132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:24]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það fer að líða að lokum 3. umr. um fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 2006. Eftir að hafa farið í gegnum fjárlagaumræðuna og hlustað á hv. þingmenn og ráðherra í dag finnst mér eins og hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti fjárlaganefndar, hv. þingmenn, séu í glerkössum eða hafi stungið höfðinu í sandinn. Mér finnst hæstv. ríkisstjórn gleyma sér í upphafningu á góðærinu, góðæri sem hefur skilað miklum tekjum í ríkissjóð, góðæri sem hefur aðallega byggst á tekjum af þeirri eyðslu og spennu sem er í þjóðfélaginu. Þetta góðæri byggist líka á því að hæstv. ríkisstjórn setur hér rammafjárlög sem taka mið af hugarheimi hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar sem horfir ekki á stöðu ríkisstofnana sem hún ber ábyrgð á og horfir ekki til þeirra kjara og þess aðbúnaðar sem aldraðir og öryrkjar búa við — sem má að mestum hluta rekja til þess að lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja hafa ekki fylgt verðlagi og skattlagning þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu er orðin óheyrilega há.

Ég tel það ámælisvert að ekki hafi verið hlustað á raddir þessa fólks og ekki farið eftir ákalli þeirra stofnana og félagasamtaka sem hafa látið í sér heyra á milli 2. og 3. umr. Því segi ég, hæstv. forseti, að það sé eins og þessir fulltrúar ríkisstjórnar og í meiri hluta fjárlaganefndar lifi í glerbúrum, séu sjálfhverfir og horfi ekki á stöðu annarra. Þannig er auðvitað hægt að búa sér til mjög fallegan heim og skila ríkissjóði með góðum tekjuafgangi og neita að viðurkenna þann vanda sem er víða í þjóðfélaginu.

Hæstv. forseti. Ég vil nefna það í upphafi máls míns að á fjárlögum eru svokallaðir safnliðir hjá hverri nefnd. Með tilstuðlan viðkomandi nefndar á hv. Alþingi er raðað niður og úthlutað til einstaklinga, félagasamtaka og annarra sem sækjast eftir framlögum úr ríkissjóði til sinnar starfsemi. Mér finnst miður að ekki skuli hafa verið hægt að koma betur til móts við mörg þessara félagasamtaka og einstaklinga sem sóttu til heilbrigðis- og trygginganefndar. Ég tel að með meiri og betri stuðningi við mörg þessara félaga sé ríkissjóður að spara mikla fjármuni því í þessum félögum er unnið mikið sjálfboðaliðastarf og með eflingu þeirra má leiða að því líkur að ýmsum forvörnum verði við komið og sparnaður verði á öðrum stöðum í ríkisrekstrinum. Þetta á þá sérstaklega við um ýmis góðgerðarfélög og hjálparstarf.

Ég tek undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem fór vel yfir nefndarálit 2. minni hluta fjárlaganefndar og greindi þar frá þeirri gagnrýni sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð setur fram hvað varðar fjárlagagerðina eins og hún er núna og forsendur fjárlaga og ýmsa liði sem hér eru afgreiddir.

Hæstv. forseti. Ég vil bæta því við að ég tel einnig mjög ámælisvert að þau vinnubrögð skuli viðhöfð við fjárlagagerðina að stofnanir sem fá framlög af fjárlögum eigi ekki lengur jafngreiðan aðgang að fjárlaganefnd og þær höfðu á árum áður. Ef ég lít eingöngu til þeirra stofnana sem falla undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið þá hafa forstöðumenn þessara heilbrigðisstofnana ekki haft möguleika eða tækifæri til að koma fyrir fjárlaganefndina og greina frá fjárhagsstöðu sinna stofnana. Það er ekki nema fjárlaganefnd sjálf kalli eftir upplýsingum, kalli til forstöðumennina eða starfsfólk, að upplýsingar liggja frammi. Það væri allt í lagi að hafa þetta svona ef það gæfist þá tími og ef vilji væri fyrir hendi hjá fjárlaganefnd að kalla til forstöðumenn þessara stofnana. En svo er ekki. Það er alveg ljóst ef við tökum eingöngu hjúkrunarheimilin og dvalarheimilin að langflestar þessara stofnana eru í miklu fjársvelti og ekki bara í ár heldur til lengri tíma. Það er misjafnt eftir stofnunum en í heildina eru flestar stofnanir sem reka dvalarheimili og hjúkrunarþjónustu reknar með halla í ár og þannig er þeim ætlað að fara inn í næsta ár með mikinn rekstrarhalla án þess að hækka daggjöldin eða taka tillit til þessa halla. Þetta er alveg afleit stjórnunaraðferð og algerlega óviðunandi fyrir rekstraraðila þessara stofnana að halda uppi óbreyttum rekstri.

Svo rekum við upp stór augu á hinu háa Alþingi yfir því að enn þann dag í dag skuli reynt að hafa fleiri einstaklinga á dvalarheimilisstofnunum, hjúkrunarstofnunum en eðlilegt má teljast miðað við þá kröfu sem við gerum í dag þar sem við viljum að fólk sé eitt í herbergi eða hafi andrými til að vera með þeim sem það kýs, maka eða vinum, en ekki sett í herbergi með bláókunnugu fólki og þar sem eru örar skiptingar á herbergisfélögum eins og nú tíðkast. Það kom stjórnarandstöðunni ekki á óvart en virtist koma stjórnarliðum á óvart að þetta væri ein leiðin hjá rekstraraðilum þessara stofnana til að halda rekstri gangandi því að með fækkun dvalarheimilisþega lækka tekjurnar og það kemur niður á almennum rekstri. Við erum því bæði að ásaka dvalarheimilin fyrir að hafa allt of marga einstaklinga inni og við of þröngan kost og svo erum við að sama skapi að gera kröfur um að þær reki sínar stofnanir án þess að fá hærri framlög. Stjórnarmeirihlutinn verður að gera sér grein fyrir því að þetta gengur ekki upp. Reksturinn gengur ekki eins og hann er í dag. Ef við ætlum að gera þá kröfu, sem ég vona að verði sett upp núna hið allra fyrsta, að fjölga einbýlum og stækka vistarverur þannig að dvalarheimilis- og hjúkrunarpláss verði mannsæmandi dvalarstaður þá verður að setja upp áætlun um aukið fjármagn til að breyta og styrkja rekstrargrunn þessara heimila í daggjöldum. Auk þess verður að koma til aukið fjármagn til að fjölga bæði hjúkrunarheimilum og hjúkrunarplássum. En eins og þetta er núna þá eru stigin hænufet við að fjölga hjúkrunarplássum en ekki tekið tillit til rekstrarvanda dvalarheimila og hjúkrunarheimila.

Það er mikil þensla í þjóðfélaginu, herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn hlustar með öðru eyranu á aðvörunarorð frá Seðlabanka Íslands og frá öðrum fjármálastofnunum sem vara við áframhaldandi þenslu og afleiðingum sem sterk staða íslensku krónunnar hefur hvað varðar allar útflutningsgreinar. Brjálæðisleg stóriðjustefna hefur verið hér ríkjandi og virðist ekki vera neitt lát á henni. Það á að keyra áfram í blindum átrúnaði á þessa einu stefnu til að styrkja stöðu atvinnuveganna, ekki þó atvinnuveganna heldur atvinnuvegarins í eintölu, þ.e. álframleiðslu á Íslandi. Með áframhaldandi áformum um að reisa fleiri álver höldum við þeirri spennu sem er í dag. Við höldum uppi væntingum. Við höldum uppi þeirri trú að hægt sé að halda áfram að eyða um efni fram og við höldum áfram að byggja upp falsvæntingar um áframhaldandi góðæri eins og það góðæri sem við búum við í dag.

Herra forseti. Fleiri en við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og viðskiptabankarnir og Seðlabankinn vara við áframhaldandi stóriðjustefnu og þeirri þenslustefnu sem hefur verið ríkjandi. Í Morgunblaðinu birtist grein þann 6. desember, í dag sem sagt, eftir Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóra Útflutningsráðs. Hann er nákvæmlega sama sinnis og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Hann nefnir að vísu ekki álverin sérstaklega en hann minnist á að launakostnaður sé hár á Íslandi og það sé m.a. ástæðan fyrir því að fyrirtæki sem hafa verið með töluverða framleiðslu hafa horft til annarra landa og að það sama sé að gerast á annars staðar á Norðurlöndunum. Hann segir, með leyfi forseta:

„„Allar nágrannaþjóðir okkar hafa horfst í augu við sömu þróun“ — þ.e. vegna launakostnaðar — „og látið hana yfir sig ganga með þeim rökum að eðlilegt sé að vinnuaflsfrek framleiðsla leiti þangað sem hin vinnandi hönd er ódýrust og að það sé huggun harmi gegn að eftir sitji fyrirtæki sem byggi tilveru sína á margháttaðri þjónustu og framleiðslu sem grundvallist á vísindalegri þekkingu, hönnun og frjórri hugsun.

Til skamms tíma hefur virst sem mál mundu einnig skipast á þennan veg hér á landi. Við yrðum að sætta okkur við flótta vinnuaflsfreku fyrirtækjanna, en gætum treyst því að þjónustu- og hátæknifyrirtækin færu hvergi. Hugur ungra Íslendinga stæði hvort eð er aðallega til þess að starfa við slík skapandi fyrirtæki. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Flaga er farin og stöðugt berast fregnir af gylliboðum til íslenskra nýsköpunarfyrirtækja utan úr heimi. Í boði eru skattfríðindi, þróunarstyrkir, styrkir til fjárfestinga, hagstæð lánakjör og þátttaka í launakostnaði ef fyrirtækin eru tilbúin að flytja starfsemi sína úr landi. Til þess að bæta gráu ofan á svart er svo hið ótrúlega og óraunverulega hágengi íslensku krónunnar, sem er svo að sliga allan rekstur sem byggist á útflutningi eða samkeppni við innflutning að búast má við hruni íslenskra framleiðslufyrirtækja á næstunni eða að þau muni í vaxandi mæli hverfa úr landi með starfsemi sína. Hið sama á við um ferðaþjónustuna.

En hvað er til ráða?“ — segir greinarhöfundur Jón Ásbergsson — „Stjórnvöld geta auðvitað með markvissum aðgerðum boðið íslenskum sprotafyrirtækjum sambærilegt rekstrarumhverfi við það sem fæst erlendis. Og sértækar aðgerðir geta sjálfsagt bjargað einhverjum fyrirtækjum. Vandinn er bara sá að slíkt dugar skammt nema gengi íslensku krónunnar lækki. Allar hinar góðu almennu rekstrarforsendur koma útflutningsfyrirtækjunum að litlu gagni ef þau eru öll rekin með tapi. Gengisleiðrétting verður að vera efst á baugi í stjórn íslenskra efnahagsmála á næstu mánuðum, annars fara fyrirtækin á hausinn eða úr landi,“ að því er fram kemur í leiðara Jóns Ásbergssonar.“

Þetta stendur í Morgunblaðinu í dag. Ég nefni þessa grein, hæstv. forseti, til að sýna að fleiri en við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði telja að fórnarkostnaður stóriðjustefnunnar sé allt of mikill. Við höfum horft á fækkun starfa í fiskiðnaði allt í kringum landið. Ekki á einum stað eða tveimur heldur hringinn í kringum landið eru fyrirtæki að loka og gefast upp og ekki virðist vera neitt hlé á því. Búast má við fleirum því miður. Stóriðjustefnan og hágengisþróunin er líka farin að hafa áhrif á það sem menn hafa talið flaggskip þekkingariðnaðar okkar sem mundu ekki fara úr landi en eru nú að gera það. Blikur eru því alls staðar á lofti. Ég tel að hæstv. ríkisstjórn verði að komast út úr sínu glerbúri og horfa á raunveruleikann, það sem er að gerast í íslensku samfélagi, áður en allt verður um seinan og reyna að vinda sér að því að snúa blaðinu við og hlúa að þessum sprotafyrirtækjum með eins ráðum og aðrar þjóðir nota til þess að lokka íslensk fyrirtæki til sín og til að halda sínum eigin í eigin landi því það er framtíðin.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara neitt frekar út í efnahagsumræðu þó tilefni sé til þess. Það hafa aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gert sem hér hafa talað á undan mér. Ég ætla því að leggja áherslu á heilbrigðisstofnanir og stöðu aldraðra, sjúkra og öryrkja því ljóst er að staða bæði stofnana og einstaklinga hefur versnað og ekki er fyrirsjáanlegt að rekstur heilbrigðisstofnana verði bjartur á næsta ári ef þessi fjárlög verða afgreidd eins og þau eru lögð fram í dag.

Ég nefni flaggskip íslensku heilbrigðisþjónustunnar. Við höfum talað mikið um flaggskip menntamála og menntunar, þ.e. Háskóla Íslands sem er flaggskip íslenskrar menntunar. En Landspítali – háskólasjúkrahús er flaggskip okkar á heilbrigðissviði. En þannig er staðan hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi að gerðar hafa verið óhóflegar kröfur um aðhald og sparnað. Þessi krafa hefur verið uppi alveg frá því að þessar tvær stofnanir, Landspítali og Borgarspítali, sameinuðust. Þær fengu aldrei andrými til að koma starfseminni þannig í gang að hægt væri að sýna hagræðingu með sameiningu. Sameiningin ein og sér kostaði fjármuni og þeir fjármunir voru aldrei lagðir til þessarar stofnunar. En hún er enn þá undir þeirri pressu að sýna óhóflegt aðhald og sparnað. Dregið hefur úr stoðþjónustu á stofnuninni og það er markvisst gert. Það er gert undir þeim formerkjum að í sparnaðaráformunum og kröfunum felst að spítalinn verður að einbeita sér að sjúkrahúsrekstrinum sjálfum og hátækniþjónustunni og því er allt tekið út sem hægt er sem gerði þjónustuna betri, fjölbreyttri og mannúðlegri, við skulum ekki gleyma mannúðlegri.

Um langt skeið hefur verið óheyrilegt álag á starfsfólki, sérstaklega í hjúkrunargeiranum, á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Margar deildir hafa verið undirmannaðar og fólk er að gefast upp. Langvarandi álag er farið að hafa áhrif á heilsu og krafta þeirra starfsmanna sem enn starfa við stofnunina. Þetta er staðreynd sem ég tel að ekki sé hægt að horfa fram hjá.

Undirmönnunin birtist ekki bara í því að færri séu á vakt heldur einnig því að færri hjúkrunarfræðingar eru á vakt, miðað við það sem eðlilegt getur talist, m.a. miðað við þá staðla sem settir hafa verið eftir miklar rannsóknir. Það er ekki byggt á getgátum eða óskhyggju heldur hefur verið sýnt fram á að með ákveðnu menntunarstigi í hjúkruninni, þ.e. með vissum fjölda hjúkrunarfræðinga fyrir ákveðinn fjölda sjúklinga sé þjónustan öruggari, skilvirkari og verði með tímanum ódýrari. Við erum langt frá því að uppfylla staðla um góða og faglega þjónustu. Ég tel að við séum komin að mörkum þess að reka heilbrigðisþjónustu sem talist geti örugg og eins góð og við ættum að eiga möguleika á að veita, miðað við þá starfskrafta sem við höfum til að sinna henni. Fagleg þjónusta hefur verið skert á mörgum deildum og ég tel að hættan á faglegum mistökum hafi aukist. Það hefur komið fram.

Hætta á sýkingum getur einnig aukist. Sýkingarhættan eykst með breyttu fyrirkomulagi við ræstingu. Það gerist sjálfkrafa þegar ræsting er boðin út. Þrifin á hverri deild fyrir sig eru með öðrum hætti en þegar starfsfólkið er fastráðið. Slíkt fyrirkomulag getur leitt til aukinnar sýkingarhættu. Ég tel rétt að við ræðum þetta opið enda mun þetta áhyggjuefni hjá mörgum innan sjúkrahússins.

Fleiri deildir mætti nefna en barna- og unglingageðdeildin hefur orðið einna verst úti við rekstur Landspítala – háskólasjúkrahúss. Barna- og unglingageðdeild hefur bæði verið undirmönnuð og eins hefur dregist að ráða bót á húsnæði hennar. Samtímis hefur verið stóraukin eftirspurn eftir þjónustu deildarinnar þannig að á tíðum ríkir neyðarástand á þessari deild. Það er neyðarástand þegar ekki er hægt að taka við bráðveikum börnum og unglingum inn á deildina, sem enginn vafi er á að þurfa á bráðaþjónustu að halda. Það er alvarlegt mál. Þurfi að dragast um einhvern tíma að veita börnum og unglingum með geðræna sjúkdóma þjónustu þá getur það haft alvarlegar afleiðingar. Ef ekki er hægt að grípa nógu fljótt inn í þá versnar sjúkdómurinn í mörgum tilfellum og þá þarf á meiri lyfjagjöf eða lengri meðferð að halda.

Ég vil benda á að fyrir liggur breytingartillaga á þskj. 485, sem hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon, Margrét Frímannsdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson standa að ásamt mér. Þar er gert ráð fyrir framlagi til nýframkvæmda til Landspítala – háskólasjúkrahúss, 90 millj. kr., til að hefja framkvæmdir við barna- og unglingageðdeild. Miklu fé hefur verið safnað til þessa sjúkrahúss og ég tel það til vansa að slíkar umbætur skuli ekki komnar í gagnið.

Ég vil í þessu sambandi líka nefna geðdeild Landspítalans á Kleppi. Því miður er hæstv. heilbrigðisráðherra ekki viðstaddur en það væri áhugavert að fá úr því skorið hvort inni á Kleppi sé rekin lokuð geðdeild eða öryggisdeild. Menn gera sér ekki allir grein fyrir því að töluverður munur er á lokaðri deild og öryggisdeild. Lokuð deild hindrar að sjúklingar komist út. Um öryggisdeild gildir hið sama, þar komast sjúklingar ekki út en hún er mönnuð með allt öðrum hætti. Þar eru starfsmenn fleiri og önnur samsetning á mannafla. Sú deild verður að standa undir nafni en svo er ekki í dag. Mér finnst mikilvægt að upplýst verði hvort deildin á Kleppi sé lokuð deild eða öryggisdeild. Erfiðar geðdeildir verða að vera vel mannaðar og með hæfu starfsfólki.

Hæstv. forseti. Ég vil einnig nefna stöðu aldraðra og öryrkja. Í breytingartillögum á þskj. 484 sem lagðar eru fram af hv. þm. Helga Hjörvar, Einari Má Sigurðarsyni, Katrínu Júlíusdóttur, Guðjóni A. Kristjánssyni og Jóni Bjarnasyni er lagt til að örorkulífeyrir hækki um 600 millj. og til heilbrigðismála verði auk þess lagðar fram 300 millj. kr. til að fjölga hjúkrunarrýmum umfram það sem gert er í fjárlagafrumvarpinu. Hvoru tveggja er bráðnauðsynlegt að koma í gegn enda ekki hægt að loka augunum fyrir því lengur og efast um upplýsingar frá öryrkjum og öldruðum varðandi útreikninga á lífeyri þeirra og stöðu þeirra hvað varðar framfærslugetuna af þeim lífeyri sem þeir fá eftir að búið er að taka af þeim skatta. Tekjutengingin er með þeim hætti að öryrkjar og eldri borgarar hafa lítið upp úr því að afla sér aukatekna með launaðri vinnu. Af þeim er fer stórt hlutfall í skatta auk þess, vegna reglna um tekjutengingar, að þeir missa lífeyrisgreiðsluréttindi sín að auki.

Mörgum hefur verið hegnt fyrir að ætla að reyna að styrkja framfærslugrunn sinn með því að vinna launaða vinnu. Fyrir utan það er kerfið sem þeir búa við í dag mjög óréttlátt. Enginn lifir af tekjum undir 100 þús. kr. að frádregnum sköttum. Það er augljóst að framfærslukostnaðurinn er miklu hærri. Auk þess er niðurlægjandi fyrir þá sem geta unnið að kerfið skuli letja þá í að vinna. Ég tel að fyrirkomulagið, fyrir utan það að vera þjóðarskömm, hvetji aldraðra og öryrkja til svartar atvinnustarfsemi, líkt og marga aðra sem komast ekki öðruvísi af en að vinna án þess að gefa upp tekjur sínar.

Hæstv. forseti. Ég mæli ekki með því að fólk vinni á svörtum markaði. En þetta eru staðreyndir og þeir einstaklingar sem hafa möguleika á að vinna án þess að gefa upp tekjur sínar freistast örugglega til að gera það. En því miður er hugsanlega ekki mikið framboð af vinnu fyrir þessa einstaklinga. Við búum í þjóðfélagi sem veltir sér upp úr æskudýrkun þar sem eldra fólki er frekar sagt upp en að hlúa að starfsframlagi þess. Vinnufyrirkomulagið þyrfti að vera þannig að aldraðir og öryrkjar geti verið á vinnumarkaðnum með sveigjanlegan vinnutíma. Sú hugsjón og hugsun að hafa sveigjanlegan vinnutíma á vinnumarkaði er frekar í orði en á borði. Á því hefur lítið borið hvort heldur sem það hefur snúið að öldruðum og öryrkjum eða barnafólki. Þar sitja allir við saman borð. Vinnumarkaðurinn er ósveigjanlegur og hefur fram að þessu frekar viljað losa sig við aldraða en stuðla að því að þeir fái vinnu.

Skýrsla Stefáns Ólafssonar sem birt var 1. desember staðfestir það sem aldraðir hafa lýst yfir á undanförnum árum, að kjör þeirra hafa versnað frá árinu 1988. Árið 1995 fóru kjör þeirra að skerðast verulega og það nægir hverjum og einum hv. þingmanni að tala við hóp aldraðra. Það er undantekning ef einhver í þeim hópi lýsir sig ánægðan með stöðu sína, kjör og þjónustu heilbrigðis- og félagsþjónustunnar. Það er bara þannig.

Sem betur fer býr stór hópur aldraðra vel og hefur góðan lífeyri en það afsakar ekki að þeir eru miklu fleiri sem búa við mjög kröpp kjör. Þær lífeyrisgreiðslur sem allt of margir verða að búa við hneppa aldraða og öryrkja í fátæktargildru sem ómögulegt er fyrir þá að komast úr. Ljóst er að þau kjör sem öldruðum eru boðin með lífeyrisgreiðslunum hafa eingöngu hækkað, greiðslur vegna lyfja hafa hækkað, greiðslur vegna heilbrigðisþjónustu hafa hækkað. Þetta samanlagt hvetur fólk og rekur það inn á dvalar- og hjúkrunarheimili. Þegar fólk hefur ekki efni á að eiga hús sín, þegar það hefur ekki efni á að leigja, þegar það hefur ekki efni á því að lifa mannsæmandi lífi af þeim tekjum sem það hefur er skömminni skárra að reyna að komast inn á dvalarheimili þó svo þessir sömu einstaklingar gæfu lifað ágætu lífi og búið einir sér ef þeir fengju til þess stuðning.

Hæstv. forseti. Fyrir utan að hækka lífeyrinn er nauðsynlegt að hækka frítekjumarkið þannig að við verðum á svipuðu róli og Norðurlandaþjóðirnar hvað varðar frítekjur aldraðra og öryrkja. Einnig verður að draga úr hinni óhóflegu tekjutengingu frá því sem nú er. Hún er þjóðarskömm. Það er skömm að því að setja svo strangar reglur hvað varðar möguleika til tekjuöflunar að fólk sjái sér engan hag í því að fara út á vinnumarkaðinn þó það hafi heilsu til og ánægju af.

Hæstv. forseti. Hér eru nokkrar breytingartillögur á þskj. 486 frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vil nefna breytingartillögur í 4. lið. Þar leggjum við til að framlag til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri verði 40 millj. kr. til að tryggja starfsemi líknardeildar, ekki bara hálft næsta ár heldur allt árið, og eins til að styrkja starfsemi krabbameinslækningadeildar og þá þjónustu sem krabbameinssjúklingar gætu fengið á Akureyri ef bæði krabbameinsdeildinni og líknardeildinni yrði tryggður rekstur. Það er hægt að stórefla krabbameinslækningar á Akureyri og draga enn frekar úr því að fólk þurfi að fara suður til Reykjavíkur í krabbameinsmeðferð nema í þeim tilfellum þegar um mjög sérhæfða meðferð er að ræða eða fólk óski hreinlega eftir því.

Í 6. lið eru 17 millj. kr. áætlaðar í stafræna myndgreiningu á Norður- og Austurlandi. Nú er það svo, herra forseti, að á þessum stofnunum, á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Sjúkrahúsinu á Ísafirði, hefur nú undanfarið verið unnið að því að koma á tengingu og keypt hefur verið greiningartæki til stafrænnar framköllunar á röntgenmyndum. Eins hefur verið keypt sneiðmyndatæki á Austurlandi fyrir Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. Þetta er meira og minna fyrir gjafafé en tengingar fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eru komnar í lag. Hugmyndin er sú að með því að nota þessa stafrænu myndgreiningu á röntgenmyndum sé hægt að fá þjónustu röntgenlækna, sérfræðinga, allan sólarhringinn allt árið. Þeir sérfræðingar eru þá staddir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þangað eru myndirnar sendar og greindar og sjúkdómsgreiningin kemur til baka. Af þessu er mikil hagræðing og mikið öryggi. Núna er hægt að senda þessar myndir hnökralaust en ekki hefur verið hægt að geyma þær. Til þess þarf alveg sérstakt tæki og þessar 17 millj. kr. eru ætlaðar í það tæki. Það er til lítils að fjárfesta í sjálfum myndgreiningartækjunum og dýrum tækjum eins og sneiðmyndatækjum og vinna að þessu samstarfi milli stofnana á milli fjórðunga — Sauðárkrókur er trúlega inni í þessu líka — ef ekki er hægt að klára dæmið til fulls og koma upp tæki sem geymir myndirnar. Þetta er dýrt tæki, kostar að mig minnir eitthvað um 60 millj. kr. Það væri hægt að dreifa kostnaðinum á einhver ár en það kostar þessa upphæð að festa kaup á þessu tæki og koma því upp.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég vinnulag hv. fjárlaganefndar ámælisvert, þ.e. að kalla ekki til sín þá forstöðumenn ríkisstofnana sem bera ábyrgð á viðkomandi rekstri. Þetta hefur verið gagnrýnt af þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Þeir vilja fá upplýsingar um stöðu margra stofnana en ekki hefur þótt ástæða til að kalla forstöðumenn þeirra fyrir. Mér er kunnugt um að Heilbrigðisstofnun Austurlands á í miklum fjárhagserfiðleikum og ég nefni þá stofnun hér þar sem ég þekki aðeins til reksturs hennar. Ég tel að sá rekstur geti verið samnefnari fyrir rekstur annarra heilbrigðisstofnana og margra sjúkrahúsa vítt og breitt um landið. Það er vitað í heilbrigðisráðuneyti og fjármálaráðuneyti að mikill hallarekstur er á stofnuninni, ekki bara á þessu ári heldur líka á síðasta ári. Stofnuninni er ætlað að fara út í starfsemi næsta árs með um 200 millj. kr. fjárþörf umfram það sem fram kemur í fjárlögum. Í dag er rekstrarhalli þessa árs og síðasta orðinn um 200 millj. kr. Þessari stofnun er ætlað að standa undir óbreyttum rekstri og meira en það. Henni er ætlað að taka við þeirri fjölgun íbúa sem er að verða á svæðinu og fjölgun ferðamanna og starfsmanna sem ekki hafa lögheimili á staðnum. Þrátt fyrir að orðið hafi 20–25% aukning á starfsemi stofnunarinnar frá 2003, þá er ég að tala um komur og innlagnir, og þótt fyrirsjáanlegt sé að stöðug aukning verði á allra næstu árum er stofnuninni ætlað að fara inn í næsta ár með þennan rekstrarhalla. Ég veit ekki hvernig hún á að gera það öðruvísi en að loka einhverri deild eða deildum eða hætta einhverri starfsemi. Dýrasta sparnaðaraðgerðin er lokun deilda þannig að þó að deildum yrði lokað yrði það líka dýrt. Ég sé ekki annað en að það þróunarstarf sem hefur verið í gangi muni líða, forvarnir muni líða og raunar sé verið að setja þessa stofnun ásamt öðrum heilbrigðisstofnunum og ríkisstofnunum í óviðráðanlega stöðu. Á þessu eiga svo forstöðumennirnir að bera ábyrgð. Hvaða ráðherra mundi vilja vera í þeirra sporum? Ég trúi enginn. Það er óásættanlegt að ætlast til að stofnanir séu reknar með þessum hætti.

Hæstv. forseti. Ég nefndi áðan að mikil þörf væri á að fjölga hjúkrunarrýmum en þar sem hjúkrunarrými eru, eins og nafnið bendir til, fyrir þá fullorðnu einstaklinga sem þurfa hjúkrun umfram það sem hægt er að veita á dvalarheimilum þá er það sérkafli. Dvalarheimilin, eins og þau hafa verið rekin, eru að mestu leyti að verða barn síns tíma. Mjög margir einstaklingar leita til hjúkrunarheimilanna, ekki endilega af heilsufarsástæðum heldur vegna þess að félagslegt og fjárhagslegt öryggi skortir. Báða þessa þætti er hægt að veita þó að fólk búi í heimahúsi eða út af fyrir sig eða eins og það sjálft óskar. En til þess þarf að stórefla heimaþjónustuna, bæði heimahjúkrunina sem heilsugæslan veitir og heimaþjónustu sveitarfélaganna. Eins og staðan er núna er hvorugur þessara opinberu þjónustuþátta í stakk búinn til að veita þessa þjónustu. Heilsugæslan er spennt til hins ýtrasta. Þangað vantar fleiri starfsmenn og fleiri starfsstéttir. Inn í félagsþjónustu sveitarfélaganna vantar fyrst og fremst fjármagn. Það vantar líka að geta ráðið fleira fólk á hærri launum svo að heimaþjónustan verði eftirsóknarverð og hægt verði að veita þá heimaþjónustu sem stendur undir nafni. Þannig er í raun og veru verið að færa til fjármagn frá dvalarheimilum og heilbrigðisþjónustu yfir í heimaþjónustu. En þetta kostar skipulagsbreytingar, þetta kostar hugarfarsbreytingar og þetta kostar vilja til að styrkja sveitarfélögin svo að þau geti staðið undir þeirri þjónustu sem þau vilja efla en hafa ekki bolmagn til.

Hæstv. forseti. Það er eitt sem ég vildi nefna að lokum sem í raun og veru er gerður hlutur. Reyndar er ég með margt sem sem væri gaman að nefna en í pappírunum mínum var eitt erindið nærri því orðið eftir, hæstv. forseti. Það hefði ekki verið gott. Ég ætla að nefna eina breytingartillögu til viðbótar sem ég er 1. flutningsmaður að en meðflutningsmenn eru hv. þm. Guðmundur Magnússon, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Breytingartillagan er á þskj. 487. Þar leggjum við til að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fái 30 millj. kr. til sólarhringsvakta og 25 millj. kr. til innréttingar nýrrar álmu.

Málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja voru töluvert í umræðunni í vor og síðan aftur í haust. Þessi stofnun getur sinnt miklu fleiri sjúklingum en hún gerir í dag með því að hafa sólarhringsvaktir skurðstofusvæfingarlæknis. Eins er mikil þörf á að stækka húsnæðið til að geta uppfyllt þau skilyrði sem aukin þjónusta kallar á. Með því að efla Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mundi létta mikið á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og færri sjúklingar þyrftu að fara á milli. Það er nefnilega ekki svo að sjúklingarnir gufi upp, þeir eru til staðar og veikindi eða fæðingar eiga sér stað í raunveruleikanum, og ef þessum einstaklingum er ekki sinnt á Suðurnesjum fara þeir til Reykjavíkur, flestir hverjir, og leggjast þá inn á Landspítala – háskólasjúkrahús eða á þau sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu sem í dag eru undir allt of miklu álagi.

Hæstv. forseti. Það sem ég nefndi áðan og kallaði gerðan hlut er sala húsnæðis Heilsuverndarstöðvarinnar sem nú er orðin staðreynd. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég trúði því aldrei fyrr en gjörningurinn var yfirstaðinn að hann yrði látinn ganga til enda. Allan tímann sem ég vissi að það kæmi til greina að selja Heilsuverndarstöðina taldi ég að það yrði þá gert til að fá verðmiða á húsnæðið, það væri erfitt að verðleggja það. Það er ekkert launungarmál að ágreiningur hefur verið á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um afnot af húsinu og leigu og hvernig ætti að verðleggja sjálft húsið og eignarhlutann. Reykjavíkurborg átti 60% í húsnæðinu og vildi selja sinn eignarhluta ríkinu sem hefur notað húsnæðið fyrir heilsugæslustarfsemi sína og fleira — Lýðheilsustöðin hefur verið þar líka — en ríkið var ekki tilbúið til að kaupa. Ég trúði því, hæstv. forseti, að það væri verið að leita eftir þessum verðmiða. Svo var þó ekki, heldur var húsnæðið selt.

Ég nefni þetta hér því að mér finnst þetta ákaflega heimskuleg gjörð af hálfu ráðuneytisins. Heilbrigðisráðuneytið, starfsemi ríkisins, er í húsinu. Það er sérhannað fyrir heilsuverndarþjónustu, heilbrigðisþjónustu. Hver einasti smáhlutur inni í þessu húsi er hannaður með tilliti til gegnumstreymis af sjúklingum og þjónustu sem þeir þurfa að fá. Því miður er húsnæðið ekki allt friðað í dag en það ætti að vera það. Húsið sjálft er sérhannað fyrir heilsuvernd og heilbrigðisþjónustu og nú á að fórna góðri hönnun og í raun og veru menningarverðmætum ef húsið sem heild verður ekki verndað. Og ég tel að ríkissjóður sé að gera hér mikið glappaskot því að þá starfsemi sem núna er í húsinu þarf að flytja eitthvað annað. Hvert hún flyst veit enginn en það húsnæði mun kosta eitthvað eða leigan mun kosta eitthvað og ég er ekki viss um að það verði svo mikill gróði af þessari sölu þegar upp verður staðið. Kannski blöskrar mér samt fyrst og fremst það að láta sér detta í hug að selja húsnæði sem er sérhannað fyrir heilsuvernd og heilbrigðisstarfsemi — þar sem sú starfsemi fer fram í húsinu — undir eitthvað allt annað og koma svo þessari sömu heilsugæslustarfsemi fyrir í einhverju húsi sem alls ekki er þá hannað eða að öllum líkindum verður ekki hannað fyrir þá starfsemi. Það verður a.m.k. aldrei jafnsérhannað fyrir slíka starfsemi og þetta hús er. Mér finnst þetta vitlaust, fjárhagslega óskynsamlegt, menningarlega, rekstrarlega og hvernig sem á það er litið. Þetta er hugsanlega dæmi um ýmis þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð í húsnæði opinberra stofnana.