132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Með þessu fjárlagafrumvarpi festir ríkisstjórnin áfram í sessi það aukna misrétti sem fylgt hefur stefnu ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum, sérstaklega skattstefnunni sem hefur aukið á misvægi milli stétta í þjóðfélaginu þar sem hinir lakar settu sitja eftir en þeir sem hærri hafa tekjurnar njóta ávaxtanna. Þetta er sú markvissa stefna sem ríkisstjórnin hefur sett sér og fylgir nú eftir enn á ný á þriðja ári kjörtímabilsins.

Við sem höfum verið hér fyrir Frjálslynda flokkinn höfum flutt um það margar tillögur og bent á það margsinnis að persónuafsláttinn þyrfti að lagfæra ef auka ætti jöfnuð í þjóðfélaginu. Á þetta hefur ríkisstjórnin ekki hlustað. Þetta hafa samtök launþega bent á, þetta hafa aldraðir bent á, þetta hafa öryrkjar bent á.

Við afgreiðslu þessa fjárlagafrumvarps segir ríkisstjórnin auðvitað við þessa hópa: Við viljum hafa þessa stefnu svona. Við viljum auka misvægið. Við viljum sjá til þess að þeir sem hæstar hafa tekjurnar hafi það betra, en þeir sem minni tekjur hafa hafi það lakara. Og þegar að því kemur sem sennilega verður eins og venjulega að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur fellt allar breytingartillögur minni hlutans á Alþingi mun ríkisstjórnin auðvitað sitja uppi með það að bera ein ábyrgð á þessari stefnu.