132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:45]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður veit eru fjárveitingar til mannréttindamála í fjárlagafrumvarpinu. Þær eru á lið dómsmálaráðuneytisins. Það mun ráðstafa þeim fjármunum og það verður í höndum dómsmálaráðherra að ákveða hvernig þeim fjármunum verður best ráðstafað.

Varðandi hjúkrunarheimilin þá fór ég yfir það í ræðu minni áðan að yfirferð á stöðu þeirra er ekki lokið, ekki er búið að greina niðurstöðurnar sem fyrir liggja í þeim liðum sem lokið er að vinna, en við munum fara yfir það og sjá hvernig þeim málum verður best fyrir komið í framtíðinni. Varðandi aldraða stendur ekki til að gera samninga við þá um einhverja hluti sem hafa muni áhrif á afgreiðslu þessara fjárlaga eins og þau liggja núna fyrir.