132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:20]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þess að samkvæmt starfsáætlun þess er áætlað að við ljúkum störfum á föstudaginn. Ég geri alvarlega athugasemd við það hvernig mál eru tekin á dagskrá. Þá vísa ég til fyrirspurna sérstaklega en þannig stendur á að þann 13. október sl. var útbýtt fyrirspurn sem ég lagði fram til hæstv. menntamálaráðherra um fjárframlög til grunnskólastigsins. Þessi fyrirspurn hefur ekki enn verið tekin á dagskrá og núna eru liðnir næstum því tveir mánuðir.

Í 49. gr. þingskapa stendur: „Fyrirspurn skal þó að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að henni var útbýtt.“ — Ég get skilið að það séu tafir og ég get alveg skilið að það dragist að svara fyrirspurnum en tæplega tveir mánuðir eru allt of mikið. Ég geri við þetta athugasemd vegna þess að ég veit að það á ekki að vera mikið mál að sækja upplýsingarnar sem ég óska eftir, upplýsingar um fjárframlög til grunnskólastigsins. Þar sem þessi fyrirspurn kemst ekki á dagskrá nú þegar fyrirspurnir eru teknar fyrir og hæstv. menntamálaráðherra er hér til svara óska ég eftir því, og mun óska eftir því formlega, að þessi fyrirspurn verði prentuð upp og ég mun biðja um að henni verði svarað skriflega. Ég mun óska eftir því að það verði gert áður en þing lýkur störfum og það verði gert vegna þess að hér hefur ekki verið farið að þingsköpum hvað varðar svar við þessari fyrirspurn.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hver ástæðan er fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki svarað, hvort hún hafi kannski ekki treyst sér til að svara þessari spurningu, mögulega vegna þeirra upplýsinga sem þar koma fram. Það hlýtur að hvarfla að manni. Ég ítreka þá ósk mína að ég fái skriflegt svar áður en þing lýkur störfum þegar ég hef látið prenta þessa fyrirspurn upp.