132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:32]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér fór hæstv. menntamálaráðherra ágætlega yfir sviðið og þær spurningar sem við höfðum þó að ég hefði reyndar viljað fá skýrari svör við flestum þeirra. Ég vonast til þess að geta hér og nú fengið skýrari svör hvað Listdansskólann varðar. Ég kom með spurningar um kostnaðinn. Ekki er gert ráð fyrir neinu fjármagni í fjárlagafrumvarpinu til reksturs Listdansskólans á næsta ári, þ.e. eftir að honum verður lokað í núverandi mynd í vor. Yfirlýsingar hafa komið um að búið sé að ganga til samninga við Dansmennt ehf. Þá mundi ég vilja heyra skýrt frá hæstv. menntamálaráðherra hvernig eigi að fjármagna þetta. Upp á hvaða fjármagn hljóðar sá samningur? Hversu mikinn kostnað eiga nemendur að bera sjálfir? Liggur það fyrir og er kveðið á um eitthvert hámark hvað varðar skólagjöld eða annan kostnað sem nemendur og foreldrar þeirra þurfa að bera?