132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:38]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fram að þessu hafa allar tillögur stjórnarandstöðunnar um þetta frumvarp verið felldar og líkur til að svo verði enn í dag, enda meiri hlutinn orðinn svo þreyttur á því að vera í meiri hluta að hann er löngu hættur að taka tilsögn eða ábendingum, hvort sem er frá stjórnarandstöðunni, almannasamtökum eða stofnunum í efnahags- og atvinnulífi. Hann er svo þreyttur á því að vera í meiri hluta að hann nennti ekki einu sinni að taka þetta frumvarp inn í fjárlaganefnd til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. þó að hann vissi að ýmislegt í þessu frumvarpi stæðist ekki.

Þau vinnubrögð sem hér hafa þróast við gerð fjárlaga sýna því miður, virðulegur forseti, að við þurfum enn að þroska með okkur lýðræðislega starfshætti, Íslendingar, því að vinnubrögðin lýsa valdhroka.

Þær tillögur sem við í Samfylkingunni stöndum hér að miða að því að auka aðhald á þenslutímum, miða að því að lækka þá skatta sem best kemur barnafjölskyldum og lágtekjufólki í landinu og miða að því að styrkja stöðu mikilvægustu framtíðarstofnana Íslendinga, framhalds- og háskólanna í landinu. Þær tillögur eru ein heild og við munum því styðja þær við afgreiðslu málsins sem ein heild en ekki taka að venju afstöðu til tillagna annarra þó að við kunnum efnislega að styðja þau málefni sem þau snerta.

Við afgreiðslu fjárlaganna sjálfra munum við sitja hjá. Í þessu fjárlagafrumvarpi eru vanræktir framhalds- og háskólar landsins sem eiga að vera undirstaða atvinnulífs og velmegunar hér til langrar framtíðar og sú uppspretta auðs í landinu sem nýjar kynslóðir þurfa á að halda. Hér gætir ónógs aðhalds og hér er 11. árið í röð verið að létta byrðunum af hinum tekjuhæstu, leggja þær á hina tekjulægstu og auka þannig misskiptinguna í íslensku þjóðfélagi. Því tökum við ekki þátt í. En það er engu líkara en að með þessu frumvarpi sé Framsóknarflokkurinn endanlega genginn í Sjálfstæðisflokkinn því að jafnvel unga fólkið sem Framsóknarflokkurinn talaði við fyrir síðustu kosningar um 90% íbúðalánin og hefur verið að veita hin stóru lán þegar íbúðaverðið hefur hækkað og hækkað, (Forseti hringir.) jafnvel þetta unga fólk svíkur Framsóknarflokkurinn nú með því að skerða enn og aftur vaxtabætur til þeirra sem á þeim þurfa að halda.