132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:04]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að þessi tillaga skuli koma fram en mér finnst öllu minna hald í henni en því loforði sem kom fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni í umræðum um þingsályktunartillögu hans, hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur og Guðjóns Hjörleifssonar. En þau leggja fram tillögu um ferðasjóð til íþróttafélaga. Þar kom skýrt fram að 1. flutningsmaður væri að tala um 300 millj. kr.

Ástæðan fyrir því að menn eru að þrasa hér er einfaldlega sú að hingað til hefur þetta verið alger sýndartillaga. En ég treysti því og trúi, sérstaklega eftir að hv. formaður menntamálanefndar hefur tekið undir að málið verði tekið á dagskrá og afgreitt — það yrði þá í fyrsta sinn sem málið yrði afgreitt hjá hv. menntamálanefnd — að þau standi við loforðin. Ég treysti því að hann standi við loforð sín, svo og hv. þm. Hjálmar Árnason, Dagný Jónsdóttir og Guðjón Hjörleifsson, um að málið verði afgreitt úr nefnd á þessu þingi og til þess renni 300 millj. kr. eins og skýrt kom fram. Ég greiði ekki atkvæði.