132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Íslendingar standa sig ekki nógu vel í því að efla háskólamenntun í landinu. Opinberu háskólarnir þrír eiga allir í verulegum rekstrarerfiðleikum, Háskóli Íslands, Kennaraháskólinn og Háskólinn á Akureyri. Fjárveitingar gera varla að halda í við nemendafjölgun en þó hlýtur að vekja sérstaka athygli að metnaður ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, er ekki meiri en raun ber vitni fyrir hönd Háskólans á Akureyri sem samkvæmt nýjum samanburðargögnum er með lægstar tekjur á hvern nemanda af þessum skólum þrátt fyrir að þarna sé á ferðinni lítil stofnun í mikilli uppbyggingu og starfi á landsbyggðinni með þeim kostnaði sem því fylgir. Háskólanum á Akureyri er mjög treyst í sambandi við uppbyggingu fjarnáms á háskólastigi vítt og breitt um landið. Vöxtur Háskólans á Akureyri er nú að stöðvast vegna fjárskorts. Meiri er metnaðurinn ekki þrátt fyrir öll fögru orðin um hann og hversu vel heppnuð aðgerð á sviði menntunar og (Forseti hringir.) byggðamála hann er. Hér gefst mönnum færi á að bæta ráð sitt.