132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:24]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir ræðuna sem hún flutti. Hún virtist gera sér far um að vera heiðarleg í þeim svörum sem hún gaf þó hún hafi auðvitað á ýmsum stöðum skautað ansi hraustlega yfir og ekki farið ofan í þá dýpt sem hefði þurft ef vel hefði átt að vera. Ég fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu hennar að að hennar mati eigi Háskóli Íslands að vera flaggskip menntunar á Íslandi og hún getur reitt sig á stuðning stjórnarandstöðunnar í þeim efnum. Það er líka ánægjulegt að hún skuli ætla að standa við bakið á Háskóla Íslands í þeirri áætlun að fjölga doktorsnemum upp í 60 á fimm árum. Þessu fagna ég. En athugasemd mín til hæstv. ráðherra er varðandi svokölluð dekurbörn þessarar ríkisstjórnar. Skandinavíska módelið fyrir einkaháskóla er þannig að háskólar sem taka skólagjöld fá skert ríkisframlag sem nemur skólagjöldunum. (Forseti hringir.) Þar er verið að jafna aðstöðumun. Það er ekki hér. Þess vegna kalla ég einkaháskólana dekurbörn.