132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er ekkert sérstaklega spámannslega vaxinn. Ég vissi ekki fyrr en nú að hann áliti að hann jafnaðist á við Nostradamus. En svo gæti farið að þessar hugleiðingar hv. þingmanns yrðu til að byggja eitthvað undir hans eigin þankagang um að hann gæti hugsanlega fundið sér skjól í framtíðinni.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin festir nú niður fjárlagafrumvarp á hinu þriðja ári sínu á þessu kjörtímabili. Ég heyri að stjórnarliðar eru afar ánægðir með niðurstöðuna. Ég er það ekki, hæstv. forseti. Ég tel að stefna ríkisstjórnarinnar sé að auka enn á misvægið í þjóðfélaginu, það sé verið að hlaða undir þá sem betri hafi tekjurnar og það sé verið að taka niður kjör þeirra sem lakar eru settir.

Ríkisstjórnin ber auðvitað ábyrgð á þessari stefnu en við munum halda áfram að gagnrýna hana í Frjálslynda flokknum og greiða góðum tillögum atkvæði okkar eins og áður.