132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[20:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að mörgu leyti sammála hv. þingmanni, mér er því meinilla við að það komi síðan út að ég sé að standa í einhverri vörn fyrir bankana, það er ekki svo. Ég tel að þeim beri að líta hressilega í eigin barm og þeir hafi farið glannalega og ábyrgðin sem átti að fylgja einkavæðingunni hafi ekki alltaf verið sem skyldi.

Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að verja opinberan íbúðalánasjóð. Ég sé reyndar fyrir mér að þeir tímar muni aftur ganga í garð á Íslandi að menn þurfa að beita í miklu ríkari mæli en í boði er í dag félagslegum úrræðum í húsnæðismálum. Það er þannig í öllum löndum þar sem þessi mál eru í lagi þá er félagslegum úrræðum beitt og þar á meðal í gegnum fjármögnun í húsnæðismálum til að tryggja mönnum þau lífsnauðsynlegu gæði sem tryggt húsnæði, þak yfir höfuðið, er.

Ég held að það sé mjög alvarlegt ef það er í reynd svo að bankarnir í krafti stærðar sinnar og tímabundinnar getu til að heyja slíkt stríð beinlínis niðurgreiði svona lán. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að í samkeppnislög okkar vanti sterkari ákvæði um að undirboð séu ekki heimil, að verðleggja vörur sannanlega undir kostnaðarverði eigi ekki að líðast nema þá í einhverjum afar afmörkuðum og tímabundnum undantekningartilvikum sem hægt væri að flokka undir kynningu á nýrri vöru eða annað í þeim dúr. Það er ósiður að láta það líðast í viðskiptum að hinn stóri geti neytt aflsmunar og knésett minni samkeppnisaðila með því að verðleggja vöru undir kostnaðarverði eða þjónustu af hvaða tagi sem er til langs tíma. Auðvitað ættu þá aðilar eins og Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit að fara ofan í saumana á því hvort það sannanlega hafi verið (Forseti hringir.) eða sé svo að bankarnir séu þarna að stunda hrein undirboð.