132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Fyrirspurnir á dagskrá.

[15:27]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Maður undrar sig oft á því hve langan tíma tekur fyrir hæstv. ráðherra að svara fyrirspurnum. Ég er ekki hissa á því að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafi spurt að því hér eftir að hún lagði þann 13. október fram jafneinfalda fyrirspurn og hér um ræðir. Hæstv. ráðherra segir okkur að ekki hafi gefist tími til að svara fyrirspurninni vegna þess að hún hefði þurft að sækja upplýsingar út fyrir ráðuneytið og það hefði ekki tekist.

Þegar ég vissi fyrr í dag að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir ætlaði að spyrja þessarar spurningar minnti mig að svörin við henni væri jafnvel að mestu leyti hægt að finna í Árbók sveitarfélaga sem gefin er út núna árið 2005. Ég fletti upp í henni, gaf mér nokkrar mínútur með reiknivél og blýant og ég treysti mér til að svara fyrirspurn hv. þingmanns nánast úr pontu eins og hún er lögð fram. Hv. þingmaður spurði:

„Hver voru heildarútgjöld sveitarfélaganna til grunnskólastigsins árið 2004?“ — Svarið er: Þau voru 29.401.382 þús. kr.

„Hver var nemendafjöldi sama ár?“ — Hann var 44.511 nemendur. Meðalkostnaður á nemanda var 660.542 kr.

Síðan er spurt um heildarútgjöld ríkisins til grunnskóla síðasta heila árið áður en sveitarfélögin tóku alfarið við rekstri grunnskólans á verðlagi ársins 2004. Þær upplýsingar er ekki að finna í Árbók sveitarfélaga en þar er upplýsingar að finna fyrir fyrsta heila árið sem sveitarfélögin voru með grunnskólann. Það var árið 1997 og þá nam kostnaður rúmum 15 milljörðum. Nemendur voru 42.318, kostnaður á nemanda 361.761, reiknað upp á verðlagi dagsins í dag 493.762. Það munar á verðlagi dagsins um 170 þús. kr. á nemanda.

Hvaða upplýsingar eru það sem ráðherrann hafði ekki?