132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:44]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann og ríkisstjórnin ætli að hunsa óskir nánast allra almannasamtaka í landinu um fjárframlag til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Í öðru lagi vil ég minna á að lokið er kjarasamningum við nær öll verkalýðssamtök í landinu. Samningar hafa hins vegar staðið yfir við Landssamband eldri borgara mánuðum og missirum saman. Stendur til að ljúka árinu og loka fjárlögum án þess að gengið verði til samninga við þau samtök?

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra: Stendur virkilega til að hunsa óskir hjúkrunarheimila og dvalarheimila aldraðra sem hafa lýst því yfir í þjóðfélaginu og gagnvart fjárlaganefnd Alþingis að við búum við neyðarástand, neyðarástand sem okkur öllum og allri þjóðinni er kunnugt um eftir umfjöllun í fjölmiðlum á undanförnum dögum og vikum?