132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um góðan hug að baki þeirri tillögu sem hér er flutt um það að auka fjármuni sem lagt er til að gangi til Byggðastofnunar. Hins vegar er þetta ekki lausn mála og það vita hv. þingmenn.

Það þarf að leysa þessi mál til framtíðar og það er það sem unnið er að innan stjórnsýslunnar, þ.e. að móta tillögur til framtíðar um verkefni Byggðastofnunar. Ég vonast svo sannarlega til þess að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar komi í lið með stjórnarflokkunum í sambandi við þá vinnu sem nú fer fram þar sem við munum leggja línur um það hvaða hlutverk Byggðastofnun hefur til framtíðar. Það er það sem skiptir máli. (Gripið fram í.) Það er von mín að nú verði ekki farið í skotgrafirnar eins og oft áður heldur sýni hv. þingmenn málefnalega afstöðu í þessu máli.