132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:22]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég tel mjög mikilvægt að auka verulega framlög til þessa litla skóla. Hér er dæmi um merkilegan einkarekinn sérskóla sem veitir sérhæft starfsnám, ef svo má segja, á sviði kvikmyndafræða. Framtíð skólans gæti verið mjög björt og glæsileg ef hann fær sprungið út og fær til þess framlög. En 1,2 millj. kr. á ári fyrir ungling í framhaldsskóla er geypilega há upphæð þó svo að lánað sé fyrir því af Lánasjóði íslenskra námsmanna því styrkjakerfið okkar er ekki til staðar þannig að það komi á móts við þetta. Þetta er gríðarlega há fjárhæð, 1,2 millj. á ári og ég held að nauðsynlegt sé að koma til móts við skólann með auknum framlögum því ekki er hægt að tala um jafnrétti til náms í framhaldsskóla ef einn nemandi í kvikmyndafræðum þarf að borga 1,2 millj. kr. á ári — þetta er fjögurra anna nám — fyrir sitt nám í skóla á framhaldsskólastigi. Eina viðmiðunin er MBA nám á endurmenntunarstigi uppi í háskóla hvað varðar gjaldtöku. Þetta er gríðarlega mikil (Forseti hringir.) gjaldtaka. Við hljótum að þurfa að bregðast einhvern veginn við þessu.