar er unnið frábært starf. Hann er einstakur skóli, sérskóli á framhaldsstigi. Hann innheimtir 600 þús. kr. á önn í skólagjöld. 1,2 millj. kr. á ári innheimtir hann í skólagjöld til að geta staðið undir rekstri sínum og haldið úti því merkilega, arðbæra og góða námi sem þar er kennt. Skólann styð ég heils hugar og vona að hann fái dafnað sem mest og best í framtíðinni. En telur hæstv. menntamálaráðherra ekki eðlilegt að auka framlög til skólans — þetta er lítill skóli og fámennur — þannig að hann þurfi ekki að innheimta nema hófleg skólagjöld af því að 1,2 millj. kr. á ári fyrir 18–19 ára nemanda í framhaldsskóla hljóta að teljast himinhá skólagjöld, hvað þá á framhaldsskólastigi og háskólastigi líka. Telur hæstv. ráðherra ekki eðlilegt að koma á móts við skólann með auknum framlögum (Forseti hringir.) þannig að hann geti lækkað sín háu skólagjöld?