132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:47]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Sú afstaða sem kemur fram hjá stjórnarliðum við að fella þessa tillögu lýsir í rauninni afstöðu þeirra til byggðamála í landinu. Þetta er stofnun sem er gert að lappa upp á ástand á landsbyggðinni en ríkisstjórnin hefur rekið stefnu gegn landsbyggðinni, m.a. hvað varðar stefnu í atvinnuvegum hennar. Það er búið að loka sjávarútveginum fyrir nýliðum. Það er ekki eitt, það er allt. Fyrr í atkvæðagreiðslunni kom fram stefna ríkisstjórnarinnar gegn íþróttafélögunum á landsbyggðinni og nú fær þessi stofnun, sem á að rétta hlut landsbyggðarinnar, ekki eina krónu í fjárveitingu aukalega þó svo að það blasi við hverju mannsbarni í landinu sem eitthvað kynnir sér þetta mál að bæta þarf fjárhagsstöðu Byggðastofnunar.

Ég lýsi furðu yfir því að menn skuli ekki ætla að snúa við blaðinu nú þegar það blasir við öllum (Forseti hringir.) að það þarf að taka á hvað varðar þessa stofnun.