132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:21]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að Kvikmyndaskóli Íslands er mjög merkilegur skóli og þar á sér stað gríðarlega gott skólastarf. Við höfum þegar tekið það út í ráðuneytinu. Þar er mjög faglega unnið að öllum þáttum. Sá skóli gerir ekkert annað en að styrkja og efla framhaldsskólastigið og þá sérstaklega í rauninni starfs- eða verkmenntun að mörgu leyti. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að við munum ganga til samningaviðræðna við Kvikmyndaskólann til að reyna að efla starf hans. Ég geri ráð fyrir að það hafi komið fram við umræðu nú þegar í dag vegna fjárlagafrumvarpsins og afgreiðslu frá fjárlaganefnd að gert hefur verið ráð fyrir ákveðinni fjárhæð til Kvikmyndaskólans. Ég tel einsýnt að við þurfum að semja við þennan skóla og fara vel yfir starf sem þar er unnið.