132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:34]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni málefni Íbúðalánasjóðs en í fjárlögum er gert ráð fyrir því að ríkissjóður veiti ábyrgðir upp á 81 milljarð í þessum fjárlögum. Það sem mér hefur hins vegar þótt á skorta í þessari umræðu hefur fyrst og fremst verið það að nýverið gaf ríkisendurskoðandi út skýrslu um sjóðinn og þar kemur fram talsverð gagnrýni á starfsemi hans. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég er einn þeirra sem vilja veg sjóðsins sem mestan. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af þeirri gagnrýni sem þar kemur fram og einnig því umhverfi sem sjóðurinn er í. Og eins kemur fram í skýrslunni sú áhættustýringarstefna sem tekin var upp en láðist, eins og það er orðað í skýrslunni, að tilkynna Ríkisábyrgðasjóði annars vegar og Fjármálaeftirlitinu hins vegar, sem þó er löglegur umsagnaraðili um málið. Því langaði mig að beina því til hæstv. fjármálaráðherra — því að ég veit og hef fengið það staðfest að Ríkisábyrgðasjóður hefur tekið saman samantekt um stöðu sjóðsins og væntanlega einhvers konar mat á því hvernig staða ríkisábyrgða er sem eru í dag upp á 500 milljarða — að ég held að það sé afar mikilvægt áður en Alþingi afgreiðir ríkisábyrgðir upp á 81 milljarð til viðbótar að það liggi fyrir mjög skýrt fyrir þingheimi hvernig staðan er og hvernig þessi áhætta er metin þannig að hið háa Alþingi geti tekið upplýsta ákvörðun áður en það ákveður að samþykkja svo gríðarlega háar ábyrgðir.