132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hv. þingmaður ber hag Íbúðalánasjóðs fyrir brjósti. Ég geri það líka.

Það hefur verið heilmikið umræða um Íbúðalánasjóð að undanförnu og út af fyrir sig eðlilegt miðað við hvernig málin hafa þróast á íbúðalánamarkaðnum. Það kemur ýmislegt fram í úttekt Ríkisendurskoðunar. Sú úttekt snýr þó aðallega að stjórnsýsluþættinum en ekki að fjárhagslegri stöðu sjóðsins. Eins og staðan er í dag hef ég engar slíkar upplýsingar undir höndum að einhverra breytinga sé að vænta á afstöðu minni gagnvart sjóðnum.

Hv. þingmaður minntist á samantekt Lánasýslunnar. Vegna fyrirspurnar frá hv. þingmanni grennslaðist ég fyrir um hana. Það mál stendur þannig að þeirri samantekt er ekki lokið en mun væntanlega ljúka á næstu dögum og berst okkur þá til athugunar. En það er auðvitað ekki svo að Alþingi sem slíkt sé með þessari ákvörðun að taka endanlega ákvörðun um ábyrgðina heldur er verið að veita fjármálaráðherra heimild til að veita ábyrgðirnar og við þá ákvörðunartöku hefur ráðherra að sjálfsögðu Ríkisábyrgðasjóð og Lánasýsluna sér til ráðuneytis til að vega og meta hvort eðlilega og rétt sé að málum staðið og ég á ekki von á öðru en að svo sé.