132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:11]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Tvennt finnst mér standa upp úr eftir umræðu um þetta fjárlagafrumvarp. Hið fyrra er hversu víðtækur stuðningur er í þinginu við tekju- og skattstefnu ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Ha?) Það kom fram í breytingartillögum að grundvallarmunurinn á skattstefnu stærsta stjórnarandstöðuflokksins og ríkisstjórnarinnar næmi um hálfu prósentustigi í tekjuskatti, sem stjórnarandstöðuflokkurinn vildi hafa tekjuskattinn hærri og um hálfu prósentustigi lægri í virðisaukaskatti. Þó að þær tillögur byggist á málefnalegum forsendum sem ég ber fulla virðingu fyrir þá verður ekki talið að sé mikill munur á skattastefnu ríkisstjórnarinnar annars vegar og stærsta stjórnarandstöðuflokksins hins vegar. Ég lít því svo á að víðtækur stuðningur sé í þinginu við skattstefnu ríkisstjórnarinnar í þessu fjárlagafrumvarpi.

Helstu pólitísku tíðindin úr þessari atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið eru hins vegar (Forseti hringir.) hve eindregin samstaða hefur ríkt milli tveggja stjórnarandstöðuflokka um flutning á breytingartillögum og stuðning við þær, annars vegar, virðulegi forseti, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hins vegar Frjálslynda flokksins. Fram undan hlýtur að vera, virðulegi forseti, að þeir tveir flokkar sameinist.