132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Dreifikerfi Ríkisútvarpsins fyrir stafrænt sjónvarp.

188. mál
[16:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina því að hún dregur athyglina að því mikilvægi að efla innlenda dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu. Að sjálfsögðu verður að fara mjög gaumgæfilega yfir alla þætti, kostnaðarmikla þætti sem geta leitt til sparnaðar á ákveðnu sviði en um leið eflt innlenda dagskrárgerð, þ.e. aukið fjármagnið til þess þáttar sem er okkur svo mikilvægur innan Ríkisútvarpsins.

Það var einnig hárrétt sem hv. þm. Mörður Árnason kom inn á áðan varðandi flutningsréttinn og flutningsskylduna að þetta var stórt og veigamikið atriði í þeirri fjölmiðlaskýrslu sem var kynnt í vor og að mínu mati kannski merkilegasta ákvæðið hvað varðar rétt neytenda á þessum ljósvakamiðlum. Ég tel því afar mikilvægt að við förum heildstætt yfir þetta mál, sjáum hvað líður meðferð frumvarps til laga um breytingu á Ríkisútvarpinu við að breyta því í hlutafélag. Við þá breytingu mun skapast að mínu mati töluvert svigrúm til að mæta þeim þörfum sem við erum að kalla eftir.