132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:31]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann um íslenskar orðabækur. Það er alveg ljóst að framlög til Árnastofnunar hafa haldist á síðustu árum. Þau hafa haldist miðað við verðlag og verðgildi. Hins vegar er líka ljóst, og ég vona að fögnuður hv. þingmanns verði eftir sem áður til staðar, að ég mun forgangsraða innan míns ramma, fjárlagaramma fyrir árið 2007, á fyrsta heila starfsári hinnar nýju stofnunar þannig að til verði tvær rannsóknarstöður sem stofnunin mun sjálf ákveða hvernig hún komi til með að skipta, hvort það verða t.d. fastar rannsóknarstöður eða rannsóknarstöður sem verða til að efla möguleika doktorsnema til að starfa við stofnunina. Þær hugmyndir hafa m.a. komið upp meðal fræðimanna innan stofnunarinnar að stofnunin muni einfaldlega ráða því hvernig hún mun haga skipulagi á þeim rannsóknarstöðum tveimur sem ég mun styrkja.