132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:30]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ráðherrann bað um dæmi. Hér er það dæmi, úr fimm í ellefu í íslenskuskor hugvísindadeildar.

Hún svaraði ekki til um Árnastofnun. Ég gladdist í gær þegar ráðherrann sagði um hina nýju Árnastofnun að hún ætti þegar á þarnæsta ári að fá tvær rannsóknarstöður til viðbótar, rannsóknarstöður sem kenndar yrðu við Árna Magnússon og Sigurð Nordal. Ég var nokkuð hress yfir þessu — ég var ekki hress yfir öllu í frumvarpinu sem við ræddum hér í gær — þangað til það rann upp fyrir mér að á hinni gömlu Árnastofnun er staðan þannig að síðustu 10 ár hafa fjórir fræðimenn hætt störfum, sumir þeirra fallið frá, en aðeins tveir fræðimenn tekið við. Sú mikla rausn menntamálaráðherrans árið 2007 að bæta tveimur mönnum við á Árnastofnun hina nýju gerir nákvæmlega það að fylla upp í götin sem hafa myndast á síðustu 10 árum. Ef það er ekki niðurskurður veit ég ekki hvernig niðurskurður skal skýrður í íslensku orðabókinni.