132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:09]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Frumvarp hæstv. fjármálaráðherra var gott og í meðförum fjárlaganefndar hefur það batnað. Það er orðið mjög gott núna. Það er með 20 milljarða kr. afgangi þrátt fyrir að við aukum framlög stórlega til menningarmála, menntunar, heilbrigðismála og félagsmála.

Þetta er gott frumvarp. Afgangurinn er 2% af landsframleiðslu. Þannig stendur ríkisstjórnin með Seðlabankanum í baráttunni við verðbólguna og hugar að skattgreiðendum framtíðarinnar, sem munu njóta þessa afgangs. Það eru börnin okkar.

Afgangurinn er þrátt fyrir skattalækkun upp á 1% til viðbótar við 1% á síðasta ári, þ.e. 2% sem gefur venjulegum launþega hjá ASÍ 65 þús. kr. meira til ráðstöfunar á næsta ári en hann hafði fyrir tveimur árum. Þetta tekst þrátt fyrir afgang á ríkissjóði.