132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni og fór ítarlega yfir ýmsa þætti í efnahagsmálum okkar og ríkisfjármálum. Ég vil aðeins bregðast við einu af því sem kom fram í máli hans og það laut að Íbúðalánasjóði og ummælum hans um breytinguna sem ákveðin var með lögum á sínum tíma á síðasta ári, um að hækka lánshlutfallið í áföngum á kjörtímabilinu upp í 90%.

Til að halda öllu til haga gerðust hlutirnir þannig að eftir að sú stefna lá fyrir af hálfu stjórnvalda og naut stuðnings allra þingflokka á Alþingi, þar með talið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs — ég veit ekki annað en að allir þingmenn þess flokks hafi greitt atkvæði með því lagafrumvarpi sem grundvallaði þessar breytingar af hálfu Alþingis. Hins vegar kom til eftir að þetta lá fyrir skyndilega mikil samkeppni af hálfu bankanna. Þeir brugðust mjög hart við og fóru í einu vetfangi upp með lánveitingar, bæði hámarkslánin og fóru alla leið upp í 100% lánveitingar. Þetta kom mönnum algjörlega í opna skjöldu og það fjárstreymi sem varð á íbúðalánamarkaðnum í kjölfarið var algjörlega á ábyrgð viðskiptabankanna. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar segir einmitt um þetta mál, þar sem var verið að ræða um málefni Íbúðalánasjóðs, að um hafi verið að ræða óvænta samkeppni á húsnæðislánamarkaði sem Íbúðalánasjóður gat ekki séð fyrir.