132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:26]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að stefnan væri að hækka rannsóknarframlögin til allra háskólanna, líka einkaháskólanna. Við verðum aðeins að skoða aðstöðumun þeirra skóla sem eru hér innan lands. Það er ekki sanngirni í því að ákveðin tegund skóla geti lagt á skólagjöld og fengið þar með skólagjöldin ofan á opinbera framlagið á meðan opinberir háskólar sem ekki innheimta skólagjöld fá ekki þessa aukasporslu. Ef hæstv. ráðherra ætlar ekki að skerða ríkisframlag einkaskólanna sem nemur skólagjöldum þá ætti hún auðvitað að greiða sem nemur skólagjöldum með þeim nemendum sem stunda nám í opinberu háskólunum. Það væri miklu meira réttlæti, held ég, en það kerfi sem hæstv. ráðherra talar fyrir. Skandinavíska módelið er byggt á réttsýni og réttlæti. Ég held að hæstv. ráðherra verði á endanum að endurskoða þessa afstöðu sína.