132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:36]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Frumvarp til fjárlaga ársins 2006 kemur nú til lokaafgreiðslu á Alþingi. Það liggur fyrir að staða ríkissjóðs er mjög sterk um þessar mundir, tekjuafgangur frumvarpsins eins og það liggur fyrir er 19,5 milljarðar kr. sem nemur nálægt 2% af landsframleiðslu sem er meiri afgangur en flestar Evrópuþjóðir geta státað af um þessar mundir. Það verður haldið áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs og má gera ráð fyrir að þær muni nema nálægt 10% af landsframleiðslu í árslok 2006 sem er gríðarleg breyting frá því sem var fyrir um áratug þegar þetta hlutfall var nálægt 50%. Vaxtagjöld eru nú um sjöundi stærsti útgjaldaliður fjárlaga en voru í 2.–3. sæti fyrir um áratug.

Hér er verið að auka fjárheimildir til velferðarmála mjög mikið á sama tíma og stjórnarandstaðan hamrar á þeirri gömlu og slitnu klisju að verið sé að skera niður í velferðarkerfinu. Nauðsynlegt er að vara við þeim ómerkilega málflutningi sem er ósannur.

Eins og frumvarpið liggur fyrir núna eru framlög til mennta- og menningarmála 12% hærri en var í fjárlögum 2005 sem eru um 4,4 milljarðar. Fjárheimildir til heilbrigðis- og tryggingamála eru 5,8% hærri í þessu frumvarpi en í fjárlögum 2005 sem eru 7 milljarðar kr. og fjárheimildir til félagsmála eru 7,7% hærri í þessu frumvarpi en í fjárlögum 2005 sem eru 2 milljarðar. Þrátt fyrir þessar staðreyndir rembist stjórnarandstaðan við að halda því fram að ekkert sé að gerast í t.d. menntamálum. Nú sem fyrr talar stjórnarandstaðan eins og hún sé í öðrum heimi en lifi ekki í raunveruleika samtímans.

Virðulegur forseti. Þetta er gott fjárlagafrumvarp eins og það liggur hér fyrir. Við Íslendingar erum afar lánsöm þjóð að búa við þær aðstæður sem hér ríkja. Við þessar aðstæður er mikilvægt að halda vel á stjórn ríkisfjármála og það verður eitt brýnasta verkefni okkar á næstu missirum og árum í þágu samtímans en ekki síður með hagsmuni framtíðarinnar að leiðarljósi. Við ætlum okkur að halda áfram að bæta hag og lífsgæði þjóðarinnar og vera þar áfram í fremstu röð meðal þjóða heimsins.