132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Aðgangur að opinberum háskólum.

114. mál
[15:54]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er undarlegt að heyra að það er verið að undirstrika mikilvægi framhaldsskólans og stúdentsprófsins en um leið er verið að tala um í hina röndina að slaka á kröfum varðandi inntökuskilyrði í Háskóla Íslands. Að sjálfsögðu verður ákveðið svigrúm að vera til staðar og menn verða að líta einfalt á málin en það er einu sinni þannig að það hefur engum verið hafnað sem hefur uppfyllt inntökuskilyrðin í Háskóla Íslands eða Háskólann á Akureyri. Það er rétt að undirstrika að það er pláss fyrir fleiri sem vilja stunda kennaranám í kerfinu eins og það er byggt upp í dag og það er rétt að undirstrika það og minnast þess að t.d. Samfylkingin fór gegn því að sameinast Tækniháskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík sem m.a. hafði það í huga og hefur þegar sett á laggirnar öfluga kennaradeild, en rétt er að undirstrika að Samfylkingin studdi ekki að það yrði gert.

Í heildina séð má segja að við séum að sinna þörf Íslendinga fyrir háskólamenntun gríðarlega vel miðað við þá miklu ásókn sem hefur orðið í þeirri miklu og góðu menntabyltingu sem sumir hafa ekki viljað standa að. Það er í rauninni ekkert annað land miðað við þessa miklu menntasókn sem við höfum staðið fyrir og þá miklu fjölgun sem þingmenn stjórnarandstöðunnar eru búnir að átta sig á og eru byrjaðir að viðurkenna. Við erum að fjölga þeim sem við tökum á móti inn í háskólana meira en allar aðrar þjóðir og við gerum það hratt, fljótt og vel og það er ekki síst fyrir þær sakir að við höfum komið á samkeppni sem reyndar enn og aftur sumir hafa ekki stutt, leiðinlegt að undirstrika það fyrir ykkar hönd. En enn og aftur hefur fjölbreytnin leitt til þess að við getum tekið á móti fleirum í kennaranám en nú er gert. Það segir umhverfið.

Síðan er rétt að taka það fram að í skýrslu Ríkisendurskoðunar um grunnskólakennara sem birt var á sínum tíma, kemur í ljós að skólaárið 2008–2009 verður kennaraskortur í grunnskólum óverulegur og þörfin ekki lengur til staðar varðandi fleiri kennara.