132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Fjármálaráðherra og stjórnarliðar guma mjög af þessu frumvarpi sínu en þegar betur er að gáð er tekjuafgangurinn sem þar er fyrst og fremst tilkominn vegna þess að ríkissjóður græðir á gríðarlegum viðskiptahalla og þenslu. Ef afkoma hans er sveiflujöfnuð stendur ekki mikill afgangur eftir.

Á bak við frumvarpið lúrir gríðarlegur hagstjórnarvandi sem allir aðilar eru sammála um í þjóðfélaginu nema ríkisstjórnin ein. Hún kannast ekkert við hann og vill ekkert af honum vita. Útkoman eða horfurnar eru þrátt fyrir allt ekki vænlegri en svo að strax á árinu 2007 er gert ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með halla og síðan jafnvel viðvarandi halla í mörg ár eftir það. Það yrði m.a. vegna þess að gangi allar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eftir verða farnar fyrir borð tekjur upp á 30 milljarða kr. eða upp undir 10% af niðurstöðutölu fjárlaga eins og hún er nú. Það er því ekki víst að menn muni telja þessar gerðir eins ábyrgar að tveimur, þremur árum liðnum og stjórnarliðar vilja vera láta.

Við greiðum ekki atkvæði, frú forseti, með þessu frumvarpi. Ríkisstjórnin verður ein að bera ábyrgð á því.