132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:03]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Menntamálaráðherra hefur einhliða ákveðið að einkavæða kennslu í listdansi án alls samráðs við fagaðila og þvert ofan í mótmæli listdansara, listdansnema og foreldra þeirra, meira að segja þvert ofan í mótmæli Bandalags íslenskra listamanna. Aðferðirnar sem beitt hefur verið bera þessum hæstv. menntamálaráðherra miður fagurt vitni. Á þessari stundu veit enginn hvað hæstv. ráðherra ætlast fyrir. Hvað verður um listdansnema næsta árs eða listdansnema framtíðarinnar? Munu þeir hafa húsnæði næsta haust? Hversu mikið munu skólagjöldin hækka og hvar eru fjármunirnir sem þarf til að sinna þörfum listdansnáms næsta haust þegar sú fjárveiting sem þingmeirihlutinn er búinn að skera niður um helming verður uppurin? Frú forseti. Þessi ráðstöfun er tilræði við listdansinn í landinu. Sú tillaga sem við flytjum, þingmenn Vinstri grænna, mundi tryggja Listdansskóla Íslands áfram öflugt líf en ég sé á atkvæðatöflunni að hv. þingmenn stjórnarliða ætla ekki að tryggja slíkt. Mér finnst miður að horfa á þessi skilaboð sem stjórnarliðar senda listdansinum. Ég segi já.