132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mig langaði að gera hér aðeins að umræðuefni vinnu hv. fjárlaganefndar. Ég veit ekki hvort ábyrgðarmenn hennar eru staddir á vettvangi, þeir mættu gjarnan vera viðstaddir umræðu um þetta handverk sitt, fjárlagafrumvarpið. En ég verð að segja alveg eins og er, að ég er ekki jafnmikið upp með mér eða hrifinn af þeirri aðferðafræði sem hér hefur verið að þróast, minnsta kosti núna tvö til þrjú síðustu ár, ef ég man rétt, að meiri hluti fjárlaganefndar ljúki umfjöllun um fjárlagafrumvarpið við 2. umr. Og svo er bara gefin út sú lína að það sé lok, lok og læs og allt úr stáli og engu verði breytt. Það er sagt um þau mál sem út af standa, við þau erindi sem hafa verið síðbúin til fjárlaganefndar og eru að koma þar inn kannski síðustu vikurnar áður en 2. umr. fer fram að þá sé bara búið að loka, því miður. Þetta er eins og búð. Ef þú kemur fimm mínútur yfir sex, þá er bara búið að loka. Mér finnst þetta ekkert sérstaklega faglegt satt best að segja. Mér finnst þetta ekki lýsa mikilli karlmennsku eða miklu sjálfstrausti. Við vitum alveg hvað hér er á ferðinni. Þessi aðferð er notuð til að menn missi ekki í gang umfjöllun um mál sem ekki hafa fengið fullnægjandi fyrirgreiðslu og hafa kannski bara mætt afgangi þegar málið er tekið til 2. umr. Af hverju halda menn að það standi í þingsköpunum að það skuli vísa fjárlagafrumvarpinu til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. og hún skuli taka það efnislega fyrir? Það er auðvitað vegna þess að menn ætlast til að tíminn sé notaður til að vinna málið eins gaumgæfilega og kostur er og allt til enda. Og það sem mönnum kann að hafa yfirsést eða ekki hefur náðst að taka með við 2. umr. eigi þá möguleika á að koma inn við 3. umr. Þannig að það er fullkomlega ómálefnalegt að svo sé það bara notað sem afsökun og sem svör eins og það sé efnislegt að segja: Nei, því miður, það er búið að loka.

Þegar upp koma aðstæður, þegar fram koma vísbendingar og ný gögn — þegar vandamál sem þyrfti að taka á koma fram í dagsljósið — þá er þetta svarið. Er hægt að frá svör við því frá meiri hlutanum í fjárlaganefnd, hv. formanni hennar og varaformanni, hvers vegna þeir gátu ekki tekið málið efnislega fyrir og farið yfir þau vandamál sem ekki hafa hlotið fullnægjandi og eðlilega afgreiðslu við vinnslu þessa fjárlagafrumvarps? Mér finnst það satt að segja harla dapurlegt. Auk þess sem mér finnst að þeir eigi að vera hér viðstaddir, þessir ágætu herrar sem bera ábyrgð á vinnu fjárlaganefndar í málinu. Það er lofsvert að hæstv. fjármálaráðherra er hér sem er bæði rétt og skylt en það er líka ástæða til að hér séu forsvarsmenn fjárlaganefndar.

Það hefur verið athyglisvert hér í dag, frú forseti, að heyra í stjórnarliðum, þeim fáu sem hafa komið hér í pontu, t.d. hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og hv. þm. Birki Jóni Jónssyni sem sperrti sig hér talsvert og fór mikinn í því að útlista hversu ágætt ástandið væri nú að öllu leyti. Mest þótti mér koma til þess þegar að hv. þm., Birkir Jón Jónsson úr Norðausturkjördæmi, fór að ræða um málefni Háskólans á Akureyri og talaði eins og þar væri allt í sómanum og eðlilega á allan hátt að málum staðið — og í raun og veru hin mesta sæmd fyrir meiri hlutann og hann þar með talið, hv. þingmann, hvernig búið væri að þeirri stofnun og hvernig mál hennar hefðu verið meðhöndluð, m.a. í ljósi gagna sem nú liggja fyrir og fjárlaganefnd sjálf óskaði eftir að yrði unnin þar sem er samanburður á málefnum háskólanna. Menn hafa ekki mikinn metnað fyrir hönd sjálfs sín og sinnar vinnu á þessum bæ í fjárlaganefnd ef þeir gera ekki meira með þá hluti sem þeir hafa sjálfir stuðlað að að kæmu fram í dagsljósið. Ég veit það ekki en er það þannig að menn treysti sér ekki til þess að opna fjárlagafrumvarpið upp milli 2. og 3. umr.? Þeir séu svo hræddir um að þeir bili þá og missi útgjöldin eitthvað upp eða það skemmist eitthvað glansmyndin. Þegar ég hef verið að reyna að inna hér eftir afgreiðslu tiltekinna mála, sem mér sýnast standa algerlega út af, hef ég aftur og aftur fengið þetta sem svör. Ég veit að aðrir, sem hafa lifað í voninni um að þeirra mál fengju einhverja úrlausn við 3. umr. fjárlaga, hafa einnig fengið þetta sem svör. Það er dapurlegt.

Ég vil fyrst nefna í þessu sambandi Háskólann á Akureyri. Ég skaust á fund í fjárlaganefnd, hljóp þar í skarðið fyrir hv. þm. Jón Bjarnason, sem var á ferðalagi í sínu kjördæmi, og varð þar af leiðandi svo heppinn að fá einmitt glænýja í hendurnar samantekt Ríkisendurskoðunar þar sem háskólarnir eru bornir saman. Einhver misskilningur hefur verið í gangi um það hvað á því blaði stendur og ástæða er til að upplýsa að samanburðurinn er á grunninum tekjur skólanna á nemanda — það er ekki endilega alveg það sama og kostnaður því þar getur það haft áhrif ef sumir skólarnir eru gerðir upp með einhverjum halla en aðrir með afgangi. Þeir skólar sem eru samanburðarhæfastir, eru líkastir, almennu háskólarnir, eru auðvitað teknir. Það er að sjálfsögðu augljóst mál að t.d. Listaháskóli Íslands eða þess vegna Landbúnaðarháskólinn eða Hólaskóli eiga lítið erindi inn í samanburð við hina almennu háskóla. En þegar þeir eru skoðaðir þá blasir það við, í fyrsta lagi ef vikið er að hinum alþjóðlega samanburði, hversu litlir fjármunir eru veittir til almennra háskóla á Íslandi. Það gildir líka um Háskóla Íslands þó hann hafi nokkra sérstöðu þegar kemur að samanburði á heildartekjum á ársnema vegna hins umfangsmikla rannsóknarstarfs sem þar er. Og er auðvitað vel.

Þegar þessir skólar eru bornir saman þá kemur það út svart á hvítu að svo nokkru munar eru heildartekjur Háskólans á Akureyri á ársnema lægstar ef við tökum þessa almennu háskóla, opinberu háskólana og Háskólann í Reykjavík til dæmis. Háskólinn á Akureyri er í minni kantinum, er á landsbyggðinni með þeim viðbótarkostnaði sem því er samfara og er í uppbyggingu umfram má segja að minnsta kosti Háskóla Íslands og Kennaraháskólann. Er það eðlilegt að hann komi eftir sem áður þannig út í þessum samanburði að hann sé með lægstar heildartekjur á ársnema? Auðvitað eru það ríkisframlögin sem þar skipta sköpum. Er það sá metnaður sem menn vilja hafa fyrir hönd þessarar stofnunar sem gjarnan er nú sagt á tyllidögum að sé alveg sérstaklega vel heppnuð aðgerð á sviði mennta- og byggðamála? Sem er rétt. Háskólinn á Akureyri hefur skipt gríðarlega miklu máli fyrir það svæði. Hann hefur haft geysijákvæð áhrif og ekki bara sem stór vinnustaður og vaxandi. Hann hefur haft gríðarlega þýðingu fyrir andrúmsloftið á svæðinu. Hann hefur skipt miklu máli í þeim efnum að sannfæra fólk um að björt framtíð sé fyrir höndum og menn eigi í vændum betri tíma með aukinni menntun og uppbyggingu m.a. þessarar stofnunar sem ég hef leyft mér að kalla flaggstofnun hvað varðar uppbyggingu á sviði mennta- og byggðamála utan höfuðborgarsvæðisins.

En veruleikinn er sem sagt þessi, þegar málin eru skoðuð ofan í kjölinn, að ekki er betur gert við Háskólann á Akureyri en þetta. Er hann þó með á sínum herðum nú þegar mjög veigamiklar skyldur og á honum brennur að mæta kröfum t.d. hvaðanæva að af landsbyggðinni, og reyndar af landinu öllu, um uppbyggingu háskólanáms í fjarkennslu. Það er mér vel kunnugt um að úr mörgum byggðum liggja fyrir óskir um að Háskólinn á Akureyri komi þar til samstarfs um að bjóða hópum upp á þann möguleika að stunda háskólanám úr sinni heimabyggð með fjarnámi.

Ég hélt að það væri nokkuð óumdeilt að það væri nú eitt það allra allra besta sem menn gætu gert til þess að slá margar flugur í einu höggi, til að hækka menntunarstigið og byggja upp í þeim efnum á landsbyggðinni, til að gefa fólki í þessum byggðum tækifæri sem það færi á mis við ella — til þess t.d. að í framtíðinni væri kannski hægt að manna grunnskóla landsbyggðarinnar með réttindafólki í ríkari mæli en nú er, til þess að fólk standi ekki frammi fyrir þeim nauðungarkostum að velja á milli búsetu í sinni heimabyggð eða menntunar. Það liggur alveg fyrir að mjög margir af þeim sem á undanförnum árum hafa átt þann möguleika að afla sér náms á háskólastigi hefðu ekki átt þann kost ef ekki hefði komið til þessi uppbygging fjarnámsins. Nema þá með því að flytjast búferlum. Ég þykist muna það rétt að þegar fyrstu hjúkrunarnemarnir á Ísafirði hófu fjarnám á vegum Háskólans á Akureyri var gerð könnun á því. Ætli það hafi ekki verið sex til átta manna hópur. Mig minnir að það hafi verið þannig að af þeim hefðu sennilega tveir flutt í burtu ef þetta tækifæri hefði ekki gefist og hinir hefðu orðið af þessum möguleika. Einfaldlega vegna þess að þeir voru ekki tilbúnir að færa þá fórn að flytjast búferlum úr sinni heimabyggð.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að stjórnarliðar, eins og hv. þingmaður Birkir Jón Jónsson, ættu að vera aðeins hógværari í tali þegar þeir koma hér og belgja sig mikið yfir þessum glæsilega árangri og hversu vel sé að öllu búið. Það má auðvitað deila um ýmislegt sem gert hefur verið eða ekki verið gert á undanförnum árum og áratugum á Íslandi og menn flokka undir, hvort sem heldur er, uppbyggingu á sviði mennta- eða í byggðamálum. En það er tiltölulega óumdeilt að þetta er eitthvað það allra best heppnaða. Og menn hafa tækifærin ef þeir vilja gera eitthvað metnaðarfullt í þessum efnum, t.d. í stóru, miðlægu þjónustustofnunum á Akureyri sem hafa verulega sérstöðu hvað varðar alla slíka starfsemi á landsbyggðinni. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Háskólinn á Akureyri hafa mikla sérstöðu hvað varðar þeirra hlutverk og stöðu í þessum efnum. Og í hvorugu tilliti er að mínu mati af nándar nærri miklum metnaði búið að þessum stofnunum. Það er dapurlegt að það skuli ætla að taka sennilega hátt á annan áratug að innrétta suðurálmuna við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Að þar skuli vera bullandi vandræði og húsnæðisekla sem háir starfseminni þó að standi þar ný óinnréttuð viðbygging upp á nokkrar hæðir.

Og Háskólinn á Akureyri fær að mínu mati alls ekki þá úrlausn sem hann ætti að fá. Það er furðulegt að fjárlaganefnd skuli ekki taka á því máli með einhverjum hætti á milli 2. og 3. umr. með glæný gögn í höndunum sem nefndin sjálf hefur óskað eftir að yrðu unnin fyrir hana frá Ríkisendurskoðun. Auðvitað þyrfti að taka betur á málefnum allra háskólanna. Þeir verða allir í vandræðum á næsta ári og alveg sérstaklega Háskóli Íslands, Kennaraháskólinn og Háskólinn á Akureyri. Minni hlutinn flytur um það breytingartillögur að á þessu verði tekið.

Þá að byggðamálunum, frú forseti. Það væri nú ástæða til að ræða svolítið um stöðuna í þeim efnum hér og hafa gjarnan hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer með byggðamálin, viðstadda. Hún var nú ekki svo lítið hreykin og glöð, hæstv. ráðherrann, þegar byggðamál voru flutt 1. janúar árið 2000 úr forsætisráðuneytinu til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Hver er svo útkoman á fimm ára afmæli ráðsmennsku Framsóknarflokksins í þessum efnum, hafandi farið með Byggðastofnun? Jú, Byggðastofnun er lokuð. Meira og minna óstarfhæf. Að vísu er það þannig að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur skipað stofnuninni að fara aftur í gang með lánveitingar þó að Fjármálaeftirlitið, sem heyrir undir sama ráðherra, geri athugasemdir við það — spyrji stofnunina út úr um það hvernig hún ætli að uppfylla ákvæði laga vegna þess að eiginfjárhagur hennar er farinn niður fyrir viðmiðunarmörk sem henni, eins og öðrum fjármálastofnunum í landinu, er gert að starfa eftir. Það er kúnstug uppákoma að yfirmaður Fjármálaeftirlitsins í öðru hlutverkinu skuli sem yfirmaður Byggðastofnunar í hinu hlutverkinu nánast skipa henni að brjóta lögin. Að lána bara engu að síður. Farið þið bara í gang aftur og lánið þið, segir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þó að Byggðastofnun sé svona á sig komin. Hér verður engin byggðaáætlun í gildi frá og með áramótum. Hvers konar sleifarlag er það? Og geta ekki komið því hér frá sér og fyrir þingið. Það er þá ekki mikill metnaður heldur fyrir hönd þeirra verkefna sem þar á að vinna.

Hver er frammistaða hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar þegar kemur að jöfnun flutningskostnaðar í landinu? Hvar er það mál statt? Afvelta síðan löngu fyrir síðustu kosningar þrátt fyrir loforð í allri kosningabaráttunni um að nú yrði heldur betur tekið á málum. Heldur betur tekið á málum. Það er meiri frammistaðan. Ég er hér með glænýtt blað einhvers staðar, ef ég finn það nú hérna í bunkanum hjá mér, þar sem verið er að upplýsa að flutningsaðilar — hvað eru þeir að gera akkúrat núna? Þeir eru að senda landsbyggðinni tilkynningar um nýjar og hærri gjaldskrár. Og hverjar eru röksemdirnar? Það er hækkun olíuverðs, það er olíugjaldið, það eru ýmsar kostnaðarhækkanir sem þessir aðilar telja sig hafa orðið fyrir og þeim er rúllað beint út í verðið. Nýjar gjaldskrár og er þó ekki á bætandi eða hvað? Hafa menn skoðað gjaldskrárnar t.d. fyrir léttavöru og pakkasendingar eins og þær eru orðnar út á afskekktustu svæði landsins? Vita menn hvað það kostar orðið að senda smásendingar norður á Vopnafjörð? Vita menn hvað það kostar að senda kíló af lauk frá Reykjavík og til Kópaskers á fullu gjaldi? Það kostar meira en laukurinn sjálfur. Flutningskostnaðurinn er talsvert hærri en innkaupsverð vörunnar á kíló. Halda að mönnum líði svo vel að reka verslun á þessum slóðum að fara að leggja ofan á vöru við þannig aðstæður? Segjum að laukurinn kosti ekki nema 40 kr. í heildsölu kílóið en 55 kr. að flytja hann norður í búðina eða vestur. Hvernig halda menn að það sé? Að ætla þá að fara að leggja á vöruna og svo fá þeir á sig verðkönnun og samanburð á verðinu við stórmarkaði hér á höfuðborgarsvæðinu.

Auðvitað er þessi frammistaða til háborinnar skammar. Ég saknaði kaflans í annars glæstri ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar hér áðan um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að jafna flutningskostnað. Eða missti ég af þeim kafla, var hann fluttur? Var það í sama ánægjustílnum og einkenndi málflutning hv. þingmanns að öðru leyti? Það hefði verið fróðlegt að vita. Nei, ætli hann hafi ekki sleppt því og ýmsu öðru sem ríkisstjórnin er kannski ekki alveg jafnhreykin af þegar öll kurl koma til grafar. Þá er bara settur upp gamli belgingurinn um góðærið. En góðærið er ekki hjá öllum. Það fer meira og minna hjá garði á landsbyggðinni. Og góðærið er heldur ekki hjá ýmsum hópum í þessu samfélagi sem ríkisstjórnin mætti muna eftir á öðrum tímum en rétt fyrir kosningar þegar reynt er að draga þá upp í Þjóðmenningarhús til að skrifa undir samninga sem eru svo sviknir eins og í tilviki öryrkja.

Frú forseti. Það er af ýmsu að taka ef út í það er farið sem ástæða væri til að hlýða hæstv. ríkisstjórn yfir hér við þessa 3. og síðustu umræðu fjárlaga og gefst ef til vil ekki annað betra tækifæri áður en þingið lýkur senn störfum — miðað við það t.d. að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætli alls ekki að koma frá sér neinu um byggðamál á þessu haustmissiri þingsins. Hér hefur ekkert litið dagsins ljós í þeim efnum annað en vandræðalegar afsakanir og útskýringar hæstv. ráðherra á því sem ekki er verið að gera. En var þó lofað.

Ég ætla svo hér eftir matarhlé, sem ég hef nú grun um að forseti hafi mikinn hug á að fara að gera, að ræða aðeins um atvinnumálin. Ég mun þá taka nokkur málefni, eins og Mannréttindaskrifstofuna og hjúkrunarheimilin, fyrir í þeim hluta ræðu minnar sem ég fæ þá að flytja eftir hlé ef það hentar forseta að gera það núna.