132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Nýjasta afrek ríkisstjórnarinnar í einkavæðingarmálum í því einkavæðingar- og hlutafélagavæðingaræði sem ríkisstjórnin er bókstaflega heltekin af er að einkavæða listina, listdans, leggja niður opinberan listdansskóla á Íslandi og ætla einkaaðilum að sjá um það mál og nemendunum að standa straum af kostnaðinum með himinháum skólagjöldum. Það er mikill metnaður fyrir hönd listarinnar sem ríkisstjórnin sýnir.

Mér varð á að horfa á hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ráðherra varð órótt, ég biðst afsökunar, ég skal reyna að horfa í hina áttina. Þar situr hæstv. menntamálaráðherra og brosir út að eyrum yfir afrekinu að einkavæða listina. Til hamingju, stjórnarflokkar, með þetta afrek. Það er þá líklegt eða hitt þó heldur að það verði til þess að hlúa að þessu starfi að taka það af fjárlögum, að svipta það þeim 50 millj. kr. eða svo sem runnið hafa úr opinberum sjóðum til að styðja við þessa list í landinu.