132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:38]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að ég og hæstv. ráðherra deilum ekki sömu skoðun eða sömu sýn á framtíð Íbúðalánasjóðs. Ég tel afar mikilvægt að hann starfi áfram og þar af leiðandi er mjög mikilvægt að starfsemi hans sé þannig úr garði gerð að við getum treyst því að þar sé allt með þeim hætti sem vera ber. Það er lykilatriði. Þessi stofnun nýtur ríkisábyrgðar og í þeirri ábyrgð felst lánshæfismat hennar.

Það vakti athygli mína áðan í ræðu hæstv. ráðherra þegar hann sagði að samantekt frá Ríkisábyrgðasjóði væri í vinnslu, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, og mundi klárast á næstu dögum. Nú hef ég fengið það staðfest frá Ríkisábyrgðasjóði að þessi samantekt hafi verið kláruð í síðustu viku og send fjármálaráðuneytinu. Það er því ljóst, miðað við þá staðfestingu sem ég hef, að það samræmist ekki alveg orðum hæstv. ráðherra í pontunni (Forseti hringir.) og mér þætti gott ef hægt væri að fá einhverja skýringu á því.