132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði í gær á ekki ómerkari mann en seðlabankastjóra, formann bankastjórnar Seðlabankans, Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa um þetta mjög nálægt því efnislega þau orð að það væri gagnrýnisvert hvernig menn hefðu þarna staðið að málum og hann tók sérstaklega fram að menn ættu ekki að vera í vafa um hvaða forsætisráðherra hvaða ríkisstjórnar hann væri að tala. Hann var í raun og veru að segja að eftir á að hyggja — og það er auðvitað alltaf auðvelt að vera vitur eftir á — hefði kannski þurft að fara þarna varlegar. Við skulum ekki gleyma því að varnaðarorð voru mælt af ýmsum aðilum. Seðlabankinn t.d. varaði sterklega við þessu en menn fóru fram engu að síður.

Ég viðurkenni það fúslega út af fyrir sig að allir vildu gjarnan að þetta væri hægt að gera þannig að það tækist vel. Menn þurftu auðvitað ekki endilega að sjá það fyrir og gátu ekki endilega séð það fyrir hvernig bankarnir hjóluðu í þetta eins og kom á daginn. Og þó, áhugi bankanna á að komast inn í þessi viðskipti er ekkert nýr. Þeir hafa undanfarin ár nuddað um það og gegnum samtök sín, þessar fjármálastofnanir, að óeðlilegt sé að ríkið sé að sinna öllum þessum viðskiptum. Þeir hafa girnst þetta svið lánsviðskiptanna, m.a. vegna þess að það flokkast með hagstæðum hætti í lánasamsetningu þeirra og eru trygg lán og þeir vilja náttúrlega gjarnan hafa af því tekjur og hagnað að sýsla með þetta. Auðvitað mátti því alveg búast við því að það gæti eitthvað af þessu tagi skollið á. En fleira kom til, aðstæður sem voru komnar upp í fjármálunum, ódýrt erlent lánsfjármagn sem var auðvelt fyrir bankana að sækja sér til að fjármagna innrás sína á þetta svið viðskipta og fleira.