132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:40]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að hann lýsti því yfir að ekki yrði af lagabreytingum sem boðaðar voru í texta í upphaflegu frumvarpi til fjárlaga og ætlaðar voru til að skerða vaxtabætur vegna húsnæðiskaupa. Ég áttaði mig hins vegar ekki alveg á því í ræðu hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann fékk það út að ekki þyrfti að gera ráð fyrir auknum fjármunum vegna þessarar breytingar þar sem það kom skýrt fram þegar hæstv. fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið að í 1.000 millj. kr. sem átti að vera lækkun af hálfu ríkisstjórnarinnar til sérstakra aðgerða á gjaldahlið voru vaxtabætur og gert ráð fyrir að þar yrði sparnaður 250 millj. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hæstv. ráðherra fær það út að hér þurfi ekki að gera neinar breytingar (Forseti hringir.) ef draga á skerðinguna til baka og þætti vænt um fá skýringu á því.