132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:26]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi tekjurnar og hvort þær virkuðu sem fegrunaraðgerð. Ég hélt því svo sem ekkert fram að þær væru sérstök fegrunaraðgerð. Ég geri ráð fyrir því að það sé af klókindum gert að vanmeta tekjurnar í fjárlagafrumvarpinu. Ég býst við því að ýmsir vilji sækja í þessar tekjur, af ráðherrum og þingmönnum, og mat þeirra sé af klókindum gert. Ég segi einfaldlega: Það er innbyggð skekkja í fjárlagafrumvarpinu, annars vegar á tekjuhliðinni, geri ég ráð fyrir, og hins vegar á útgjaldahliðinni. Það er hins vegar kosmetík, hin árvissa kosmetík, að vanáætla útgjöld ríkisins. Eins og ég fór yfir eru það 90 milljarðar kr. sem þau hafa verið vanáætluð um frá árinu 2000 til 2004.

Varðandi þær stéttir sem ekki hafa náð 50% meðaltalinu er það alveg rétt að ekki hafa allir náð þessum 50% og einhverjir eru þar undir. Ég segi hins vegar: Það er með öllu ólíðandi að þeir hópar sem standa verst í samfélaginu skuli ekki ná þeirri meðaltalskaupmáttaraukningu sem verður í samfélaginu á góðæristímum. Við eigum að grípa til þeirra stjórnvaldsaðgerða sem færar eru til að tryggja að þessir hópar sitji ekki eftir.

Ég gæti líka fjallað um hinn almenna ójöfnuð sem hefur aukist á Íslandi á þessu tíu ára tímabili, þar sem ráðstöfunartekjur þeirra 20% þjóðarinnar sem hafa hæstar tekjur hafa tvöfaldast frá 1995 en hjá þeim 20% sem hafa lægstar tekjur hefur það ekki gerst með sama hætti. Þannig er hægt að nefna mörg dæmi.

Varðandi hágengisstefnuna og hávaxtastefnuna og að enginn hafi komið til aðstoðar hv. þingmanni þegar hann talaði um það. Þegar maður fær pest, þarf að taka inn lyf við henni og gæti fengið í magann af því. Þá er ekki mikið við því að gera. Veikindin sem þjóðin gengur í gegnum eru af völdum stjórnarstefnunnar. Hv. þingmaður er bara ábyrgur fyrir því. Það þýðir ekki að koma hingað (Forseti hringir.) og gráta þótt það verki illa á magann þegar lyfin eru gefin.