132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[23:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég vil leggja orð í belg við þessa umræðu af því að svo háttaði til að ég var fjarverandi þegar 2. umr. fór fram, var í opinberum erindagerðum og átti ekki kost á að taka þátt í henni. Ég vil því koma að áherslum mínum í þessu efni við 3. umr. þó að langt sé liðið á hana.

Ég vil fyrst segja um efnahagsmálin að það er deginum ljósara að það er mikill snúningur á íslensku efnahagslífi, m.a. vegna þess að verið er að byggja upp til framtíðar. Menn hafa ráðist í miklar framkvæmdir á Austurlandi til að skapa atvinnu og afla þjóðarbúinu tekna. Menn trúa því að þær framkvæmdir standi undir sér þannig að sú starfsemi sem nýta mun raforkuna greiði kostnaðinn sem af þeim framkvæmdum hlýst, bæði virkjunum og iðjuveri og skila þjóðfélaginu ávinningi auk þess þannig að þjóðarbúið í heild og landsmenn verði betur staddir eftir framkvæmdirnar en áður.

Hitt vissu menn, að það yrði töluverð þensla og mundi reyna á hagstjórnina þau ár sem framkvæmdirnar ganga yfir. Það hefur auðvitað komið á daginn. Auk þess hefur það gerst sem menn sáu ekki fyrir og tengist miklum umsvifum fjármálamarkaðarins. Umsvif viðskiptabankanna hafa verið gríðarleg á síðasta ári, miklu meiri en menn gátu séð fyrir þegar þeir ákváðu að einbeita sér að því að ná fótfestu á íbúðalánamarkaðnum. Í raun hafa verið miklu meiri fjármagnstilflutningar í því máli en stóriðjuframkvæmdunum.

Auðvitað er ójafnvægi í hagkerfinu á meðan þetta gengur yfir, framleiðsluspenna og viðskiptahalli. En ég vil þó segja um viðskiptahallann að það af honum sem stafar af opinberum aðgerðum, eins og virkjunarframkvæmdum, eru framkvæmdir sem starfsemin sem af þeim leiðir mun síðan greiða þannig að skuldsetningin mun ekki lenda á almenningi í þeim efnum.

Í öðru lagi má segja að mikil einkaneysla og umsvif á fjármálamarkaði leiði til aukins viðskiptahalla. Aðilarnir sem þar eiga í hlut skuldbinda sig til að greiða þær skuldir, ekki ríkissjóður. Hann er ekki í ábyrgð fyrir þeim skuldum. Við hljótum að haga efnahagskerfi okkar þannig að einstaklingar og fyrirtækin beri ábyrgð á fjárfestingum sínum. Þeir hafa stofnað til skulda í þeirri trú að geta endurgreitt þær og við verðum að ganga út frá því að það gangi eftir, að einstaklingarnir hafi reiknað dæmið rétt og fjármálafyrirtæki, sem hafa lánað þeim peninga, hafi gengið úr skugga um að þetta væru trúverðugar fjárfestingar fyrir þá. Ég held því að menn megi ekki mála myndina mjög svörtum litum þó að viðskiptahallinn sé mikill. Menn verða að skoða baksviðið sem virðist þannig að tiltölulega traustar forsendur séu fyrir skuldsetningunni.

Á hinn bóginn er engin ástæða til að draga fjöður yfir það að menn verða að fara gætilega til lengri tíma. Menn þurfa tíma til að ljúka framkvæmdum og draga úr þenslu í hagkerfinu og mega ekki skipuleggja svo hratt fram í tímann að enginn slaki myndist á næstu tíu árum eða svo. Ég held að menn verði að hafa hóf á frekari áformum um framkvæmdir. Ég tel ekki skynsamlegt að gera ráð fyrir miklum framkvæmdum í nýrri stóriðju á næstu árum eftir að þeim framkvæmdum lýkur sem nú standa yfir.

Ég var í gærmorgun á fundi Viðskiptaráðs Íslands og hlustaði þar á sérfræðinga greiningardeilda viðskiptabankanna. Þeir ræddu um stöðuna á þeim nótum að við værum að búa til störf í hagkerfi sem ekki vantaði störf. Það töldu þeir leiða til þess að önnur störf yrðu undir, féllu fyrir borð, á móti þeim sem stofnað er til. Við verðum að fara mjög gætilega í að standa fyrir framkvæmdum ef þær leiða ekki til þess að skapa ný störf varanlega og fjölga þeim frá því sem áður hefur verið. Það er ekki alveg víst að við eigum að fara mjög hratt í að stofna til nýrra framkvæmda, skapa mörg hundruð ný störf sem leiða af sér að nokkurn veginn jafnmörg störf falli fyrir borð eða flytjist úr landi. Þá held ég að ávinningurinn, a.m.k. í heildina, sé ekki eins mikill og menn ætluðu.

Vandinn sem menn standa frammi fyrir var samkvæmt mati sérfræðinganna sá að byggðarlög þar sem menn búa við einhæft atvinnulíf mundu eiga í erfiðleikum á næstu árum þar sem störfin sem töpuðust væru í útflutningsgreinum fyrst og fremst, í sjávarútvegi og vinnsluþættinum og þar væri ekki það fjölbreytt atvinnulíf að menn gætu búist við því að ný störf yrðu til á því atvinnusvæði. Ef menn ganga mjög langt í þessa átt munu þeir, að mati þessara sérfræðinga, búa til verulegt vandamál í ákveðnum fámennum landshlutum þar sem atvinnulíf er ekki eins fjölbreytt og á höfuðborgarsvæðinu eða stærstu atvinnusvæðum þar fyrir utan.

Ég held að menn þurfi að taka þessi varnaðarorð alvarlega og hafa þau til hliðsjónar við stefnumótun eða stefnumörkun á næstu árum. Ég hvet menn til að fara gætilega í frekari áform um stóriðjuframkvæmdir umfram þær sem þegar eru í gangi. Það þarf a.m.k. að ræða málin nánar ef áhrifin af nýjum framkvæmdum eru þau að færa til störf frá einu landsvæði til annars. Ef menn ætla sér að nýta náttúruauðlindir landsins eða þær auðlindir sem í fallvötnunum felast og skapa fleiri störf á atvinnusvæði þeirra, sem leiðir til þess að störfum fækkar annars staðar, þá þurfa menn a.m.k. að hafa gert upp við sig hvernig þeir ætla að mæta þeim vanda sem skapast og hvernig skapa eigi ný störf á landsvæðum sem tapa störfum. Ég held að menn þurfi að hafa þá mynd fyrir framan sig þegar ákvarðanir verða teknar um framhaldið í stóriðjumálum eftir árin 2007 og 2008.

Um efnahagsstjórnina vil ég auk þess segja að auðvitað er ákveðið ósamræmi í henni sem ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að beita sér fyrir að dregið verði úr. Ríkisvaldið reynir að draga úr framkvæmdum sínum á öðrum sviðum til að mæta framkvæmdum í stóriðju eða virkjunarframkvæmdum. Í því skyni var t.d. dregið úr framlögum til vegamála. Það er ekki í samræmi við þá stefnu þegar ýmis fyrirtæki ríkisins auka framkvæmdir sínar á sama tíma. Ég nefni sem dæmi Rafmagnsveitur ríkisins sem réðust í framkvæmdir við Lagarfossvirkjun, upp á milli 2–3 milljarða kr., á sama tíma og við hægjum á vegaframkvæmdum um svipaðar fjárhæðir. Mér finnst ekki skynsamlegt að leggja það á fólk sem bíður eftir samgöngubótum að þurfa að una því að þeim seinki vegna þess að rýma þurfi til fyrir stóriðjuframkvæmdum en menn noti svigrúmið til að fara í aðrar framkvæmdir eins og þarna fyrir austan eða í stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það er reyndar einn ókosturinn við að breyta því fyrirtæki í hlutafélag að ekkert er um það fyrirtæki í fjárlögunum. Við höfum engar upplýsingar um framkvæmdir eða áform þess fyrirtækis. Alþingi hefur ekkert um það að segja yfir höfuð, tekju- eða fjárfestingaráætlun þess fyrirtækis. En mér er sagt, án þess að ég hafi gengið úr skugga um það, að fjárfestingar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar séu liðlega 4 milljarðar kr. um þessar mundir.

Án þess að ég setji út á þær tvær framkvæmdir sem ég nefndi þá tel ég að í þetta vanti samræminguna af hálfu hins opinbera. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að beita sér í því að gæta þess að samræmingin sé fyrir hendi. Ég get svo sem nefnt fleiri dæmi um framkvæmdir sem settar eru í gang fyrir töluvert fé á sama tíma og hægt hefur verið á öðrum framkvæmdum. Við getum nefnt ráðstefnu- og tónlistarhús í Reykjavík. Allt þarf þetta að spila saman og mér finnst vanta á að það rími saman sem að ríkinu snýr.

Ég vil aðeins víkja að einu máli í fjárlagafrumvarpinu sérstaklega, heimildargrein 7.11, sem heimilar Rafmagnsveitum ríkisins að stofna hlutafélag um öflun og sölu raforku í samstarfi við aðra aðila á raforkumarkaði og leggja félaginu til nauðsynlegar eignir.

Ég held að menn þurfi svolítið að vita hvað þeir eru að fara í þessum efnum. Við erum annars vegar með frumvarp hér um að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag. Ef menn vilja túlka þessa heimildargrein mjög vítt þá geta þeir komist að þeirri niðurstöðu að í gegnum þessa heimildargrein væri hægt að taka nánast allar eignir út úr Rafmagnsveitum ríkisins, virkjanir, og setja inn í sjálfstætt hlutafélag. Þá stæði ekkert eftir í Rafmagnsveitum ríkisins annað en hluti af dreifikerfinu og einhverjar fjarvarmaveitur, ef Rarik á slíkt, eða hitaveitur. Það getur ekki verið meiningin með því, herra forseti, að í raun tæma stofnunina innan frá á sama tíma og verið er að leggja fyrir Alþingi óskir um að það fallist á að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Ég legg áherslu á að menn framkvæmi þessa heimildargrein í samræmi við þær útskýringar sem hafa verið gefnar, en þar hefur verið lögð áhersla á að þessi heimild væri til þess að opna fyrir stofnun félags um sölu á raforku, fyrst og fremst um sölu, þar sem fyrirtæki í eigu ríkisins gætu sameinast um að selja raforku og keppa við önnur fyrirtæki. Ég held að það geti út af fyrir sig verið skynsamleg ráðstöfun. En ég hef efasemdir um hitt, að taka allar eignir úr Rafmagnsveitum ríkisins eða Orkubúi Vestfjarða og Landsvirkjun og slá því saman í eitt hlutafélag. Ég verða að segja að það þarf þá að ræða það mál frekar áður en hægt er að líta svo á að það sé upplýst og samþykkt stefna af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég legg áherslu á að þegar það mál kemur til umræðu nýti menn auðlindir vatnsins sem mest til atvinnuuppbyggingar á þeim svæðum þar sem rafmagnið verður til, rétt eins og menn eru að gera á Austurlandi. Menn eru að nota fallvötnin þar til að skapa atvinnu á Austurlandi og styrkja byggð þar. Sama á við annars staðar á landinu t.d. um mitt Norðurland eða vestanvert Norðurland eða þá á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu eins og á Suðurlandi. Ég legg því áherslu á að menn gæti að því við skipulag og fyrirkomulag eigna ríkisins á þessu sviði að þeir búi til fyrirtæki eða hafi fyrirtæki sem standi í þeirri samkeppni sem ætlast er til að þau standi í í þessu nýja skipulagi raforkumála en þeim sé líka beitt til þess að styrkja atvinnu og byggð á þeim svæðum þar sem fyrirtækin starfa. Ekki meira um það, herra forseti.

Hér hefur dálítið verið rætt um málefni aldraðra og öryrkja og eðlilega eru þau mál í brennidepli eins og menn þekkja. Hér hafa menn minnst á skýrslu sem nýlega hefur komið fram frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, hygg ég, og ég held að menn verði að skoða þá skýrslu vandlega, fara yfir forsendur hennar og niðurstöður og taka þær alvarlega. Ég held að þetta sé vel unnin skýrsla þó að ég geti ekkert um það fullyrt hvort í henni leynist ekki einhverjar villur. Það verður þá bara að fara yfir það. En í megindráttum held ég að niðurstaðan sé trúverðug. Það er viðfangsefni stjórnvalda að vinna út frá þeim staðreyndum sem þar koma fram. Ég held að fullur vilji sé til þess af hálfu beggja stjórnarflokka að taka alvarlega ábendingar sem þar koma fram og niðurstöður. En þar er líka að finna upplýsingar sem sýna að menn hafa að mörgu leyti verið að gera vel á síðustu árum.

Það er ekkert sjálfgefið að kaupmáttur fari alltaf vaxandi. Það er ekkert sjálfgefið hvorki hjá þessum þjóðfélagshópi eða öðrum að leiðin liggi alltaf upp á við. Menn sem hafa verið lengi í pólitík vita að það hefur nú verið bæði upp og ofan í þeim efnum. Hér hefur verið minnst á árin frá 1988, eða hvað eigum við að segja, 1988–1993 sem voru að mörgu leyti erfið ár. Kaupmáttur dróst saman og það varð mikil skerðing, m.a. hjá þessum þjóðfélagshópum. Þá var við stjórnvölinn t.d. Alþýðuflokkurinn, þ.e. á síðari hluta þess tíma, og aðrir flokkar eins og Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkurinn á fyrri hlutanum. Ekki er hægt að saka þá sem voru í forustu í ríkisstjórn á þessum árum um að þeir hafi sérstaklega haft í huga að skerða kjör þessa hóps, aldraðra eða öryrkja. Ég hygg að það megi segja um þá alla að þeir reyndu að bregðast við minnkandi tekjum og minnkandi kaupmætti þannig að reynt var að hlífa þeim sem stóðum höllum fæti. En það er bara staðreynd að atvinnulífið og efnahagslífið var með þeim hætti að það varð að skerða. Þess vegna er ekkert sjálfgefið að tíu ár í röð geti komið þar sem leiðin liggur alltaf upp á við. Svo má deila um það hvort menn hafi lagt nógu mikla áherslu á að bæta kjör þessara hópa. Það má svo sem færa rök fyrir því að þeir hefðu getað staðið sig betur í þeim efnum.

Ég vil þó benda á ákveðnar athyglisverðar tölur sem koma fram í gögnum ríkisskattstjóraembættisins um tekjur á síðasta ári samkvæmt skattframtölum 2005. Þar kemur t.d. fram að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á síðasta ári hækkuðu um 9,4% frá árinu 2004, þ.e. í skattframtali 2005 sem eru tekjur ársins 2004 voru greiðslur þess árs 9,4% hærri en árið 2003. En að meðaltali hækkuðu laun um 6,4%. Hækkun greiðslna til þeirra sem fengu greiðslur frá Tryggingastofnun var því um 50% meiri en hækkun launatekna að meðaltali. Þessi hækkun greiðslna frá Tryggingastofnun verður ekki nema að litlu leyti skýrð með fjölgun þeirra sem fengu greiðslur. Þeim fjölgaði aðeins um 0,8%. Ef við deilum þessu niður á einstaklinga og berum svo saman hækkunina á milli ára þá er hún 8,4%. Þetta þýðir einfaldlega að þeir sem fengu greiðslur á árinu 2004, á síðasta ári, fengu meiri hækkun en varð að meðaltali á hækkun launatekna. Ég vildi nefna þessar tölur þannig að menn vissu af þeim og myndu eftir þeim því að það er auðvitað líka eðlilegt að minna á það sem bendir til þess að menn hafi verið að gera sæmilega í þessum efnum. Ég er ekki þar með að segja að ekki þurfi betur að gera eða að menn eigi ekki að taka alvarlega þær athugasemdir sem fram hafa komið, m.a. frá Samtökum aldraðra.

Herra forseti. Ég vil þá víkja að launadreifingu. Ég hef aðeins verið að skoða upplýsingar um það mál í framhaldi af umræðu sem verið hefur um vaxandi tekjumun eftir tekjuhópum í þjóðfélaginu og hef reynt að átta mig á því hvort svo væri raunin og ef svo væri þá hversu mikið og af hvaða ástæðum. Ég hef stuðst við gögn frá ríkisskattstjóraembættinu sem finna má á vef embættisins og borið saman upplýsingar um álagningu ársins 2005, sem eru tekjur ársins 2004 og svo álagningarárið 1994, sem eru tekjur ársins 1993. Ég hef borið þetta tvennt saman.

Þá kemur í ljós ákaflega athyglisverð mynd. Skoðum fyrst dreifinguna eða svokallaða Gini-mælingu, sem svo er stundum kölluð, þar sem athugaður er launamunur þeirra sem hafa mestu tekjurnar og þeirra sem hafa minnstu tekjurnar. Skoðum launamun hjá einstaklingum, einhleypingum á þessu árabili. Ef meðaltekjur þeirra 10% framteljendanna sem höfðu lægstar tekjur eru bornar saman við meðaltekjur þeirra 10% sem höfðu hæstu tekjurnar þá kemur í ljós að hlutfallið þarna á milli er 1 á móti 30, eða 1 á móti 29,6 árið 1994, en 1 á móti 30 á þessu ári. Það hefur því örlítið aukist en þó sáralítið ef maður skoðar þessar tölur.

Ef við skoðum þetta hlutfall hjá hjónum árið 1994 þá voru meðallaun þeirra sem voru í 10% tekjuhæsta hópnum að meðaltali árið 1994 5,8 sinnum hærri en meðaltekjur þeirra sem voru í 10% tekjulægsta. Hlutfallið var 5,8 á móti 1. Á þessu ári er hlutfallið nákvæmlega hið sama, þ.e. 5,8 á móti 1. Það bendir til þess að ekki hafi dregið í sundur, að launamunur eða tekjumunur í þjóðfélaginu hafi ekki vaxið hjá þessum hópi sem í eru hjón og samskattaðir.

Ég skoðaði reyndar líka muninn með því að sleppa tekjulægsta hópnum, einstaklingum, því að í honum er fólk sem hefur ekki tekjur. Það geta verið unglingar og heimavinnandi og annað slíkt fólk. Til þess að hafa frekari samanburð á milli þeirra sem hafa tekjur þá bar ég saman þá 10% tekjuhæstu og þá sem voru á bilinu 15–25% tekjulægstu. Ég sleppti sem sé 15% tekjulægsta hópnum. Þá varð hlutfallið 6,5 á móti 1 hjá einhleypingum árið 1994 en var komið upp í 7,2 á móti 1 árið 2005. Það hafði vaxið þarna um 0,7% eða um 1/10. Tekjubilið hjá hjónum var hjá þessum hópi 3,6 á móti 1 árið 1994 en 3,5 á móti 1 árið 2005. Það hafði minnkað lítillega. Þó að þetta sé nú ekki altæk vísindaleg úttekt á þessum hlutföllum eru þetta samt það eindregnar vísbendingar að ekki er líklegt að fullyrða megi að tekjumunur hafi vaxið.

Ég skoðaði þetta reyndar líka út frá öðrum tölum eða öðrum mælingum og í raun kom það mjög svipað út því 5% tekjuhæsti hópurinn hafði 13,7% af laununum árið 1994. En hann hafði 13,0% af laununum á þessu ári. Hlutur tekjuhæsta hópsins í heildarlaunagreiðslum þjóðfélagsins hafði því minnkað úr 13,7% í 13,0%.

Ef ég tek 10% tekjuhæsta hópinn þá hafði sá hópur 23,1% af tekjunum árið 1994 en 22,7% á þessu ári. Hlutur þessa 10% tekjuhæsta hóps hafði því líka minnkað.

Ef maður tekur 20% tekjuhæsta hópinn hafði sá hópur 38,5% af laununum fyrir 11 árum en 38,6% á þessu ári þannig að hann hefur í raun og veru það sama.

Ef við skoðum hinn endann á málinu, þeirra sem hafa lægstu tekjurnar, hafði 10% tekjulægsti hópurinn 2,7% af laununum árið 1994 en hefur núna 2,5% af laununum þannig að hlutur hans hefur minnkað um 0,2 prósentustig. 20% tekjulægsti hópurinn hafði 7,1% en hefur núna 6,7%. Það er því ekki að sjá, ef maður skoðar þetta á þennan veginn, að þarna sé um að ræða gliðnun í tekjudreifingunni þegar maður skoðar launatekjur. Allar þessar tölur miðast bara við launatekjur.

Ef maður skoðar svo aftur fjármagnstekjurnar er önnur mynd uppi. Fjármagnstekjur hafa vaxið gríðarlega á þessu tímabili, þær hafa vaxið úr því að vera 6,2 milljarðar upp í 74,6 milljarða þannig að fjármagnstekjur af launagreiðslum og fjármagnstekjum samanlögðum voru 2,6% af heildinni en eru komnar upp í nærri 12% af heildinni. Dreifingin á fjármagnstekjunum er með allt öðrum hætti en dreifingin á launatekjunum.

Eins og ég gat um áðan hafði t.d. 5% tekjuhæsti hópurinn 13% af laununum, en 5% tekjuhæsti hópurinn hefur 69% af fjármagnstekjunum, þ.e. 51,7 milljarða kr. í sinn hlut, og hefur aukið hann úr 42% frá 1994. Í stað þess að hafa 42% af fjármagnstekjunum í þessum 5% tekjuhæsta hópi eru þar 69% af fjármagnstekjunum. Þetta er aukning um 27%, um 20 milljarða kr., sem dreifist á 13–14 þús. einstaklinga í þessum hópi.

Ef maður leggur svo saman fjármagnstekjudreifinguna og launadreifinguna kemur í ljós að hlutur tekjuhæsta hópsins vex en það er eingöngu vegna þess að fjármagnstekjurnar hafa vaxið svona mikið og þær dreifast allt öðruvísi en launatekjur. Menn þurfa að bregðast við þessu, í fyrsta lagi vegna þess að stærri hlutur teknanna er þá í formi fjármagnstekna og skattyfirvöld verða að bregðast við því. Sveitarfélögin fá ekkert af fjármagnstekjunum sem þau fá af launatekjum þannig að þegar vöxturinn í tekjunum kemur fram í fjármagninu nýtur ríkið góðs af því en sveitarfélögin fá minna. Ég held að menn þurfi að taka upp skiptingu á skatttekjunum á milli ríkis og sveitarfélaga í þessu efni.

Ég held líka í öðru lagi að menn þurfi að minnka muninn á skattlagningu fjármagnstekna annars vegar og launatekna hins vegar. Fjármagnstekjur eru skattlagðar með 10% skatti en launatekjur að meðaltali með 25%. Ég tók eftir því að Viðskiptaráð Íslands lagði til 15% skatt á fjármagnstekjur. Það var að vísu með tillögu um 15% skatt á allar tekjur, launatekjur og fjármagnstekjur, en þá hlýtur það að trúa því að fjármagnið þoli 15% skattlagningu. Ég held að menn eigi að skoða það að hækka fjármagnstekjuskattinn. Þessu vildi ég nú koma að, herra forseti, varðandi dreifingu á tekjunum, hvernig þær hafa breyst hvað varðar fjármagnið og þeim sjónarmiðum mínum að ég telji ástæðu til að bregðast við með því að breyta skattlagningunni á fjármagnstekjunum og skiptingu þeirrar skattlagningar á milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég vil svo, virðulegi forseti, víkja að Íbúðalánasjóði sem hefur verið dálítið í umræðunni við fjárlagaumræðuna og reyndar utan þingsins síðustu daga.

Ég vil fyrst víkja að ummælum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem féllu 4. desember á NFS, Nýju fréttastofunni. Þar var verið að fjalla um skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem gerð var að beiðni félagsmálanefndar Alþingis vegna lánasamninga sem Íbúðalánasjóður gerði við fjármálastofnanir vegna áhættustýringar á þeim peningum sem sjóðurinn sat uppi með vegna uppgreiðslna á íbúðalánum. Í þessu viðtali kemur fram það álit þingmannsins að skýrsla Ríkisendurskoðunar leiði það í ljós að skipurit og skipulag Íbúðalánasjóðs sé að mörgu leyti í molum og að innra eftirlit sé afleitt. Enn fremur kemur fram hjá hv. þingmanni að það sé fráleitt að samþykkja ábyrgð ríkisins á þeim útlánum sem áætluð eru á næsta ári og koma fram í frumvarpi til fjárlaga, um 80 milljarðar kr., vegna þess að, eins og þingmaðurinn orðar það, þessar fjárhæðir séu jafnvel úti í vindinum. Þetta eru býsna hörð ummæli um sjóðinn og er það ekki til þess fallið að auka tiltrú almennings eða fjármálastofnana á sjóðnum þegar menn láta svona ummæli falla og bæta svo við fréttum um meintar skoðanir sem fram hafa komið hjá opinberum aðilum um að e.t.v. sé ekki ríkisábyrgð á lánunum. Ég held að við verðum aðeins að fara yfir þetta mál, herra forseti, til að taka af öll tvímæli í þessu efni.

Í fyrsta lagi varðandi skýrslu Ríkisendurskoðunar og hvað hún leiðir í ljós, ég fæ ekki séð þegar maður les skýrsluna að hún lúti neitt að skipuriti og skipulagi sjóðsins eða segi neitt um að það sé í molum. Ég held að þetta sé fullyrðing sem enginn fótur sé fyrir. Það mætti draga saman niðurstöðu Ríkisendurskoðunar með því að vitna í bréf stofnunarinnar til félagsmálanefndar Alþingis sem er dagsett 28. nóvember árið 2005. Í þessu bréfi segir m.a. að orsökina fyrir þeim vanda sem Íbúðalánasjóður hafi átt við að glíma í formi mikils innstreymis fjár megi rekja til óvæntrar samkeppni á húsnæðislánamarkaði sem sjóðurinn gat ekki séð fyrir. Það er því dregið fram af hálfu Ríkisendurskoðunar að þetta voru óvænt atvik sem menn gátu ekki séð fyrir.

Í öðru lagi lá vandinn hjá skiptiútboði vegna þess að það var verið að skipta úr húsbréfakerfi yfir í peningaútlánakerfi. Það þurfti að innkalla húsbréfin til að geta gefið út peningabréfin og það var ákveðið skiptiálag þarna á milli. Um það segir Ríkisendurskoðun að það hafi riðið á miklu að ákvarða skiptiálagið þannig að tryggt væri, með leyfi forseta, „að hættunni á tjóni vegna óhóflegra uppgreiðslna yrði ekki boðið heim. Að mati Ríkisendurskoðunar er ekki hægt að gagnrýna Íbúðalánasjóð fyrir ákvörðun skiptiálagsins“. — Ríkisendurskoðun kveður því upp úr með það að sá þáttur málsins hafi verið þannig að ekki sé hægt að gagnrýna sjóðinn fyrir hann.

Íbúðalánasjóður er gagnrýndur fyrir að hafa ekki sinnt þeirri lagaskyldu að leita umsagnar Fjármálaeftirlitsins um breytingu á áhættustýringarstefnu sinni fyrr en hálfu ári eftir að þessum breytingum var hrint í framkvæmd. Það er út af fyrir sig óumdeilt, Íbúðalánasjóður hefur viðurkennt að þetta hafi verið yfirsjón.

Í bréfi Ríkisendurskoðunar segir um þær aðgerðir sem sjóðurinn greip til vegna þessa ástands, vegna þessara uppgreiðslna sem voru í fimm liðum, með leyfi forseta:

„Ágreiningslaust er að fjórar fyrsttöldu aðgerðirnar, sem sjóðurinn greip til, flokkast undir hefðbundna áhættu- og fjárstýringu, sem er í fullkomnu samræmi við bæði lögin um stofnunina og áhættustýringarstefnuna, sem hún hefur sett sér.“

Það er því enginn efi um að þessi fjögur fyrstu atriði sem nefnd eru eru ágreiningslaus, þau voru eðlileg. Varðandi fimmta atriðið sem var það umdeilda atriði að Íbúðalánasjóður hafi gert lánasamninga við banka og sparisjóði segir í bréfi Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Ef litið er fram hjá efasemdum um lagagrunn þann, sem lánasamningarnir við fjármálafyrirtækin hvíla á, verður að mati Ríkisendurskoðunar ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að Íbúðalánasjóði hafi með framangreindum aðgerðum tekist að forða sjóðnum frá yfirvofandi tjóni í formi neikvæðs vaxtamunar … Aðgerðirnar sem slíkar sýnast því hafa tryggt fjárhagslega hagsmuni sjóðsins með nokkuð viðunandi hætti.“

Það er ekki hægt að gagnrýna sjóðinn fyrir það hafa gripið til aðgerða sem afstýrðu því að hann yrði fyrir tjóni. Enn fremur segir í bréfi Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið telur eftir að hafa skoðað lagagrundvöll samninganna gaumgæfilega að enginn vafi leiki á því að samningarnir séu í samræmi við lög.“

Það er sem sé mat Fjármálaeftirlitsins, sem fer með eftirlitið gagnvart stofnuninni, að enginn vafi sé á lagagrundvellinum fyrir þessum samningum. Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Verði því ekki séð að Íbúðalánasjóði hafi verið óheimilt að gera umrædda lánasamninga sem lið í áhættustýringu sinni. Þá telur Fjármálaeftirlitið ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að halda áfram útgáfu íbúðabréfa óháð þróun uppgreiðslna ekki fara í bága við lagaheimildir sjóðsins.“

Loks segir í bréfi Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Þó svo að ýmsir efist um lögmæti umræddra áhættustýringaraðgerða Íbúðalánasjóðs og útboða hans á íbúðabréfum verður ekki fram hjá því litið að sú niðurstaða Fjármálaeftirlitsins er afdráttarlaus að lagaskilyrði eru fyrir umræddum aðgerðum. Ríkisendurskoðun gerir í sjálfu sér ekki sérstakar athugasemdir við þessa meginniðurstöðu Fjármálaeftirlitsins“ þannig að það er ekki bara að Fjármálaeftirlitið stimpli þetta, heldur gerir Ríkisendurskoðun það líka.

Þetta er niðurstaða skýrslunnar, virðulegi forseti. Um það var hún, þessi varð niðurstaðan og það verður ekki séð að hægt sé að viðhafa ummæli af því tagi sem féllu í viðtalinu við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, að skipurit og skipulag sjóðsins sé að mörgu leyti í molum, að innra eftirlit sé afleitt og að ekki sé hægt að samþykkja ábyrgðir eða heimild Íbúðalánasjóðs til að gefa út bréf á næsta ári fyrir 80 milljarða kr. Í raun og veru er þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar hið gagnstæða, hún sýnir að sjóðurinn stendur á traustum grunni, hann nýtur öruggrar stjórnar og þeir sem þar stjórna hafa fundið leið út úr óvæntri, erfiðri stöðu á þann veg að hagsmunum sjóðsins og þar með ríkisins var fullkomlega borgið.

Virðulegi forseti. Hér hafa menn verið með ummæli um Ríkisábyrgðasjóð, fjármálaráðuneytið og meint bréfaskipti þar á milli. Fyrr í umræðunni voru menn að spyrja um það. Lögum samkvæmt eru málin alveg skýr. Eftirlit með Íbúðalánasjóði hafa Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun, sem eru samkvæmt lögum eftirlitsaðilar Íbúðalánasjóðs. Ríkisábyrgðasjóður hefur engu hlutverki að gegna í þeim efnum. Hann sinnir ekki eftirliti með Íbúðalánasjóði, né fjármálaráðuneytið, þannig að það sé á hreinu og enginn misskilningur um lögin í landinu. Aðilarnir sem hafa eftirlit með Íbúðalánasjóði eru Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið og ég vitnaði einmitt til þeirra í skýrslunni sem ég las upp úr áðan.

Hins vegar fá Lánasýsla ríkisins og Ríkisábyrgðasjóður skýrslur í hendur, upplýsingar sem sendar eru til Fjármálaeftirlitsins og Ríkisendurskoðunar. Þannig er öllum aðilum haldið upplýstum og þeir fá þær upplýsingar aðrar sem þeir kunna að óska eftir. Ég bendi að auki á að Íbúðalánasjóður hefur sótt sér ráðgjöf til að treysta áhættustýringuna, sem er auðvitað aðalmálið í svo stórum sjóði. Hann hefur fengið til þessa verks sænskt fyrirtæki sem heitir Capto. Það þjónar t.d. mörgum sænskum stórfyrirtækjum.

Ég held að menn geti ekki staðið betur að verki en Íbúðalánasjóður hefur gert. Einnig má segja að félagsmálaráðherra hafi ákveðið eftirlit með Íbúðalánasjóði. Hann skipar stjórn sjóðsins og sjóðurinn verður að senda ráðherranum og Fjármálaeftirlitinu skýrslur um framvindu áhættustýringarstefnunnar á þriggja mánaða fresti með helstu lykilkennitölum úr rekstri sjóðsins, samanber reglugerð sem kveður á um það og fjallar um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs. Þessar skýrslur á líka að senda, eins og ég sagði áðan, Ríkisábyrgðasjóði og reyndar fjármálaráðherra. Ég held að erfitt sé að halda því fram að eitthvað skorti upp á eftirlit og ráðgjöf og upplýsingastreymi hjá þeirri ágætu stofnun. Ég get t.d. nefnt að búið er að senda skýrslu vegna fyrstu níu mánaða þessa árs. Hún er hjá Fjármálaeftirlitinu, menn hafa farið yfir hana þar og engar athugasemdir komið fram.

Ég vildi koma þessu á framfæri, virðulegi forseti, þannig að menn vissu að vel er staðið að málum, bæði hjá Íbúðalánasjóði og þeim opinberu aðilum sem eiga að fylgjast með honum. Á því leikur enginn vafi. Menn geti treyst því að sjóðurinn stendur vel og að fyllsta öryggis er gætt í þeirri áhættustýringarstefnu sem sjóðurinn hefur markað sér. Það kemur m.a. fram í því að lánshæfi sjóðsins er metið mjög hátt, metið það sama og íslenska ríkið er metið á, sem er betra en íslensku viðskiptabankarnir búa við. Þetta held ég að ég láti duga um stöðu Íbúðalánasjóðs og vil þar með víkja að öðru sem snertir sjóðinn.

Formaður bankastjórnar Seðlabankans flutti í gærmorgun ræðu á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands. Þar fjallaði bankastjórinn um húsnæðislánakerfið og lét þau ummæli falla að hann teldi að það hefði orðið úrelt á augabragði þegar bankarnir hófu samkeppni sína á síðasta ári. Bankastjórinn sagði enn fremur, með leyfi forseta:

„... samkeppnisstaða á húsnæðismarkaði gengur ekki upp, þegar einn aðili nýtur lánstrausts ríkissjóðs, greiðir ekki ábyrgðargjald og er undanþeginn ýmsum gjöldum sem samkeppnisaðilar hans bera. Það er laukrétt að þetta vissu lánastofnanir fyrir, þegar þær opnuðu upp á gátt. En það er, sem fyrr sagði, orðið aukaatriði nú og verkefnið hlýtur að vera að koma þessari skipan í eðlilegt horf sem allra fyrst.“

Virðulegi forseti. Mér finnst eðlilegt að stjórnmálamaður hafi þessa skoðun, ráðherra eða forsætisráðherra. En ég lýsi undrun minni á því að bankastjóri Seðlabankans skuli viðra slíkar skoðanir. Ég stend í þeirri meiningu að það sé ekki hlutverk Seðlabankans að senda stjórnmálamönnum tóninn um hvað þeir eigi að gera og hvernig þeir eigi að hafa íbúðalánakerfi sem á að þjóna landsmönnum. Ég er algerlega ósammála bankastjóranum um að núverandi kerfi sé úrelt og ósammála honum um að núverandi skipan sé óeðlileg. Ég tel að núverandi kerfi sé eðlilegt og það besta sem menn geta boðið íslenskum almenningi.

Ég vil ítreka, virðulegi forseti, að ég held að bankastjórar Seðlabankans eigi ekki að blanda sér í stefnumörkun af þessu tagi. Eða má búast við því að hann fari að gefa út línurnar um hvað hann telji eðlilegt að gera varðandi aðra þætti viðskiptalífsins, eins og samkeppnislöggjöf? Mun Seðlabankinn gefa Alþingi línu um hvernig samkeppnislöggjöfin eigi að vera til að ástandið verði með þeim hætti sem bankinn telur eðlilegt? Ég held, virðulegi forseti, að menn eigi ekki að blanda Seðlabankanum í þessi verkefni og hvet bankastjóra Seðlabankans til að láta stjórnmálamönnum eftir að ráða fram úr því verkefni að ákveða hvaða stefnu við höfum varðandi lánveitingar til húsnæðismála.

Mig langar að lokum, virðulegi forseti, að fara aðeins yfir núverandi kerfi og bera saman við það sem menn kunna að vilja taka upp. Á haustdögum fyrir þremur árum, september 2002, hélt Landsbankinn mikla ráðstefnu. Þar var þáverandi forsætisráðherra gestur og setti fram sjónarmið sín varðandi þau mál sem ég hef gert að umræðuefni. Hann reifað þau sjónarmið sín að eðlilegt væri að fela bankakerfinu rekstur slíkra sjóða en ríkið héldi áfram að tryggja með niðurgreiðslum eða beinum styrkjum hin félagslegu markmið sem sjóðunum væri ætlað að ná. Morgunblaðið tók þetta upp í leiðara daginn eftir. Þar sagði m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Íbúðalánasjóður er sá sjóður á vegum ríkisins, sem nærtækast virðist að færa til bankakerfisins. Morgunblaðið hefur árum saman haldið því fram að engin ástæða væri til að hafa sérstakan opinberan íbúðalánasjóð með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur af rekstri hans.“

Enn fremur segir í sama leiðara:

„Opinberir aðilar geta falið einkaaðilum að sinna ýmiss konar þjónustu, sem áfram er greidd af hinu opinbera, t.d. samkvæmt þjónustusamningum. Kosturinn við slíkt fyrirkomulag er að frumkvæði og hugmyndaauðgi einkaframtaksins er virkjuð, samkeppni er komið á og þar með stuðlað að bættri þjónustu við almenning og lægri kostnaði fyrir skattgreiðendur.“

Nú held ég að ástæða sé til að staldra við og velta fyrir sér hvað gerðist ef við legðum af þetta kerfi eins og Morgunblaðið leggur til, kerfið sem við höfum í dag, og létum bankana um þetta. Mun það gerast sem þar stendur, að þjónusta muni batna og kostnaður skattgreiðenda muni lækka? Mun það gerast? Er líklegt að það muni gerast? Þá skulum við í fyrsta lagi skoða hver kostnaður skattgreiðenda er af núverandi kerfi. Í fyrsta lagi er aðalkostnaðurinn fólginn í vaxtabótakerfinu og því að ríkissjóður niðurgreiðir vexti til leiguíbúða. Ég reikna með því að það sé ekki pólitískur ásetningur að breyta því kerfi. Menn setja um 5 milljarða kr. eða eitthvað slíkt í vaxtabætur og þótt einn ráðherra hafi fyrr á þessu ári — hann var reyndar ekki ráðherra þá — viðrað hugmyndir um að leggja niður vaxtabótakerfið þá geri ég ekki ráð fyrir að þær hugmyndir séu það útbreiddar að það sé stefna ríkisstjórnarinnar eða annars hvors stjórnarflokksins. Ég geng út frá því að pólitísk samstaða sé um að hafa það kerfi áfram, hvort sem menn reka Íbúðalánasjóð eða ekki. Sá þáttur breyttist því ekki við þá breytingu.

Bera skattgreiðendur kostnað af rekstri Íbúðalánasjóðs? Svarið er nei. Viðskiptavinir sjóðsins greiða kostnaðinn af rekstrinum. Ríkið greiðir ekki neitt. Reyndar hafa viðskiptavinir sjóðsins byggt upp eigið fé sjóðsins á þeim árum sem hann hefur starfað þannig að það er núna bókfært, ef ég man rétt, um 13 milljarðar kr. Að auki eru milli 3 og 4 milljarðar í afskriftasjóði þannig að Íbúðalánasjóður hefur getu upp á 16–17 milljarða kr. Ríkissjóður hefur ekkert lagt fram og ekki borið neinn kostnað af þessu.

Þá má spyrja: Ber skattgreiðandinn kostnað af því að Íbúðalánasjóður nýtur ríkisábyrgðar? Ef maður skoðar það mál er svarið í raun nei. Skattgreiðandinn borgar ekkert vegna þess. Lánshæfi ríkissjóðs er ekki minna þótt Íbúðalánasjóður sé til staðar þar sem enginn kostnaður hefur fallið á ríkið út af ríkisábyrgðinni. Þvert á móti hefur ríkisábyrgðin leitt til þess að sjóðurinn getur aflað sér fjár á lægri vöxtum en ella væri og menn njóta þess.

Loks vil ég nefna eitt atriði sem gæti komið til álita þegar menn skoða kostnað skattgreiðenda af Íbúðalánasjóði. Það er áhættan. Er mikil áhætta af rekstri sjóðsins, sem hugsanlega gæti leitt til þess að sjóðurinn eigi ekki fyrir skuldbindingum og ríkið verði að leggja honum til fé? Það er sáralítil hætta á því eins og sést best af því hvernig sjóðurinn hefur byggt upp eigið fé á fáeinum árum. Útlánatap sjóðsins á árabilinu 1999–2003 er ekki nema 0,05%. Útlánatapið á síðasta ári var enn minna eða 0,015%.

Ef ég dreg öll þau atriði saman sem komið gæti til álita að gerðu það að verkum að skattgreiðandinn bæri kostnað af rekstri sjóðsins þá er niðurstaðan sú að skattgreiðandinn ber engan kostnað af rekstri sjóðsins. Þar af leiðandi verður enginn sparnaður við að leggja sjóðinn niður og færa verkefnið til viðskiptabankanna.

Lítum þá á lántakandann en ekki skattgreiðandann. Ber lántakandinn kostnað af því að þurfa að skipta við Íbúðalánasjóð fremur en eingöngu við viðskiptabankana? Það eru ekki mörg atriði sem koma til álita. Það er í fyrsta lagi lántökukostnaður. Ég held að menn verði fljótir að sjá, þegar þeir skoða það mál, að lántökukostnaður er lægri hjá Íbúðalánasjóði en hjá viðskiptabönkunum. Vextirnir eru lægri einmitt vegna þess að Íbúðalánasjóður er ríkissjóður og nýtur ábyrgðarinnar og þarf ekki að borga fyrir að hafa þá ábyrgð. Það má áætla að sú staðreynd að Íbúðalánasjóður þarf ekki að borga skatta til ríkisins, þarf ekki að borga arð og að hann nýtur ábyrgðarinnar þýði um 1% í útlánavöxtum. Ef Íbúðalánasjóður verður látinn starfa á sama grundvelli og bankarnir gera og með sömu arðsemiskröfu þá yrði hann að hækka útlánavexti sína um 1%. Og 1% af íbúðalánum, sem geta verið um 800 milljarðar kr., eru bara 8 milljarðar kr. á hverju ári. Þannig að í raun og veru nýtur lántakandinn a.m.k. þeirrar fjárhæðar á hverju ári í lægri útgjöldum vegna þess að sjóðurinn er eins og hann er. Reyndar er það meira því að vaxtamunurinn í Íbúðalánasjóði er ekki nema 0,32% en hjá bönkunum er hann líklega um 2% meiri. Ef við færum með vextina frá því sem Íbúðalánasjóður hefur ákvarðað og alfarið yfir í það umhverfi að viðskiptabankarnir mundu ákvarða vextina mundu þeir líklega hækka um 2%. Það yrðu um 16 milljarðar kr. á ári.

Það er t.d. viðurkennt af hálfu KB-banka að bankinn sé að greiða niður vexti af lánum sem hann hefur veitt vegna íbúðalána. Ef maður skoðar hvað sú niðurgreiðsla getur hugsanlega verið mikil hjá viðskiptabönkunum miðað við tiltekna ávöxtun, t.d. 4,10% ávöxtun, mundi ég halda að niðurgreiðsla bankanna sé ekki undir 1 milljarði á ári. Bankarnir eru því í dag að veita lán á lægri vöxtum en þeir hafa efni á. Ef við leggjum Íbúðalánasjóð niður og segjum viðskiptabönkunum að sjá um þetta má búast við því að vextir hækki um 2%. Lánshlutfallið hjá Íbúðalánasjóði er 90%, hjá bönkunum er það 80% þannig að þeir standa sig lakar að þessu leytinu til. Sums staðar er það 60% hjá bönkunum þar sem það er líka 90% hjá Íbúðalánasjóði. Búsetustaður lántakenda skiptir máli hjá viðskiptabönkunum en ekki hjá Íbúðalánasjóði. Ábyrgð á útlánum hjá Íbúðalánasjóði er sameiginleg þannig að lántakandinn fær sama hlutfall lána óháð því hvar hann býr. Því er ekki að heilsa hjá viðskiptabönkunum og menn eru dregnir þar í ýmsa dilka og sumir eru jafnvel settir út fyrir réttina og fá engin lán af því að þeir eru taldir búa á stöðum sem viðskiptabankarnir hafa ekki trú á að eigi sér framtíð.

Ef við skoðum málið út frá hagsmunum lántakandans þá mun hann ekki njóta góðs af þeirri breytingu sem leiðari Morgunblaðsins boðaði og formaður bankastjórnar Seðlabankans kallaði eftir í gær. Það er einfaldlega breyting sem mundi leiða til kostnaðarauka fyrir lántakendur á Íslandi, fjárhæðir sem mundu nema milljörðum kr. á ári, milljörðum kr. Til hvers eigum við að skipta út kerfi sem skilar hagnaði, skilar lægstu mögulegum vöxtum, skilar jafnræði til fólks óháð efnahag og búsetu fyrir annað kerfi sem er fyrir fram vitað að er dýrara og mismunar fólki verulega eins og ég hef rakið? Ég sé enga forsendu fyrir því, virðulegi forseti. Þegar menn kalla eftir slíkum breytingum kalla þeir eftir því að Alþingi íþyngi íslenskum lántakendum og skerði kjör þeirra sem taka lán til íbúðarkaupa á Íslandi. Ég get ekki fallist á, virðulegi forseti, að menn eigi að ljá máls á því hvað þá eyra við slíkum málflutningi.