132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:14]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég verð að segja það að hv. flutningsmaður þessarar breytingartillögu er að mínu mati að slá sig til riddara með heldur ósmekklegum hætti og leyfi mér að draga í efa að varatillagan sé þingleg við 3. umr. um fjárlög. Þessi tillaga er réttilega sambærileg þingsályktunartillögu Hjálmars Árnasonar o.fl. sem er núna til meðferðar í hv. menntamálanefnd. Tillagan er þar til þinglegrar og málefnalegrar meðferðar og gera má ráð fyrir að hún verði afgreidd með jákvæðum hætti úr nefndinni eftir áramót, eftir vandaða meðferð þar. Ég verð að segja að mér finnst þessi tillaga og þessi tilraun vera heldur máttlaus og ódýr til þess að vekja á sér athygli á kostnað annarra og til að koma höggi á flutningsmenn þingsályktunartillögunnar. Það vekur svolitla athygli að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hafa lagt sig fram um það á hinu háa Alþingi að tryggja vandaða og efnislega meðferð við efnislegar tillögur, skuli ekki gera það í þessu máli. Ég segi nei.