132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil vekja sérstaka athygli á þeirri atkvæðagreiðslu sem nú fer fram. Hér er tillaga um að Náttúruminjasafni verði látið í té 20 millj. kr. til að hefja undirbúning við stofnun eins af þremur höfuðsöfnum Íslendinga. Sömuleiðis er hér tillaga um að Ríkisútvarpið fái sérstaka fjárveitingu upp á 140 millj. til að efla innlenda dagskrárgerð. Mig langar til að bregða út af vana mínum í þessum ræðustóli og vitna í ályktun frá Landsfundi Sjálfstæðisflokksins um náttúruminjasafn en þar segir, með leyfi forseta:

„Í safnalögum, sem sett voru að frumkvæði menntamálaráðherra, er kveðið á um að hér skuli vera þrjú höfuðsöfn; Listasafn, Þjóðminjasafn og Náttúruminjasafn. Listasafn er starfrækt og Þjóðminjasafn hefur nú verið endurreist. Landsfundur vill standa við ákvæði safnalaga og að hér rísi náttúruminjasafn sem fræðir og upplýsir um náttúru Íslands og lífríki hennar.“

Frú forseti. Ég sé ekki að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu að fylgja eftir stefnu flokks síns. Ég segi hins vegar já.